7.3 C
Selfoss

Ekki dugir að sitja með hendur í skauti – Eflum skógrækt til kolefnisbindingar

Vinsælast

Áhrif mannsins á náttúruna eru með þeim ósköpum að stórsér á umhverfi okkar og lífríki. Þetta á ekki aðeins við til skamms tíma, heldur gæti verið um langvinn áhrif að ræða. Mengun hefur stóraukist og margir vísindamenn telja áhrifin á loftslag geti valdið hlýnun jarðar, sem hafi óæskileg áhrif á allt lífríkið, þar á meðal lífsskilyrði mannsins sjálfs.

Hver eru úrræðin?
Þjóðir heims hafa með ýmsum hætti gripið til ráða til að stemma stigu við óæskilegum áhrifum í þessum efnum. Ýmis úrræði koma til greina og stjórnmálamenn eiga að varða veginn. Bent er á að draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda, en þar er komið við kauninn á sjálfum hagvexti heimsins og erfitt um vik með skjótvirkar aðgerðir. Einnig má leita leiða til að binda þessi efni til þess að draga úr áhrifunum með kolefnisbindingu.

Árangursríkasta aðferðin
Skógrækt er vísindalega viðurkennd sem ein allra áhrifaríkasta leiðin til kolefnisbindingar. Þjóðir heims horfa nú mjög til þess að með því að rækta nýja skóga náist að hamla með umtalsverðum hætti á móti áhrifum af kolefnislosun, sem víða er enn í vexti. Ekki síður er nýskógrækt hugsuð til að vinna á móti vaxandi skógareyðingu víða um heim. Þær þjóðir sem gengið hafa hvað lengst í þessum efnum sjá fram á að í framtíðinni munu íbúar njóta afurða þessara skóga.

Skilyrði hér hagstæð
Hér á landi búum við svo vel að eiga nægt land og þar að auki mikil landflæmi sem ekki eru nýtt, bæði auðnir og eyðisanda. Fyrir hundrað árum trúðu fáir því að hér gætu þrifist gróskumiklir skógar. Það hefur nú verið afsannað rækilega. Þvert á móti eru ágæt skilyrði til þess að við getum verið sjálfum okkur næg um flest allt sem viðkemur skógarafurðum. Að auki getum við lagt heilmikið til að bæta fyrir umgengni okkar við náttúruna með því að eftirláta nýjum skógum að binda meira af óæskilegum gróðurhúsalofttegundum.

Loftslagssektir
Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og aukning hennar leiðir til þess að við uppfyllum ekki alþjóðlegar skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Útlit er fyrir að við þurfum að kaupa losunarheimildir fyrir milli 10 og 20 milljarða króna.

Óskýr sleipihugtök
Aðgerðir stjórnvalda til að koma í veg fyrir þetta hafa reynst ómarkvissar og í smáskömmtum. Vinstri mennirnir, sem fara með ferðina í þessum málaflokki klæða lausnirnar í hugsjónabúning og huga lítt að raunhæfum aðgerðum sem gætu borið árangur. Fjárveitingar eru auknar til gagnslítilla og jafnvel óprófaðra aðgerða og oft án fullnægjandi rökstuðnings um árangur. Stjórnsýslan er hugleiknari en aðgerðir og athyglinni er beint að sleipihugtökum og þau gerð að aðalatriðum, fremur en að verkefnum sem vænlegar eru til að bera raunverulegan árangur.

Kolefnisbinding hunsuð
Fjölmargar þjóðir hafa eflt skógrækt í þeim tilgangi að auka kolefnisbindingu. Eftir mikinn samdrátt í skógrækt sem varð hér á landi eftir hrun hefur stjórnvöldum ekki tekist að snúa þeirri þróun við. Ráðherra umhverfismála kennir fyrri stjórnum um, en hefst ekki að sjálfur. Hin örlitla aukning sem orðið hefur í skógrækt, er mestmegnis í birki sem bindur margfalt minna kolefni en öflugustu trjátegundir sem reynsla er komin á hér á landi. Þess í stað er siglt hraðbyri í átt að því að þurfa að greiða milljarða í loftslagssektir með tilheyrandi tjóni fyrir íslenskt samfélag.

Tillaga um fjórföldun skógræktar
Nýverið mælti ég á Alþingi fyrir tillögu til þingsályktunar um fjórföldun skógræktar með kolefnisbindingu fyrir aukum. Stóraukin skógrækt hefur fjölmarga kosti. Hún rennir styrkari stoðum undir atvinnu til lengri og skemmri tíma og eflir landsbyggðina. Skógrækt sparar gjaldeyri, bæði hvað varðar loftslagssektir og innflutning á timbri í framtíðinni og minnkar útblástur í flutningum, eykur búsæld í sveitum og styður við hefðbundinn landbúnað. Tími er komin til að hætta að fjölga störfum í stofnunum og ráðuneytum en láta þess í stað hendur standa fram úr ermum og græða upp skóga í þágu komandi kynslóða.

Karl Gauti Hjaltason
Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi
kgauti@althingi.is

Nýjar fréttir