-3.3 C
Selfoss

Týnd verðmæti eldri borgara

Vinsælast

Um þrjátíu og átta þúsund  eldri borgarar hafa mætt ósanngirni ríkistjórna og félagasamtaka undanfarin mörg ár. Þeir fá ekki neinar hækkanir greiðslna frá Almannatryggingum (TR) og réttur þeirra hjá stéttar- og verkalýðsfélögum fellur niður og lífeyrissjóðsinneignir falla í verði.

Greiðslur sem týnast

Greiðslur stéttarfélaga og verkalýðsfélaga til starfsmanna sinna vegna ýmissa tilgreindra útgjalda týnast, þegar þeir verða eldri borgarar og ekkert kemur þar í staðinn frá almannatryggingum eða sjúkratryggingum. Þeir fá þó í flestum tilfellum að sækja um sumarbústaði áfram, sem þeir lögðu fram framlag til að byggja.  Áunninn réttur til hjálpar og styrktar fellur hins vegar niður. Hafa félögin gleymt stöðu þessa fólks, sem greiddi öll starfsár sín prósentur af launum til hinna mörgu sjóða sem félögin sjá um? Hvers vegna sameinast ekki stéttarfélög og verkalýðsfélög í baráttu gegn því óréttlæti, sem eldra fólki er beitt með  óbreyttum skerðingum á greiðslum frá TR vegna lífeyrissjóðsgreiðslna og hins vegar einnig þess lífsréttar, að fá að vinna sér til bjargar?

Lífeyrissjóðirnir

Það er ekki lengra síðan en árið 1969, að því kerfi var komið á að launþegar skyldu greiða 12% af launum sínum að meðtöldu mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð, sem launþeginn átti síðan að fá greitt úr eftir 67 ára aldur. Þeir samningar náðust í tengslum við allsherjar kjarasamninga á vinnumarkaði og kváðu fyrst á um greiðslur af dagvinnu. Í kjölfarið voru stofnaðir lífeyrissjóðir út um allt land um 100 að tölu, en þeir hafa síðan sameinast í um 8 virka sjóði af 21 sjóði. Þetta náðist fram með verkfallsbaráttu og samkomulagi við atvinnurekendur. Breytingar á fyrirkomulagi og greiðslum til sjóðanna hafa síðan aftur og aftur verið gerðar með sama hætti í kjölfar kjarabaráttu verkalýðsfélaga, s.s. að greiðsluprósenta hefur miðað við öll laun og hækkað verulega. Samsvarandi lífeyrissjóðskerfi fyrirfinnst hvergi annars staðar og má virða til þess að þetta sé viðbótarskattur á laun og þar með að Íslendingar greiði hæsta skatt í heimi af launum sínum.

Fram til ársins 1988 greiddi launþeginn skatt af þessu iðgjaldi. Það ár var lögum hins vegar breytt í þá veru að iðgjaldið var undanþegið skatti, en greiðsla sem samsvaraði skatti af iðgjaldinu var innt af hendi til lífeyrissjóðanna. Í dag er brotið á lífeyrisþega með tvennum hætti:  Reikna ætti út persónulega skattgreiðslur hvers og eins til ársins1988 af launum viðkomandi og endurgreiða honum með vöxtum ef óbreyttu fyrirkomulagi er viðhaldið, að skattleggja lífeyrissjóðsgreiðslur, því tvísköttun af sama stofni fjármagns er ólögleg. Einnig ætti að meta það hlutfall greiðslna eftir 1988 frá lífeyrissjóðunum, sem er vaxta og fjármagnstekjur,  sem yrðu þá í sama hlutfalli skattlagðar  með 22%, fjármagnstekjuskatti.

Krafa um leiðréttingu

Ef ofangreind atriði verða ekki leiðrétt af öllum þeim aðilum, sem að þessari ósanngjörnu meðferð á eldri borgurum koma, hljóta eldri borgarar að fylgja fast eftir lögsókn Grá hersins og fleiri um að greiðslur frá TR verði ekki skertar á móti lífeyrissjóðsgreiðslum.

Halldór Gunnarsson, formaður kjararáðs eldri borgara í Rangárvallasýslu.

 

Nýjar fréttir