-6.6 C
Selfoss

Þetta verður okkar útlandaferð!

Vinsælast

Nokkrir einstaklingar úr starfsmannahópi HSU þurftu að fara í eingangrun vegna Covid-19 smits sem kom upp á Sólvöllum á Eyrarbakka. Eins og flestir gera sér grein fyrir reynir slík einangrun á andlegt og líkamlegt atgervi. Við heyrðum í Katrínu Alexöndru Helgudóttur sem var ein þeirra sem fór í einangrun. Þær hafa svo sannarlega passað upp á hver aðra og stappað í sig stálinu með ýmsum hætti á meðan einangruninni stóð. Katrín sagði að þær hefðu reynt eftir fremsta megni að halda í jákvæðnina, því það skipti sköpum í árferði eins og nú er.

Mikið ferli sem fer í gang í kjölfar smits

„Það sem átti að verða ein kvöldvakt til að aðstoða starfsfólk Sólvalla breyttist í tæpar 3 vikur í einangrun. Það var á föstudegi sem við mætum á vaktina og ég átti að vera með barnaafmæli daginn eftir. Um kl. 22 hringir rakningarteymið í mig og segir mér að upp sé komin alvarleg staða og að 10 manns séu smitaðir í húsinu. Okkur auðvitað brá mikið og vissum strax að við værum ekki að fara heim á næstunni. Við heyrðum í yfirmanni okkar sem fór strax í það að ræða við stjórnendur HSU og  okkur útvegað húsnæði á Selfossi. Við ákváðum allar, að þó svo við þyrftum þess ekki, að þá myndum við halda áfram að taka vaktir á Sólvöllum því neyðin var mikil og þeim vantaði hjálp. Við sváfum í læknaíbúðinni á Selfossi og fórum á Sólvelli að vinna, þannig voru fyrstu dagarnir þar til skellurinn kom á miðvikudagskvöldið 23. okt. Við sátum saman að borða KFC á Sólvöllum þegar læknamiðstöðin hringir í eina af okkur og þá vissum við að við værum allar smitaðar. Þegar við greinumst með Covid-19 fengum við íbúð á Eyrarbakka hjá Bakka Hostel,“ segir Katrín.

Erfitt að fá fréttirnar en glaðar að hafa hver aðra

Katrín segir að það hafi verið mikið sjokk að fá símtalið um að þær væru smitaðar. Sér í lagi eftir fréttir af fárveiku fólki og því að fólk sé að láta lífið vegna veirunnar. „Svo ert þú allt í einu komin með hana. Við misstum matarlystina strax og byrjuðum að hringja heim til okkar með tárin í augunum. Okkur fannst öllum ótrúlega erfitt að hugsa til þess að við yrðum án fjölskyldu okkar í a.m.k. 2 vikur en vorum samt glaðar að hafa hvor aðra,“ segir Katrín.

Duglegar að hafa þemakvöld til að létta lundina

Ég ræddi við Katrínu að eftir því hefði verið tekið að þær hafi reynt að halda í jákvæðnina þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Katrín svaraði strax: „Ég nefndi það við stelpurnar í upphafi að við yrðum að horfa á þetta sem orlof. Við kæmumst jú ekki til útlanda svo þetta yrði okkar „útlandaferð“. Það var mikilvægt að reyna að finna eitthvað skemmtilegt að gera. Við vorum duglegar að hafa þemakvöld og vorum t.d. með dekurkvöld með andlits og fótamöskum, ítalskt kvöld þar sem ég eldaði ítalskan mat og við skáluðum í rauðvíni, fléttukvöld þar sem við lærðum að gera fasta fléttu, nuddkvöld þar sem við skiptumst á að nudda hvor aðra með nuddbyssu. Við tókum einnig þátt í Kringlukasti í gegnum netið og náðum að versla nokkrar jólagjafir og svo vorum við með eitt svona „djammkvöld“ þar sem við máluðum okkur fínt og fórum í bestu fötin okkar af þeim sem við höfðum sem voru alls ekki það fín,“ segir Katrín og hlær. Katrín vill taka fram að þær hafi verið í æðislegri íbúð á Eyrarbakka með sólpalli sem vísaði niður að sjó. Það hafi gert mikið að geta farið út á pall og andað að sér fersku lofti.

Mikilvægt að halda í jákvæðnina

Þegar ég spyr Katrínu hvað það er sem hún vill miðla til annarra segir hún: „Halda dagbók yfir hvernig þér líður andlega. Gera hugmyndabanka og vera svolítið opin fyrir því hvað er hægt að gera í svona stöðu, hugsa út fyrir kassann. Það er mikilvægt að halda í jákvæðnina, gerðu heimaæfingar ef þú treystir þér til, hugleiddu og syngdu! Auðvitað koma tímar þar sem manni langar bara að gefast upp, grætur í koddann og er leiður. Það er alveg í lagi líka en ekki festast þar. Fyrir mig finnst mér best að hætta að hugsa um það sem gerir mig leiða og finna mér eitthvað að gera. Það eru svo miklu verri hlutir sem geta gerst heldur en covid einangrun. Það segir enginn að það sé auðvelt en það er margt annað verra. Fólk hefur sínar leiðir til að halda í jákvæðu hliðar lífsins. Talaðu við vini og fjölskyldu um hvernig þér líður. Reyndu að fá fólkið þitt til að koma með eitthvað handa þér sem gæti gagnast þér meðan þú ert einmana. Bækur eða púsl, málningardót, maska, lita bók og liti eða bara hvað sem þér dettur í hug,“ segir Katrín að lokum.

Þakkir til allra

Okkur langar að senda bestu þakkir til Bakki Hostel, stjórn Sólvalla og stjórnanda HSU. Yfirmenn okkar voru stoð okkar og stytta í gegnum þetta ferli. Sérstakar þakkir fær Ólöf Árnadóttir, deildastjóri Ljós/Fossheima á HSU. Katrín, Sól, Sigrún og Freydís.

 

Nýjar fréttir