7.3 C
Selfoss
Home Fréttir Hvers vegna Hálendisþjóðgarð?

Hvers vegna Hálendisþjóðgarð?

0
Hvers vegna Hálendisþjóðgarð?

Ég hef verið spurður hvers vegna jeppakallinn ég vilji Hálendisþjóðgarð.

Í 18. gr. í lagafrumvarpi um Hálendisþjóðgarð stendur: „Akstur vélknúinna ökutækja utan vega í Hálendisþjóðgarði er bannaður. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega svo fremi sem jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst að ekki sé hætta á náttúruspjöllum.“ Það er gott og blessað en það eru markmiðin með stofnun þjóðgarðsins sem koma fram í 3. gr lagafrumvarps um Hálendisþjóðgarð sem skipta mig öllu máli. Ég tek heilshugar undir þessi markmið og ég hef enga ástæðu til þess að halda að ekki verði staðið við þau.

  1. Vernda náttúru og sögu þjóðgarðsins, svo sem landslag, víðerni, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar og tryggja tilvist heildstæðra vistkerfa og náttúrulegra ferla.
  2. Gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru, menningar og sögu þjóðgarðsins.
  3. Auðvelda almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra hans spillist.
  4. Stuðla að því að almenningur geti stundað útivist innan þjóðgarðsins í sátt við náttúru og menningarminjar.
  5. Leitast við að efla samfélag og styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins og á landinu öllu, meðal annars með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar á gæðum svæðisins.
  6. Þjóðgarðurinn verði vettvangur umræðu og ákvarðanatöku um landnýtingu innan þjóðgarðs og þróun hennar.
  7. Stuðla að rannsóknum og fræðslu um þjóðgarðinn og ýta undir aukinn skilning almennings á gæðum og sérstöðu hans.
  8. Endurheimta vistkerfi sem hafa raskast.
  9. Varðveita þjóðlendur í þjóðgarði og viðhalda virði þeirra í náttúrufarslegu og menningarlegu tilliti.
  10. Stuðla að samvinnu og samstarfi við félög og sjálfboðaliða um málefni landsvæðisins.

Er einhver ástæða til þess að amast við þessum ítarlegu markmiðum. Liggja þau fyrir annars staðar?

Með stofnun hálendisþjóðgarðs verði skipulag samræmt á hálendinu. Vissulega verður skipulagsvald einstakra sveitarfélaga settur ákveðinn rammi, en samkvæmt 8. gr. frumvarpsins um stjórn Hálendisþjóðgarðs kemur fram að  af 11 stjórnarmönnum tilnefna aðliggjandi sveitarfélög 6 og einn fulltrúi tilnefndur af hverjum eftirtalinna aðila: útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, Bændasamtökum Íslands og einn fulltrúi tilnefndur sameiginlega af ferðaþjónustusamtökum á rekstrarsvæðum þjóðgarðsins og Samtökum ferðaþjónustunnar.

Sex af 11 eru tilnefndir  af kjörnum sveitarfélagfulltrúum og 4 af ýmsum félagasamtökum. Ég sé ekki að ráðherra geti hundsað þessar tilnefningar. Hann velur aðeins formanninn.

Gert er ráð fyrir a.m.k sex rekstrarsvæðum sem eru sjálfstæðar rekstrareiningar á ábyrgð þjóðgarðsvarðar. Einnig þar hafa fulltrúar sveitarfélaganna meirihluta í stjórn 5 af 9 og hinir 4 eru valdir af félagasamtökum.

Sveitarfélögin sem nú hafa skipulagsvaldið munu hafa hreinan meirihluta, sem þurfa þau að deila sín á milli í stjórn Þjóðgarðsins og í svæðisstjórnunum og þau hafa ramma sem þau þurfa að fylgja en þau halda skipulagsvaldinu að mestu leyti.

Ég sé ekki að stjórnun Þjóðgarðsins geti orðið öllu lýðræðislegri, ólíkt lýðræðislegri og samræmdari heldur en stjórnun og skipulag hálendisins er núna, þar sem mörg sveitarfélög hafa skipulagsvald hvert á sinni ræmu eða svæði. Vissulega þarf ég sem íbúi í Árborg að nýta mér þátttöku í einhverju áhugamannafélagi, ferðafélagi, náttúruverndarsamtökum eða samtökum ferðaþjónustuaðila til að hafa áhrif þangað til Árnesþing verður eitt sveitarfélag og tilnefnir í stjórn og svæðisstjórn. Ég geri ráð fyrir því að sveitarfélögin tilnefni fólk í stjórnir þjóðgarðisins og svæðanna sem hefur áhuga á að vinna af samviskusemi að markmiðum laganna í 3. gr. Það geta verið sauðfjárbændur, ferðaþjónustuaðilar, veiðileiðsögumenn eða útivistarfólk.

Stjórn og svæðisstjórnum er falið mikið hlutverk, einkum í upphafi í samstarfi við forstjóra og annað starfsfólk Þjóðgarðsins. Ráðherra setur reglugerðir sem byggja á þeirri vinnu.

Það er talað um heimildir ráðherra að setja reglugerðir sem hindra umferð um hálendið. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir að þær heimildir og skyldur ráðherra eru nú þegar í „Lögum um náttúruvernd nr. 60/2013“ Það sem er einnig athyglisvert að þar getur nánast verið geðþóttaákvörðun ráðherra eða Umhverfisstofnunar hvaða takmarkanir eru settar um umferð um óbyggðir og nýtingu á t.d. plöntum. Í lagafrumvarpinu um Hálendisþjóðarð er gert ráð fyrir samráði. Það má ekki gleyma því að enginn ráðherra má setja reglugerð nema hún hafi stoð í lögum.

Í lögum um náttúruvernd eru ákvæði um þjóðgarða í 47. gr. „Í þjóðgörðum eru allar athafnir og framkvæmdir sem hafa varanleg áhrif á náttúru svæðisins bannaðar nema þær séu nauðsynlegar til að markmið friðlýsingarinnar náist. Frjálsa för fólks samkvæmt almannarétti er aðeins hægt að takmarka á afmörkuðum svæðum í þjóðgörðum þar sem það er nauðsynlegt til að vernda plöntur, dýr, menningarminjar eða jarðminjar.“ Takið eftir síðustu málsgreininni, hún tekur fram að það eru skilyrði fyrir því að takmarka frjálsa för fólks. Þeir sem leggjast gegn stofnun Hálendisþjóðgarða ættu að lesa í gegnum lög nr 60/2013 um náttúruvernd.

Ég vil Hálendisþjóðgarð vegna þess að með honum verður meira samræmi í skipulagi miðhálendisins. Ég sé fyrir mér svæðisbundnar gestastofur þar sem við getum fengið fræðslu um hvert svæði. Þar sem fyrir liggja upplýsingar um hvernig er best að ferðast um svæðið, hvað er mikilvægt að skoða og hvað ber að forðast, t.d. að fara ekki á jeppling inn í Tjarnarver. Að landverðir stiki bestu gönguleiðirnar að áhugaverðum stöðum og milli áhugaverðra staða, t.d. fossunum í og við Þjórsá. Ég er sannfærður um að með tímanum muni ferðamenn dreifast miklu betur um hálendið og átroðningur minnki á þeim stöðum sem nú liggja undir skemmdum.

Fyrirliggjandi frumvarp ber vissulega merki um málamiðlanir t.d. varðandi orkuvinnslu þannig að tekið er tillit til rammaáætlunar, vald sveitastjórna er mikið, beitar- og veiðiréttur er virtur. Það þarf að byrja einhvern tíma, nú er heppilegur tími, það er ráðrúm á meðan ferðaþjónustan er að rísa upp á ný. Svona framkvæmd verður aldrei þannig að öllum verði gert til hæfis, en þarna fer af stað langtíma þróunarvinna.

Þorsteinn Ólafsson

Höfundur er eftirlaunamaður sem býr á Selfossi.