13.4 C
Selfoss

Landbúnaður

Vinsælast

Hvað er til ráða ?

Suðurland er mesta landbúnaðarsvæði landsins og sé litið á heildar rekstrartekjur allra búgreina á landinu þá er hlutdeild landshlutans um þriðjungur. Ferðaþjónustan hefur sótt í sig veðrið undanfarin ár og var orðin ein stærst atvinnugreina Suðurlands, þó tímabundið séu umsvifin lítil. Engum blöðum er um það að flétta að landbúnaður er órjúfanlegur hluti atvinnu byggðana og mikilvæg grunnstoð. Greinin stendur á krossgötum. Neyslubreytingar almennings, aukin alþjóðleg sem og innlend samkeppni, breyttur ríkisstuðningur hafa valdið lægri tekjum á framleiðslueiningu hjá bændum. Á móti hefur vaxandi ferðamannafjöldi, nýsköpun í störfum á landsbyggðinni og stærri bú vegið á móti. Mikill stuðningur landsmanna er við innlenda framleiðslu. Ríkisstjórnin hefur tekið á nokkrum þeim þáttum sem munu ýta undir jákvæða þróun. Í þessari grein verður tæpt á samstarfi afurðastöðva, frelsi til heimavinnslu, tollasamningum, sýklalyfjaónæmi og fæðuöryggi.

Samstarf afurðastöðva

Nýverið lýsti ríkisstjórnin vilja sínum til að heimila afurðastöðvum samstarf, ekki ósvipað og heimilt er í mjólkuriðnaðinum og auka þar með hagkvæmni og skilvirkni í greininni. Yfirlýsingin var í tengslum við  endurskoðunarákvæðis lífskjarasamninganna. Fyrirmyndir má sækja til mjólkuriðnaðarins, sjávarútvegs fyrri tíma og samstarfs fyrirtækja undir merkjum SÍS, SÍF og SH. Þingmenn Framsóknar lagt fram slíkt mál á liðnum þingum.

Frelsi til heimavinnslu

Samhliða breytingum hjá afurðastöðvunum er mjög mikilvægt að auka frelsi bóndans til athafna og tengja hann betur markaðsstarfinu. Heimila á örslátrun og minni sláturhús með heimavinnslu. Jákvætt áhættumat þarf að liggja fyrir og er fyrirmyndin sótt til Þýskalands þar sem heimiluð var heimaslátrun og nær-markaðssala á lambakjöti fyrir nokkrum árum. Í kjölfarið ætti að heimila örsláturhús með ungneyti og það sama er hægt að gera í mjólkurframleiðslunni. Tækifærin eru mörg fyrir framsækið fólk til sveita.

Tollasamningar skoðaðir

Þær fréttir berast þessi misserin að eftirlit með tollflokkum sé í skötulíki. Innflutningsfyrirtækin komist upp með að brjóta tollasamninginn með rangri tollflokkun á matvöru, jafnvel svo árum skipti. Afleiðingin eru skekkt samkeppni við bændur, milli fyrirtækja sem halda sig innan laga og þeirra sem svíkjast um að greiða opinber gjöld og snuða þannig almenning beint. Þetta þarf að rannsaka.

Þá hefur orðið forsendubrestur eftir að tollasamningurinn komst á. Annars vegar ónýtt tækifæri og hins vegar útganga Bretlands úr ESB. Það er mín skoðun og til skoðunar innan ríkistjórnarinnar að það eigi að segja þessum ESB tollasamningi upp.

Lýðheilsa og öryggi

Almennt má segja að allur heimurinn glími við háa tíðni matarsýkinga, þó mismikið. Tíðni matarsýkinga hérlendis er mjög lág í alþjóðlegum samanburði, staðan í Noregi er einnig góð og eru Svíþjóð og Finnland skammt þar fyrir aftan. Talið er að um árið 2050 muni jafnmargir látast vegna sýklalyfjaónæmis og af völdum krabbameins. Staðan á Íslandi með hrein og örugg matvæli er því eftirsóknarverð. Í því felast mikil lífsgæði.

Til að tryggja öruggan aðgang að innlendum matvælum þarf að grípa til í það minnsta þeirra aðgerða sem nefndar hafa verið hér, til þess að bæta afkomu bænda. Svo höfum við val. Að einhverju leyti er framtíð landbúnaðar í höndum hvers og eins. Ef við viljum fá öruggan, ómengaðan og hollan mat á borðið, þá eigum við að geta gert kröfu í versluninni, á veitingastaðnum og í mötuneytinu um upprunamerkingar. Við höfum val. Íslenskt – já takk.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

 

 

Nýjar fréttir