6.1 C
Selfoss

Margrét hin oddhaga – Minnisvarði um sunnlenska listakonu frá 12. öld

Vinsælast

Karl Gauti Hjaltason.

Á upphafsdögum þingsins lagði ég fram tillögu um að reistur yrði minnisvarði um Margréti hina oddhögu í Skálholti. Tel ég löngu kominn tíma til þess að minning þessarar merku konu verði heiðruð. Við hæfi er að minnisvarðinn verði reistur í Skálholti, þar sem hún starfaði að list sinni.

Margrét var prestskona í Skálholti á ofanverðum dögum Páls biskups Jónssonar og var eftir því sem sagan segir: „oddhögust allra manna á Íslandi“ um sína daga. Hvorki er vitað um föðurnafn hennar né ættir að öðru leyti.

Páll Jónsson Skálholtsbiskup (1155-1211) var framkvæmdamaður mikill og listunnandi. Í biskupstíð hans störfuðu margir listamenn í Skálholti og unnu gripi í þágu stólsins og skreyttu helgidóminn með fögrum verkum. Margrét var í þjónustu biskups ásamt fleiri listamönnum og bjó í Skálholti ásamt manni sínum, séra Þóri. Í sögu Páls biskups segir um biskupsstaf af tönn, sem Margrét skar fyrir Pál og var sendur Þóri erkibiskupi í Niðarósi, að hann hafi verið gerður svo haglega að „engi maðr hafði fyrr sét jafnvel gervan á Íslandi“ eins og það er orðað í sögu biskups.

Þegar steinþró Páls biskups var tekin úr jörðu og opnuð sumarið 1954 fannst í henni húnn af bagli úr rostungstönn, útskorinn í líki dýrshöfuðs og forkunnarvel gerður. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður, sem stýrði uppgreftrinum, taldi líklegt að þarna væri á ferð verk Margrétar hinnar oddhögu og hafa margir hallast að þeirri skoðun með honum.

Margrét skar út margvíslega muni fyrir biskup og hefur verið orðuð við merkisgripi frá miðöldum sem fundust árið 1831 á Ljóðhúsum í Suðureyjum, undan norðvesturströnd Skotlands. Þar kom í ljós safn haglega útskorinna taflmanna sem flestir eru úr rostungstönn en nokkrir úr búrhvalstönn. Flestir þessara taflmanna eru geymdir á British museum og taldir meðal helstu þjóðargersema Breta.

Ekki liggur fyrir nákvæm vitneskja um fundarstað taflmannanna frá Ljóðhúsum né fundartíma. Óvissan um kringumstæður taflmannafundarins á Ljóðhúsum veldur því að erfitt er að henda reiður á uppruna þeirra og sögu. Allmargar kenningar hafa verið viðraðar um uppruna taflmannanna. Þeir rötuðu inn fyrir dyrastaf breskra safna, flestir en þó ekki allir. Tilgátan um íslenskan uppruna taflmannanna hefur fylgt þeim allt frá upphafi.

Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, og Einar S. Einarsson, fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands, leituðust við fyrir um áratug að styrkja tilgátuna um íslenskan uppruna taflmannanna. Bentu þeir á að einungis í íslensku og ensku hefði verið haft biskupsheiti um taflmann og honum gefið útlit sem minnti á búnað biskups. Slíkt útlit hafa Ljóðhúsataflmennirnir og væri það glöggt merki um íslenskan uppruna þeirra. Þá benti Guðmundur á frásögn Páls sögu biskups af Margréti oddhögu og kvað þar kominn nafnkunnan íslenskan útskurðarmeistara sem vel gæti hafa innt af hendi svo ágætt verk sem Ljóðhúsataflmennina.

Þrátt fyrir að uppruni taflmannanna hafi ekki, og verði líklega seint, staðfestur að fullu er ljóst að Margrét hin oddhaga var merk kona sem á 12. öld var talin færust allra á Íslandi í útskurði.

Margrét hin oddhaga er ein örfárra listkvenna í veröldinni sem getið er með nafni og uppi voru á miðöldum. Má með réttu segja hana sunnlenska afburðakonu.

Karl Gauti Hjaltason
alþingismaður í Suðurkjördæmi
kgauti@althingi.is

 

Nýjar fréttir