-6.6 C
Selfoss

Það er ofurmikilvægt að skrifa fyrir börn og um börn af kærleika

Vinsælast

Kjartan Ágústsson er alinn upp á Löngumýri á Skeiðum. Fór í Menntaskólann að Laugarvatni en lærði síðan íslensku í HÍ og lauk þar BA prófi og tók kennsluréttindi. Kenndi í FSu, Grunnskólanum á Ísafirði og  kennir nú í Þjórsárskóla.  Kjartan var oddviti Skeiðahrepps í tvö kjörtímabil. Er fjárbóndi og með hross, nokkur landnámshænsni auk katta og hunds. Rabarbararæktandi sem býr til sultur og rabarbarakaramellur. Hann á 16 ára dóttur sem er mikil hestastelpa og nýtur pabbinn þess að vera hestasteinn og hestasveinn fyrir hana. Helsta áhugamál Kjartans utan vinnunnar er lestur en uppáhalds matur hans er lambasmásteik með rabarbarasultu og íslenskum kartöflum.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er að byrja á Konan sem elskaði fossinn eftir Eyrúnu Ingadóttur. Fékk hana í jólagjöf en hef lengi dáðst að dugnaði og þrautseigju Sigríðar í Brattholti. Svo keypti ég mér Birtingaljóð og laust mál og lofar sú bók mjög góðu. Þá er ég  nýbúinn með Safn íslenskra smásagna 1847 – 1974 í útgáfu Almenna bókafélagsins.  Annars er ég venjulega með einhverjar skopsögur, smásagnasöfn og að ógleymdum barnabókum nálægt rúminu. Það er fátt betra til að viðhalda eða endurnýja barnið í sér en að lesa barnabækur. Gallinn er reyndar sá að ég les ekki lengi á kvöldin vegna þungra augnloka. Hins vegar vakna ég oft mjög árla og gríp þá í einhverja góða til að glugga í.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég er hrifinn af þjóðlegum fróðleik og sagnaþáttum. Gamlar íslenskar skáldsögur höfða einnig til mín og auðvitað nýrri líka. Glæpasögur hafa aldrei náð til mín fyrr en ég féll fyrir einhverjum slíkum í fyrra þegar ég datt í að hlusta á Storytell. Það er snilldin ein fyrir einbúa sem hafa lítinn tíma fyrir lestur en geta hlustað við vinnuna. Tala nú ekki um þegar þeir sofna um leið og þeir leggjast á koddann.

Ertu alinn upp við bóklestur?

Já það var lesið fyrir mig og eldri systkini mín og mörg hver eru þau miklir bókaormar. Ég var frekar seinlæs en las engu að síður nokkuð mikið. Mamma var vel lesin og fróð og hafði sterkar skoðanir á höfundum og líklega fékk ég eitthvað af því með móðurmjólkinni.

Uppáhaldsbækur þessa tíma voru íslenskar barnabækur með dýrum í stórum hlutverkum. Nægir þar að nefna Salómon svarta. Óla Alexander man ég líka vel eftir. Einnig voru sögur af óknyttastrákum ofarlega á leslistanum eins og Grímur grallari. Ekki má svo gleyma því að í FSu datt ég í lukkupott þar sem ég kenndi áfanga um barnabókmenntir. Þá las ég barnabækur í gríð og erg og naut þess ásamt því að kenna og ræða um sögurnar fram og til baka.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég les venjulega eitthvað á hverju kvöldi mislengi eftir stöðu augnloka. Les á morgnana þegar ég vakna fyrir allar aldir. Það gerist æ oftar í seinni tíð. Síðan komst ég á að hlusta á Storytell. Það er einfaldlega magnað að geta látið lesa fyrir sig sögu hvort sem það er í fjárhúsi við gegningar eða uppvask í eldhúsi. Afköst aukast og oft hef ég staðið mig að því að gera meira en til stóð þar sem sagan var of spennandi til að hætta.

Áttu þér einhvern uppáhalds höfund?

Ætli ég geti ekki sagt að ég eigi nokkra eða öllu frekar eru ákveðnar bækur þeirra í uppáhaldi. Guðrún Helgadóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Gunnar Helgason og Magnea frá Kleifum koma upp í hugann sem frábærir höfundar sem ná eða náðu vel til barna, en hver á sinn hátt. Ég nefni þær af því það er svo ofurmikilvægt að skrifa fyrir börn og um börn af kærleika og umhyggju og geta túlkað börn á einlægan hátt eins og þau eru. Uppátæki Jóns Odds og Jóns Bjarna eru sígild og það þarf að dusta rykið af þeim reglulega. Þarna er mikill fjársjóður sem bráðnauðsynlegt er að halda að börnum. Gunnar Gunnarsson hefur líka verið í nokkru uppáhaldi og tók ég miklu ástfóstri við skáldsögu hans Svartfugl þegar ég kenndi í FSu. Á ég þar nokkrar uppáhalds persónur og setningar sem ég nota gjarnan. Eins og með konuna sem laug svo deginum ljósara að það var sannleikur á sína vísu.

Hefur bók rænt þig svefni?

Já það gerðist af og til fyrir einhverjum árum. En nú sofna ég venjulega fáum mínútum eftir að ég leggst út af.

En að lokum Kjartan, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Ekki spurning að það yrðu barnabækur með þó nokkru magni af svokölluðum pabbabröndurum og miklum boðskap. Þar fengi ég útrás fyrir prédikunarþörfina, prestinn sem blundar í mér og smáaulafyndni. Tilfellið er að mér finnst gaman að skrifa en ég hugsa nú samt að foreldrar og börn geti sofið róleg eitthvað áfram. En hvað mun gerast þegar ég hætti að kenna skal ósagt látið.

 

___________________________________

Lestrarhestur númer 106. Umsjón Jón Özur Snorrason.

Nýjar fréttir