6.1 C
Selfoss

Vinsælast

Fjöldi smærri ferðaþjónustuaðila á landinu hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem koma fram körfur þeirra og tillögur til yfirvalda. Hér að neðan er yfirlýsingin birt í heild sinni.

Baráttuhópur smærri fyrirtækja, einyrkja og sjálfstætt starfandi aðila í ferðaþjónustu sendir frá sér yfirlýsingu, kröfur og tillögur.

Allt frá upphafi faraldursins hefur verið ljóst að þessir tímar myndu reyna verulega á fyrirtæki og einyrkja í ferðaþjónustu og nú á haustmánuðum hefur óvissan og úrræðaleysið aukist. Smærri fyrirtæki, oft fjölskyldufyrirtæki með fáu starfsfólki og einyrkjar hafa tekið sig saman og krefjast sértækra úrræða yfirvalda fyrir þessa gerð rekstrar.

Það er deginum ljósara að slíkra aðgerða er þörf til þess að styrkja þessa gerð rekstrar svo hann komist yfir erfiðasta hjallann, vernda þekkingu og láta þá gífurlegu uppbyggingarvinnu sem hefur átt sér stað síðustu ár ekki fara til spillis og því er eftirfarandi yfirlýsing send út:

„Í ljósi þess rekstrarvanda, sem fyrirtæki og einyrkjar í ferðaþjónustu standa frammi fyrir, vegna aðgerða stjórnvalda í kjölfar Covid-19, hafa ferðaþjónustuaðilar með smærri rekstur sameinað krafta sína til að vekja athygli stjórnvalda á að þörf er á að grípa til sértækra aðgerða til bjargar smærri fyrirtækjum og einyrkjum í ferðaþjónustu. Þessi fyrirtæki hafa frá því í byrjun orðið að beygja sig undir ákvarðanir stjórnvalda er varða Covid-19, allskonar lokanir og takmarkanir sem hafa haft veruleg áhrif á starfsemina, beint og óbeint og ýmist dregið verulega eða algjörlega úr möguleikum á að halda rekstrinum gangandi með tilheyrandi tekjutapi og í sumum tilvikum algjöru tekjufalli.

Í upphafi einblíndu stjórnvöld á miðlungsstóru og stóru fyrirtækin í ferðaþjónustu, enda ef litið er á tölurnar sést hvaða fyrirtæki hafa verið að nýta sér þessi úrræði. En betur má ef duga skal, þessi úrræði henta smærri fyrirtækjum og einyrkjum mjög takmarkað og sum þeirra alls ekki og lítið sem ekkert samtal hefur átt sér stað til þess að átta sig á þörfum viðkomandi og hvernig úrræðin nú hafa hentað og hvernig þau hafi nýst.

Okkur finnst við skilin útundan í aðgerðum stjórnvalda og finnst við hafa mætt skilningsleysi hvað varðar alvarleika málsins. 80% ferðaþjónustufyrirtækja eru lítil eða meðalstór fyrirtæki og að stórum hluta úti á landsbyggðinni, það að veita þessum ferðaþjónustuaðilum aðstoð er því byggðamál. Afkoma sveitarfélaga og sjálfbærni þeirra er líka í húfi. Yfirleitt eru lítil staðbundin fyrirtæki í eigu heimamanna og oftar en ekki einu sjálfbæru einingarnar á svæðinu. Hagnaður verður eftir heima í héraði, aðföng og vinnuafl koma oftast úr héraði og skapar tekjur sem verða eftir heima í héraði. Uppbygging ferðaþjónustu hefur verið leið til að skapa fjölbreytt atvinnulíf um allt land, tengst nýsköpun og verndun og kynningu á menningararfi þjóðarinnar, ýmiskonar handverki, matargerðarlist og annarskonar menningu, innlendri og erlendri og listum, bæði fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.

Ferðaþjónustan hefur einnig átt sitt þátt í því að efla menningarlíf og vellíðan fólks um allt land með því að brjóta upp hversdagsleikann með þvi að bjóða upp á fjölþætta afþreyingu. Bæði mannlíf og menningarverðmæti eru í húfi, því sé ekki stutt við ferðaþjónustuaðila á þessum tímum, hvað á að bjóða ferðafólki framtíðarinnar upp á þegar það birtist á ný og hvað á að gera við alla þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað…en verður nú að engu sé ekkert að gert. En eins og staðan er núna, þá eru engir ferðamenn, hvorki innlendir né erlendir. Fólki er ráðlagt að halda sig heima og fara ekki á milli héraða, sökum veirunnar, svo að hún dreifi sér ekki um allt land og fyrirtæki sem hafa unnið að því hörðum höndum að byggja sig upp og auðga mannlíf landsins eru nú að niðurlotum komin, og það er ekki eins og ferðaþjónustuaðilar beri ábyrgð á stöðunni, okkur eru allar bjargir bannaðar. Undir þessu verður ekki setið mikið lengur.

Því miður hafa þau úrræði sem boðið hefur verið upp á ekki verið að virka sem skyldi, sérstaklega fyrir ferðaþjónustuaðila með smærri rekstur og skilið alltof marga eftir í úrræðaleysi. Það er líka of mikil óvissa með komandi úrræði svo við látum í okkur heyra og krefjumst samtals og úrræða sem henta þessu hópi, við erum jafn fjölbreytt og ferðaþjónustuaðilarnir eru margir og þarfirnar til þess að koma rekstrinum í gegnum þetta ástand eru margvíslegar, því þarf að horfa yfir stórasviðið og bjóða fjölbreyttari úrræði sem henta fleirum eigi ferðaþjónustan að geta viðhaldið mannauði og þekkingu svo hún geti tekið við sér þegar fer að birta til

 

Því skal þó haldið til haga að hér er ekki verið að gagnrýna sóttvarnaraðgerðir heldur hæg viðbrögð og úrræðaleysi stjórnvalda þegar kemur að ferðaþjónustuaðilum, sérstaklega þeim sem eru með smærri fyrirtæki og þeim sem eru einyrkjar.

Kröfur okkar og tillögur eru meðal annars:

  1. Hraða aðgerðum, þörfin er núna. Það er ekki tími fyrir langar umræður og vangaveltur. Í dag eru fyrirtæki/einyrkjar í greiðsluvanda….ef aðgerðir fara ekki að komast í gagnið stöndum við frammi fyrir að fyrirtæki/einyrkjar lendi í djúpum skuldavanda.
  2. Tekjufallsstyrkir séu háðir sem minnstum skilyrðum og allir eigi möguleika á að sækja um. Að tekjufallsstyrkir séu ekki bara bundnir við laun starfsmanna heldur séu engar hömlur á því hvernig styrknum er ráðstafað innan rekstrarins þannig það sé einnig hægt að greiða t.d. fastan kostnað (rekstrarkostnað). Tekjufallsstyrkir séu ekki háðir skerðingum og skattskyldir. Útvíkka starfsmannafjölda þannig að úrræðið nái til sem flestra og það sé frekar hugsað sem veltuprósenta en starfsmannafjöldi/starfsgildi. Að miðað sé við 31. mars þegar horft er til starfsmannafjölda eða reksturs í eðlilegu horfi. Einnig þarf að horfa til fyrirtækja sem rekin eru á verktöku eins og mörg smærri fyrirtæki og geta þá ekki sýnt fram á eiginlegan launakostnað en geta sannarlega sýnt fram á tekjufall.
  3. Styrkjaleiðir frekar en lán og þá sé tryggt að styrkir nýtist og séu ekki skattskyldir og fyrri aðgerðir skerði þá að sem minnstu leyti, þ.e. að það að hafa nýtt sér fyrri aðgerðir bitni ekki á viðkomandi þegar kemur að seinni aðgerðum.
  4. Lausnir fyrir fyrirtæki til að halda sér á floti í formi styrkja, t.d. að fyrirtækjum í ferðaþjónustu yrði gert kleift að loka rekstrinum í t.d. sex mánuði (fram á vor) eða svo lengi sem landamæraaðgerðir og sóttkvíarkrafa er viðvarandi, gegn mánaðarlegum lokunarstyrk sem miðaðist við t.d. lágmarks rekstrarkostnað viðkomandi fyrirtækis eða einhversskonar hlutfallslokunarstyrkjum. Ath. að mörg fyrirtæki eru með 1 starfsmann og í flestum tilviku er 1 starfsmanna eigandi og eigandi má ekki nýta sér t.d. uppsagnastyrkinn.
  5. Hlutfallslokunartyrki sem koma til móts við skerta starfsemi vegna fjölda-, tíma- og fjarlægðatakmarkana og aðgerða á landamærum og tilheyrandi tekjutapi vegna þeirra, beint og óbeint.
  6. Úrræði í fleiri flokkum t.d. eftir stærð og gerð rekstraraðila þannig að þau nýtist sem best – fyrirtækin/einyrkjarnir eru jafn mismunandi og með jafn mismunandi þarfir og þau eru mörg.
  7. Endurskoðun á úthlutunarreglum fyrri aðgerða, en margar af þeim reglum útiloka smærri fyrirtæki og einyrkja, t.a.m. hvað varðar stuðningslán/brúarlán og uppsagnarstyrk t.d hvað varðar eiganda sem starfsmann. Aðlaga úrræðin að smærri fyrirtækjum með færra starfsfólki og einyrkjum. Taka út kröfur um 10% launahlutfall af rekstrarkostnaði í stuðningsláni þar sem mörg smærri fyrirtæki eru rekin með verktökum á álagstímum.
  8. Stuðningslán eru til of skamms tíma. Setja þau upp sem þolinmótt fé, eitthvað í líkingu við hin nýtilkomnu hlutdeildarlán til fyrstu íbúðarkaupa. Einnig að stuðningslánin og brúarlánin séu endurgreidd með % af innkomu eftir að hlutirnir fara að rúlla.  % talan þarf að vera um 10- 12 % max. Fyrsta afborgun  í júní 2024.
  9. Endurskoðun á hlutabótaleið, sem flestir eru þó að reyna að nýta sér, með tilliti til mismunandi þarfa. Þau fyrirtæki sem að geta ekki haldið opnu, lítil og meðalstór ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni, geta illa nýtt sér hlutabótaleiðina og eigendur mega ekki nýta sér uppsagnarstyrki (Ath að mörg fyrirtæki eru með 1 starfsmann sem er eigandinn). Það eru engir viðskiptavinir og innkoma jafnvel engin og þrátt fyrir hlutabótaleið væri hún þá dýrari heldur en að hafa lokað.

Að fyrirtæki geti nýtt starfsmenn að fullu þó farin sé hlutabótaleið, það gefur augaleið að fyrirtæki með 5 eða færri starfsmenn halda ekki uppi neinni starfsemi, viðhaldi tækja, markaðsetningu  né nokkru öðru sem þarf ef fyrirtækin meiga ekki nýta starfsfólk nema að verulega skertu leiti.  Fólk vill vinna en má ekki. Við minnum á að t.d markaðsetning og viðhald markaðsetningar er grundvallaratriði ef á að ná hraðri viðspyrnu þegar að henni kemur.

  1. Einyrkjar og eigendur lítilla fyrirtækja sem hafa þurft að hætta rekstri vegna Covid19 fái allir fullan bótarétt til atvinnuleysisbóta.
  2. Áframhaldandi frystingu lána fyrir alla og kröfu um samvinnuvilja að hálfu bankanna.
  3. Tímabundið afnám tryggingagjalda.
  4. Tímabundið afnám fasteignagjalda og ýmissa annarra gjalda sem hægt er að afnema eða lækka.
  5. Tímabundna niðurfellingu á dráttarvöxtum vegna skulda opinberra gjalda.
  6. Tekið sérstakt tillit til fyrirtækja með stutta viðskiptasögu, fjöldi fyrirtækja eru stofnuð fyrstu 3 mánuði ársins 2020 og geta því ekki miðað við tekjur 2019.
  7. Samræma aðgerðir á landamærum við önnur lönd, taka þátt í alþjóðasamfélaginu og setja reglur sem eru fyrirsjáanlegar leiðir
  8. Samtal – samæfing – skilningur á stöðunni á hverjum tíma! Tímanlegar og tryggar áætlanir og aðgerðir.

 

(Kröfu- og tillögulistinn er ekki tæmandi og er í stöðugri vinnslu.)

Viðauki = Við viljum einnig benda á að bak við þessa starfssemi er fólk sem að steig djörf skref til að skapa störf í sinni heimabyggð og verði þau skilin eftir í kuldanum, er það ekki hvati til framtíðar, fólk sem að lagði allt sitt undir, eigur og vinnuframlag, er afhent þeim sem allt eiga, á brunaútsölu.  Það er því mikið réttlætismál að þetta fólk fái hjálp og stuðning stjórnvalda, eins og um náttúruhamfarir væri að ræða, því hvað er þetta annað en hamfarir. Á bak við fyrirtækin á þessum lista  eru um það bil 3.500 manns . Langflest þessara fyrirtækja erum rekin af fjölskyldum sem samastanda af  hjónum með 2- 3 börn og sama er að segja  um  annað starfsfólk þessara fyrirtækja, að jafnaði er maki og 2-3 börn á bak við hvern starfsmann.

Vekjum athygli á hópnum SAMSTAÐA SMÆRRI FYRIRTÆKJA OG EINYRKJA Í FERÐAÞJÓNUSTU á Facebook, þar er vettvangur fyrir ferðaþjónustuaðila til umræðu um þessi mál og enn er hægt að skrá sig á undirskriftalistann.

 

Undir yfirlýsinguna skrifa 223 aðilar í rekstri smærri fyrirtækja og einyrkja

Nýjar fréttir