6.1 C
Selfoss

„Öræfasagan hefur fylgt fjölskyldunni alla mína tíð“

Vinsælast

Út er komin bókin Vonarskarð eftir Gústav Þór Stolzenwald. Þar rekur Gústav saman þræði úr fjölskyldusögu sinni. Í stuttu máli má segja að sagan hverfist um ótrúlega ævintýraferð föður hans og afa þar sem þeir ganga þvert yfir landið. Frá Hellu og norður yfir Sprengisand. Sá yngri er rétt skriðinn af barnsaldri. Öðrum þræði er vefað saman við ferðasöguna um hvernig Stolzi eldri kom yfir hafið. Varð ástfanginn af fjöllunum og fólkinu. Inn á milli fáum við endurminningar frá ömmu Gústavs sem fyllir vandlega upp í baksöguna. Við höfðum samband við Gústav og spurðum út í bókina.

Nú stendur umfjöllunarefni bókarinnar þér talsvert nærri. Hvernig var að taka það til umfjöllunar á þennan hátt? „Satt að segja datt mér aldrei í hug að segja þessa sögu, það var Sólveig systir mín sem talaði oft um, að þessi saga yrði að komast á prent. Öræfasagan hefur fylgt fjölskyldunni alla mína tíð. Það má segja að hugmyndinni hafi lostið niður í hugann, þegar fyrrnefnd Sólveig og Ólafur bróðir minn komu mér á óvart með ljósmyndasýningu með myndum úr Sprengisandsferðinni, á 90 ára afmæli pabba Rúdí, í Dalakofa, sæluhúsi sem hann reisti á Syðra-Fjallabaki 1974. Þau höfðu hengt myndirnar utan á húsið, og ég fékk sjokk, hélt að einhver hefði málað húsið á þeim stutta tíma sem við vorum í burtu. Að sjá ferðina svona alla í einu og á fjöllum í þokkabót, þá varð ekki aftur snúið.“

Þú velur að segja söguna út frá föður þínum, sem rétt er skriðinn af barnsaldri, ásamt því að segja hlið ömmu þinnar sem heima situr. Hversvegna velur þú þetta sjónarhorn? „Afa Stolza þekkti ég lítið, hann dó þegar ég var rétt 3 ára, en sérstakar og skemmtilegar sögur af honum heyrði maður víða berandi Stolzenwaldnafnið. Þessi gönguferð er sögð með augum pabba því það var hann sem sagði mér söguna og svo var lítið dagbókarbrot þar sem hann segir frá vegalengdum, hvar var tjaldað og mestu hremmingarnar. Einnig er veðurfarið tekið upp úr þessum dagbókarbrotum. Með ömmu Rögnu heima, fannst mér nauðsynlegt sjónarhorn, því hana þekkti ég og vissi að hún er betri en engin í leiknum. Hennar sögur heyrði ég oft úr ruggustólnum.“

Nú komast persónurnar í hann krappan á stundum. Hversu trúr ertu frumheimildunum í frásögninni? „Frásögn pabba af þessari sprengisandsferð eru heimildirnar um það og dagbókarbrotin. Ég skálda bara í skörðin, eins og Ási í bæ myndi orða það,“ segir Gústav brosandi.

Hvernig hafa viðtökurnar verið á bókinni? „Mjög góðar, langt fyrir ofan mínar væntingar. Ég hef verið að fá frábæra dóma frá fólki, fólki sem ég hefði verið ánægður með, hefðu þau bara lesið bókina. En þetta eru nú bara vinir mínir, ég hef ennþá ekki fengið hlutlausan dóm.“

Við grípum nú niður í örstutt brot úr sögunni. „Feðgarnir standa á árbakkanum og fylgjast með Sæmundi róa til baka. Straumurinn dregur hann hratt niður með svo hann ákveður að snúa aftur í tangann. Þeir draga fleyið aftur upp með bakkanum og nú enn lengra. Í þessari tilraun tekst Sæmundi að ná réttu lendingunni. Eftir bras við að koma bátnum upp og fyrir í bátalæginu, vinkar hann. Þeir kallast eitthvað á og svo hverfa jeppinn og Sæmundur í ryki og hillingum á leið til byggða.

Þarna standa þeir feðgar einir eftir, Stolzi og Rúdí. Það er eins og þeir séu ekki búnir að átta sig á, út í hvað þeir eru komnir. Nú er engin fær leið til baka, báturinn er á bakkanum handan árinnar og Sæmundur farinn heim. Norður Sprengisand verða þeir að fara sama hvað tautar og raular. Þessu veltir strákurinn fyrir sér á meðan þeir eru að gera sig klára í gönguna.

Þeir raða endanlega í bakpokana og binda tjaldið og svefnpokana utan á pokana ásamt öðrum búnaði og taka svo upp níðþungar klyfjarnar og setja þær á bakið. Þeir nota hvor sína tjaldsúluna sem göngustaf. Þeir horfast í augu, segja ekki neitt og ganga af stað. Leiðangurinn er hafinn. Stolzi gengur á undan, augun virðast ekki horfa á neitt, hugurinn teymir hann áfram…“

 

Nýjar fréttir