7.8 C
Selfoss

Áramótapistill oddvita Hrunamannahrepps

Vinsælast

Um áramót hefur það verið siður hér í Hrunamannahreppi að oddviti taki saman smá pistil til upplýsinga.  Hér má lesa áramótapistil Hrunamannahrepps um áramót 2020/2021.

Nú er nýtt ár gengið í garð og árið 2021 tók á móti okkur með logni og sól á fyrsta degi ársins.  Það verður vonandi hægt að segja í lok árs að árið hafi mestmegnis einkennst af logni og sól hvort sem er í veðri eða öðrum hlutum.

Árið 2020 er ár sem má segja að hafi verið árið sem við þurftum að breyta hefðum og venjum, og hið venjulega norm hafi breyst. Þó árið hafi á margan hátt verið erfitt og krefjandi má einnig segja að það hafi kennt okkur ýmislegt jákvætt.

Okkur Hrunamönnum heldur áfram að fjölga og einnig er svo með íbúðir á svæðinu en á síðasta ári voru byggðar nokkuð af íbúðum sem nú eru fullar af lífi eða eru að fyllast.  Einnig hefur verið nokkur sala á eldri húseignum á svæðinu.  Við erum að komast í þrot með lóðaframboð og því er það ánægjulegt að nú er að fara í gang gatnagerð í nýju íbúðasvæði í Gröf. Byrjað verður á Reynihlíð og Birkihlíð í fyrsta áfanga og munum við fara í að auglýsa lóðir nú á næstu vikum.

Nú í desember lauk vinnuhópur um fýsileikakönnun á uppbyggingu á hjúkrunarheimili vinnu sinni. Niðurstaða hópsins var að raunhæft er að hjúkrunarheimili verði byggt hér í uppsveitunum og hvatti til að halda áfram að vinna að þeirri uppbyggingu í samvinnu við þau sveitarfélög hér í kringum okkur sem áhuga hafa.  Nú er því verið að skipa í sameiginlegan vinnuhóp með Bláskógabyggð og Grímsnes-og Grafningshreppi til að halda áfram með verkefnið sem mun vonandi leiða til þess að í nánustu framtíð sjáum við hjúkrunarheimili hér í uppsveitum Árnessýslu.

Verkefni heilsueflandi samfélags eru í fullum gangi og hefur verkefnisstjóri verið duglegur að koma með nýjungar og hvatningar til fólks um heilsueflingu í breyttu umhverfi. Hvet ég alla til að huga vel að heilsueflingu nú sem endra nær.

Í byrjun desember samþykkti sveitarstjórn að taka þátt í verkefninu, barnvænt samfélag og tengja það jafnframt við innleiðingu á heimsmarkmiðunum. Inn á heimasíðu verkefnisins er hægt að sjá upplýsingar um verkefnið og ég hvet alla til að skoða það   http://barnvaensveitarfelog.is/  .

Í lok árs var fjárhagsáætlun fyrir 2021 samþykkt.   Áætlunin gerir ráð fyrir jákvæðri rekstarniðurstöðu hjá A og B hluta upp á tæpar 10 milljónir.  Nettófjárfestingar ársins verða um 336,5 milljónir og skiptist hún í 111,5 millj í eignasjóði, 35 millj. í fráveitu, 76 millj. í vatnsveitu, 112 millj. í hitaveitu og 2 millj. í Hrunaljós.

Heilmiklar vegaframkvæmdir eru fyrirhugaðar í sveitarfélaginu á næstunni og hægt er að gleðjast yfir því.

Verið er að vinna í að fá samþykki landeigenda fyrir breytingum á Hrunavegi og Langholtsvegi en nú styttist í að þeir verði lagfærðir og lagðir slitlagi.

Hringtorgið við búðina verður loksins að veruleika á þessu ári og verður verkefnið boðið út fljótlega.  Það verður heilmikil framkvæmd og má segja að stór hluti af framkvæmdafé okkar þetta árið tengist hringtorginu en í tengslum við þá framkvæmd munum við laga veginn í átt að sundlauginni og jafnframt svæðið fyrir framan félagsheimilið.

Nú er verið að hanna nýja brú yfir Stóru Laxá og stefnt er að því að bjóða þá framkvæmd út á árinu.

Verið er að leggja lokahönd á lagningu ljósleiðara á Flúðum og geta því íbúar farið að semja við fjarskiptafélögin um tengingar. Þegar tengingum á Flúðum er lokið er allt sveitarfélagið orðið ljósleiðarartengt.

Skólarnir okkar hafa staðið í ströngu þetta árið og starfað við mjög óvenjulegar og krefjandi aðstæður. Óhætt er að segja að starfsmenn og nemendur hafa staðið sig vel í þeim áskorunum sem þetta ástand hefur lagt á okkur.

Mig langar að þakka öllu starfsfólkinu okkar fyrir hversu lausnamiðað það var í þeim verkefnum sem lágu fyrir á árinu og hversu vel þau leystu þau.

Stytting vinnuvikunnar kom til framkvæmda hjá stærstum hluta starfsfólks sveitarfélagsins núna 1. janúar.  Það er áskorun að púsla saman þannig að það henti flestum.  Stytting vinnuvikunnar er verkefni alls samfélagsins, bæði atvinnurekenda og launþega og því nauðsynlegt að hægt sé að samræma óskir og kröfur svo að það henti sem flestum en ljóst er að breytingar sem þessar koma alltaf til með að hafa áhrif.

Okkar öfluga íþrótta-, æskulýðs- og menningarstarf hefur eins og aðrir þurft að breyta sínu starfi eða setja í pásu.   Það finna það allir þegar ekki er lengur hægt að stunda tómstundastarf  hvað það er ómetanlegt að hafa það val að geta tekið þátt í svona starfi og vonandi  styttist í þann tíma að hægt er að koma starfinu öllu á fullt skrið aftur.

Mörg mál hafa komið inn á borð hjá okkur á liðnu ári og hvet ég alla til að lesa fundargerðir sveitarstjórnar, sem hægt er að nálgast á heimasíðunni okkar, til að fylgjast með því sem er að gerast á borði sveitarstjórnar því erfitt er að koma því öllu fyrir í einum pistli.

Að lokum við ég óska þeim, Jóhannesi og Kristínu í Hvammi 2a  sem fengu umhverfisverðlaun Hrunamannahrepps, Vinnustofunni Kjallaranum  sem fengu umhverfishrós Hrunamannahrepps, Þórdísi Jónu Kristjánsdóttur  sem var kosinn íþróttamaður Hrunamannhrepps, og  öllum þeim sem með atorku sinni og dugnaði náðu langt, innilega til hamingju með viðurkenningarnar.

Einnig vil ég enda á því að  þakka :

-öllum þeim sem leggja sitt af mörkum  til að gera samfélagið okkar eins gott og það er.

– Öllu okkar góða starfsfólkinu fyrir þeirra störf, bæði þeim sem starfa hér hjá okkur í sveitarfélaginu og þeim sem starfa fyrir okkur í samstarfsverkefnunum.

– Öllu nefndarfólkinu okkar sem situr í nefndum sveitarfélagsins fyrir þeirra störf.

-Sveitarfélögunum hér á svæðinu fyrir gott samstarf á árinu.

-og sveitarstjórn fyrir gott starf á árinu og góða samvinnu.

 

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og vona að nýja árið verði okkur öllum bjart og fagurt.

Halldóra Hjörleifsdóttir oddviti Hrunamannahrepps.

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir