7.1 C
Selfoss

Ég lifi á list

Vinsælast

Ég skoppa á milli tónlistar, kvikmynda, þátta, meiri tónlistar og svo er ég búin að lesa heilan stafla af bókum og ganga um sveitina endilanga með sögur í eyrunum. Einstaka sinnum stoppa ég mig af vinn svolítið og sný mér að matargerðarlist – því mín matarlyst minnkar ekki þó ég hámi í mig list.

Það er ómetanlegt að hafa aðgang að öllu þessu efni. Ég græt yfir örlögum Ráðherrans þar sem leikarinn getur spilað á mig eins og langspil með færni sinni og persónutöfrum, ég nýt góðrar sögu sem gerir mér kleift að skyggnast inn í heim konu sem fæddist 1916 og tónlistin hljómar allan dag-inn.

Ég veit að höfundur eyðir flestum sínum vökustundum í að hugsa um það sem hann er að skrifa, les bækur til að finna innblástur, liggur í heimildum, les greinar í blöðum og dramasögur í tíma-ritum til að finna persónum sínum orð og líf. Ég veit líka að tónlistarmenn eru búnir að læra á hljóð-færi frá því þeir stóðu í lappirnir. Í staðinn fyrir að fara út í fótbolta með vinkonunum fór litla fiðlu-stelpan í strætó til að fara í fiðlutíma. Og ég veit að unga fólkið sem er bæði að semja, taka upp, syngja og spila gerir það án þess að vita hvort þau fá nokkur laun fyrir. Kannski fá þau gigg, kannski ekki, kannski fá þau örlítinn aur frá spotify, sennilega ekki, en þau halda áfram og ég nýt þess. Ég nýt þessa að opna spotify og finna lögin með unga fólkinu okkar, ekki síður en gömlu poppurunum sem voru gamlir þegar ég var ung en það dregur saman með okkur með hverju árinu sem líður.

Myndlistina get ég ekki ræktað í sveitinni. Ég get skoðað myndlist í tölvunni, ég næ bara ekki sambandi við myndirnar þannig. En ég horfi eftir listaverkum í náttúrunnar. Svo fer ég á mynd-listarsýningar þegar, já þegar… þá verður nú margt sem ég ætla að gera.

En það sem veldur mér verulegum áhyggjum er að listamennirnir, sem ég elska, verði dánir úr blankheitum þegar… þegar allt fer af stað aftur. Það er nefnilega búið að búa til undarlegt kerfi þar sem allir fá borgað nema listamaðurinn. Engum dettur í hug að biðja prentarann að mæta í vinnu fyrir ekki neitt og enginn upptökumaður mætir í stúdíó ef hann ekki fær borgað. Ég held að stundum borgi storytel þeim sem lesa bækurnar meira fyrir lesturinn en þeir borga höfundinum, vegna þess að lesarinn fær greitt fyrir tímann. Streymisveitur eru frábærar og fjölmiðlar eru ómetanleg fyrirbæri sem færa okkur list allan sólarhringinn. Tæknin hjálpar okkur svo mikið á tímum kórónunnar en byltingin – tæknibyltingin- má ekki éta börnin sín. Það er ekkert til að streyma ef skáldin, tónlistarmennirnir, leikararnir og handritshöfundarnir deyja úr fátækt.

Við verðum að vanda okkur að búa ekki til kerfi þar sem allir aðrir, en þeir sem skapa, fá arð af sköpuninni. Listamenn verða að lifa og skapa, flóknara er það ekki.

Með þeim orðum óska ég listamönnum, og öðrum, gleðilegra jóla og farsæls komandi árs og þakka fyrir öll þau listaverk sem ég hef fengið að njóta þetta guðsvolaða ár 2020.

 

Lilja Magnúsdóttir, Kirkjubæjarklaustri

Nýjar fréttir