11.1 C
Selfoss

Nytjamarkaðurinn í eigið húsnæði

Vinsælast

Framtíð Nytjamarkaðs Hvítasunnukirkjunnar hefur verið tryggð með kaupum á húsnæði við Gagnheiði 32. Ljóst er að mörgum léttir við þessar fréttir en um tíma leit út fyrir að leggja þyrfti markaðinn niður vegna skorts á hentugu húsnæði. Nýtt húsnæði uppfyllir hinsvegar mjög vel þarfir markaðarins sem mun hafa um 450 fermetra til umráða þegar allt er komið í notkun á nýjum stað.

„Aðgengi verður mjög gott, þar eru næg bílastæði, góð aðstaða verður til að taka á móti vörum og hátt er til lofts og veggja. Framundan á næstu vikum eru talsverðar endurbætur á húsnæðinu, bæði að utan og innan. Fjöldi sjálfboðaliða mun koma að verkinu og margir munu leggja hönd á plóginn til þess að gera markaðinn sem best úr garði,“ segir , Dagný Dögg Sigðurðardóttir, verslunarstjóri Nytjamarkaðarins.

Mikill stuðningur er við verkefnið í samfélaginu samkvæmt Dagnýju: „Við finnum fyrir mjög miklum velvilja hvert sem við leitum. Allir sem við leitum til virðast vera boðnir og búnir til að hjálpa og styðja við verkefnið með beinum eða óbeinum hætti. Það er ljóst að mörgum þykir vænt um starfsemina. Verslunin er rekin í góðgerðarskyni og hagnaður fer allur í að styrkja slík málefni.“

Stefnt er að því að opna fyrsta hluta markaðarins snemma í febrúar og seinni hlutann í mars. Nú stendur yfir rýmingarsala á gamla staðnum og því er gott tækifæri til að gera góð kaup.

Nýjar fréttir