7.8 C
Selfoss

Skóli í skugga Covid-19

Vinsælast

Það voru blendnar tilfinningar hjá nemendum sem blaðamaður ræddi við í haust þegar ljóst var að skólastarfið yrði með örðuvísi hætti en hefðum samkvæmt. „Þetta leggst illa í mig að byrja. Ég er bara mjög stressuð fyrir því að byrja,“ sagði ung dama við blaðamann. Þegar hún var spurð nánar var það auðvitað að fjarnám, nýr skóli, nýtt kerfi en líka það að félagslífið sem henni hafði hlakkað til að taka þátt í yrði sennilega með mjög takmörkuðum hætti. Það er mikið lagt á krakkana okkar um þessar mundir, eins og aðra hópa. Á vígstöðvum FSu var allt á fullu við skipulag og undirbúning þess að taka nýnema á hús, þannig að þeim liði sem best miðað við aðstæður. Við settumst niður með Olgu Lísu, skólameistara FSu og heyrðum hvernig þau væru undir veturinn búin og hvernig gengið hefði þessa fyrstu skóladaga.

Helmingur fjarnám og helmingur staðnám

Hvernig er skólabyrjunin að ganga? „Við bara byrjuðum. Fengum nýnema á hús til okkar þann 18. ágúst. Það varð hinn eiginlegi nýnemadagur. Þar var þeim kennt allt sem þau þurfa að kunna. Við skárum hann heilmikið niður, en einbeittum okkur að því að kenna það sem þarf til þess að komast af stað í fjarnáminu. Þá tókum við þau aftur á hús og fórum með þeim þvers og kruss um skólabygginguna, og þau hittu kennara sína,“ segir Olga Lísa. Við spurðum þá út í fyrirkomulag námsins og hvernig því verður háttað með öllum þeim breytum sem þar gilda. „Það verður reynt að kenna helming af öllu bóknámi hér og helming í fjarnámi þannig að þau hafi þennan snertiflöt við skólann sem er mikilvægur. Þetta samtal milli nemenda við hvern annan og kennara augliti til auglitis“, segir Olga. Það er á henni að heyra að það hafi verið tilfinnanlegt bæði frá hendi kennara og nemenda að það væri málum blandið að geta ekki átt samtal augliti til auglitis í skólastofu, það vanti einhverja dýnamík í skólastarfið þegar það er ekki.

Hrikti verulega í stoðunum að koma rafrænu námi af stað

Þegar kom að því að skrá alla nemendur í gang og fjarnámið átti að hefjast fyrir alvöru, stóðst kerfið ekki álagið. „Það var allt í tómu fári með það að nemendur náðu ekki inn, kennarar náðu ekki í gegn og svo framvegis,“ segir Olga. Það varð mikill titringur þessa daga, því að kerfið virkaði ekki eins og ætlast var til. „Hér reittum við hár okkar yfir þessu, og sendum kvörtun til þeirra aðila sem hýsa og sjá um Innu, sem allt snýst um. Þeir voru búnir að vera sveittir við að laga þetta. Við fórum í helgarfrí með temmilega bjartsýni á að þetta muni lagast,“ segir Olga. Það hrikti verulega í stoðum þessa daga, en fall er oft faraheill. Þegar blaðamaður líkti þessu við að koma bátum á flot tók Olga undir og sagði já eins og í fjöru fullri af grjóti þar sem erfitt var að stýra frá stórum steinum.  Kerfið nú er þannig byggt upp að hægt er að taka upp kennslutíma, vera með kennslu í streymi og svo framvegis, sem ekki var í boði í gamla kerfinu. Það eitt eru miklar framfarir þar sem áður byggði námið á því að senda skjöl á milli, sem var og er dálítið gamaldags. Breytingarnar tóku á eins og segir, en allt er gott sem endar vel.

Mórallinn góður þrátt fyrir allt

Það hefur mikið gengið á og skólastarfið, verulega óhefðbundið svo vægt sé til orða tekið. Það brennur á að spyrja hvernig mórallinn sé. „Mórallinn er ótrúlegur. Ég er búin að marghæla kennurum og nemendum fyrir það hvað þau láta yfir sig ganga. Það er eitt að hoppa inn í þessa stöðu og annað að hún virki ekki. Þetta er svona eins og við værum að klofast yfir hálfsteyptan skólann eða hér væri eitt borð fyrir þrjá eða hvað það nú er. Þetta var bara ótrúlega pirrandi og óþarfa vesen sem fylgir því að fara í vinnuna. Hér hafa allir staðið sig með prýði, það er ekki hægt að segja annað, en mér heyrist að þetta sé allt saman farið að ganga smurtm,“ segir Olga.

Allir meðvitaðir um stöðuna, félagslífið verður öðruvísi

Eftir því sem spjallinu vindur fram er á Olgu að heyra að allir séu meðvitaðir um þá stöðu sem nemendur og kennarar eru í. Það sé reynt að mæta því eins og kostur er. Varðandi félagslífið er það augljóst að það verður með breyttu sniði. Það er þó fram undan að setjast niður með nemendaráðinu og kanna hvaða leiðir eru í boði að hafa félagslífið með rafrænum hætti. Það verði að stóla dálítið á það að láta sér detta eitthvað til hugar sem að getur glatt samnemendur og aðra, létt þeim lífið á þessum sérstöku tímum. Þrátt fyrir allt hefur þetta gengið vel og skólinn farinn af stað. Fall er fararheill og við óskum nemendum og kennurum velfarnaðar á siglingunni fram undan. -gpp

 

Nýjar fréttir