5 C
Selfoss

Dagbók lögreglu síðustu vikuna eða svo

Vinsælast

Laugardaginn 15. ágúst var tilkynnt um umferðarslys á þjóðvegi 1, skammt vestan við Stigá í Austur Skaftafellssýslu.   Þar féll maður á bifhjóli sínu, rann nokkra vegalengd eftir veginum og lenti framan á bifreið, sem kom úr gagnstæðri átt, og lést. Tildrög slyssins eru til rannsóknar og er ekki að vænta frétta af því að sinni.

72 hraðakstursbrot kærð

Hraðakstursbrot sem kærð voru í liðinni viku reyndust 72. Eitt þessara mála snýr að umferðarslysi sem varð á austurleið eftir Þjóðvegi 1 um Kamba sl. föstudag. Þar missti ökumaður bifhjóls stjórn á hjólinu og lenti utan í víravegriði þar. Við slysið kastaðist hann yfir á öfugan vegarhelming.  Víravegriðið greip hjólið sem stöðvaðist í vegöxlinni hægra megin miðað við akstursstefnu ökutækisins.   Meiðsl mannsins reyndust ekki alvarleg. Hann var fluttur til skoðunar á heilbrigðisstofnun. Lögreglumenn sem verið höfðu við hraðamælingar á Hellisheiði til móts við Ölkelduháls höfðu gefið manninum stöðvunarmerki eftir að hraði hjólsins hafði mælst 190 km/klst.   Hann virti stöðvunarmerkin í engu og virðist hafa aukið við hraðann og hvarf úr sjónmáli. Lögreglumenn óku svo fram á slysavettvang neðan við „Drottningarpallinn“ í Kömbunum. Fleiri óku hratt og sáust tölur eins og 138 og 141 á mælum lögreglu. 15 þessara mála eru á vegum þar sem leyfður hraði er ýmist 50 eða 70 km/klst.

Grunur um ölvun eða fíkniefnaakstur hjá sex

Höfð voru afskipti af þremur ökumönnum um helgina sem grunur er um að hafi verið ölvaðir. Einum þeirra hafði fipast við aksturinn og ekið inn í garð við íbúðarhús á Höfn þann 15. ágúst sl. Sá gisti fangageymslur á Höfn og var yfirheyrður daginn eftir um málsatvik öll. Hinir tveir voru annarsvegar á Þingvöllum og hinsvegar í Reykholti. Þrír ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.  Hraði bifreiðar eins þeirra hafði mælst 119 km/klst á Suðurlandsvegi við Þingborg þar sem leyfður hraði er 70 km/klst.

Ýmis mál að auki

Skráningarmerki voru tekin af þremur ökutækjum sem reyndust ótryggð í umferðinni. Aðstoða þurfti erlendan ferðamann sem festi bifreið sína í Steinholtsá þann 15. ágúst.   Hann ásamt farþega sínum komust á þurrt ásamt því að vegfarandi hafði dregið bifreiðina á þurrt líka.   Um var að ræða jeppabifreið frá bílaleigu. Þann 14. ágúst sl. slasaðist drengur á sjöunda ári þegar hann féll af hjóli sínu á Hvolsvelli. Kallað var til aðstoðar vegna þessa en upplýsingar um meiðsl hans liggja ekki fyrir. Laugardaginn 15. ágúst sl. var tilkynnt um ökumenn motokross hjóla sem sagðir voru að aka ógætilega í kringum sauðfé í fjöru skammt frá Höfn. Upplýsingar liggja fyrir um hverjir hafi líklega verið þar á ferð og mun lögregla ræða við þá. Lögreglumenn við eftirlit á hálendinu ræddu við ökumenn 8 hópbifreiða og 190 annarra bifreiða til að kanna með ástand þeirra og réttindi. 2 ökumenn sem höfðu voru afskipti af í Veiðivötnum reyndust hafa neytt áfengis fyrir akstur bifreiða sinna en voru undir kærumörkum. Þeir voru sendir á fæti til áfangastaða sinna.

Nýjar fréttir