7.3 C
Selfoss

„Víktu að mér vori“

Vinsælast

Nýtt tungl lýsir
gömlu mannkyni
elt uppi af stakri stjörnu

Svo fer nótt að sveitum

Þú hristir heiminn
í lófa þér
snjórinn þyrlast yfir
grundir

Láttu ekki blekkjast
af brosi mínu
sýndu mildi
og víktu að mér vori
                  Annar í jólum eftir Gerði Kristnýju

Sýndu mildi og víktu að mér vori segir Gerður Kristný í ljóði sínu Annar í jólum. Í heimsfaraldri biðjum við um mildi og betri tíð. Við vitum ekki hvað bíður á nýju ári. Aðeins að sólin á eftir að hækka á lofti.

Við vorum vongóð í ársbyrjun. Hér var flest í blóma þótt blikur væru á lofti í ferðaiðnaðinum. Atvinnuleysi hafði farið vaxandi og um 10.000 manns voru í atvinnuleit í febrúar. Einmitt þá fóru að berast fréttir af óvenju skæðri veiru sem geisaði í Wuhan héraði í Kína og kölluð var Covid19. Fáir gerðu sér grein fyrir því þá hvaða afleiðingar veiran myndi hafa. Að hér ætti heimsfaraldur eftir að fara sem eldur í sinu um heimsbyggðina og skilja eftir sig dauða, heilsubrest og mestu efnahagsþrengingar í heila öld. Tilhugsun um að heimsfaraldur gæti gert slíkan usla í nútímasamfélagi var okkur víðs fjarri þá. En nú, tæpu ári síðar má segja að við séum orðin  sérfróð um sóttvarnir og sóttvarnaraðgerðir og búum yfir reynslu sem mun vara lengi.

Árið 2020 gæti lifað í minningunni sem ár erfiðleika, kreppu og sorgar en þess gæti einnig verið minnst sem árs samstöðu og samhjálpar ef við berum gæfu til þess að taka réttar ákvarðanir og byggja upp samfélag sem stendur með öllum sínum þegnum í gegnum erfiðleika. Gerir allt sem í mannlegu valdi stendur til veita bestu umönnun háum sem lágum, sjúkum sem frískum. Blessunarlega hafa dauðsföll hér á landi orðið færri en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir, svo er sóttvarnarteyminu víðfræga og samstöðu þjóðarinnar fyrir að þakka og frábæru heilbrigðisstarfsfólki sem spyr ekki um stétt né uppruna.

Margir hafa orðið fyrir þungum áföllum, orðið veikir og þurft að glíma við eftirköst, sumir hafa horft á eftir ástvinum, fjölmargir hafa misst atvinnuna og jafnvel aleiguna og munu líklegast þurfa að glíma við afleiðingarnar til lengri eða skemmri tíma. Faraldurinn hefur sannarlega valdið dýpstu efnahagslægð í sögu þjóðarinnar. En öll él styttir upp um síðir og nú í árslok bárust fregnir af bóluefni sem við bindum öll miklar vonir við. Faraldurinn sýndi okkur hvar styrkur okkar liggur en hann undirstrikaði einnig veikleikana.

Þegar þessi orð eru skrifuð eru um 21.000 íbúar landsins í atvinnuleit og lifa af atvinnuleysisbótum. Og annar eins fjöldi dregur fram lífið á örorkulífeyri og ellilífeyri einum. Þessi hópar eru þeir sem bera þyngstu fjárhagslegu byrðarnar í kreppunni. Margir eiga vart til hnífs og skeiðar og geta ekki leyft sér neinn munað yfir hátíðarnar.

Við jafnaðarmenn köllum eftir samstöðu með þessu fólki. Við viljum tryggja að samfélagið hlaupi hér undir bagga og rétti þeirra hlut. Við viljum dreifa byrðunum í dýpstu efnahagslægð í 100 ár.

Ég vil að á Íslandi verði traust og gott velferðarsamfélag þar sem allir hafa jafnan rétt. Að því eigum við að vinna og byggja upp til framtíðar á forsendum jafnaðarstefnunnar.  Að þjóðin njóti arðsins af auðlindum sínum og að allir einstaklingar njóti mannsæmandi lífsskilyrða og afkomuöryggis. Að heilbrigðisþjónusta standi öllum til boða á  jafnréttisgrunni og að allir eigi rétt á öruggu húsnæði. Og ekki síst, að allir íbúar landsins hafi aðgang að menntun án tillits til efnahags eða félagslegra aðstæðna. Að aldrei megi hindra aðgang fólks að menntakerfinu sem vill styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

Lærdómurinn af þessu erfiða ári, það sem við getum tekið með okkur inn í framtíðina og byggt framtíð okkar á, er að hér verði að byggja upp öflugt velferðarsamfélag og grænt og sjálfbært hagkerfi. Með öflugt heilbrigðiskerfi sem sinnir öllum, góðum skólum fyrir alla,  samfélag þar sem enginn má líða skort og enginn er skilinn eftir.

Við í Samfylkingunni berjumst fyrir hugsjónum jafnaðarmanna.  Í samfélögum þar sem jöfnuður ríkir er velferðin almennari og fólkið sáttara, hamingjusamara og heilsuhraustara. Þannig viljum við að íslenskt samfélag þróist í kjölfar heimsfaraldurs.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Kærar þakkir fyrir samskipti og samstarf á árinu sem er að líða.

Oddný G. Harðardóttir, alþingismaður

 

 

 

Nýjar fréttir