1.1 C
Selfoss

Tannverndarhornið: Tannáverkar og slys

Vinsælast

Á sumrin taka börnin fram hjólin sín, trampólínin skjóta tímabundnum rótum og rennibrautir sundlauganna vakna úr vetrardvala. Leiðinlegur fylgikvilli eru slys og óhöpp. Einnig á öðrum árstímum, á skólatíma, við tómstundaiðkun og heima við.

Tannáverkar

Tennurnar eru eini vefur líkamans sem ekki hefur almenna viðgerðarhæfni. Brotin tönn verður aldrei söm. Oftast verða framtennur fyrir áverkum, bæði í efri og neðri gómi. Rétt viðbrögð strax í upphafi skipta sköpum. Hér verður stiklað á stóru.

Almenn viðbrögð

Almennt skal hitta tannlækni eftir slys. Og því fyrr, því betra. Erfitt getur verið að meta hvenær ástæða er til að láta skoða smæstu óhöppin, óhöpp án sjáanlegra einkenna. Ef þú ert í vafa er vissara að ráðfæra sig við tannlækni.

Barnatennur

Slys á barnatönn getur haft áhrif á óuppkomna fullorðinstönn. Komið barninu sem fyrst til tannlæknis ef:
– blæðir með tannholdi.
– barntönn „kýlist upp í góminn“ eða færist til.
– barnatönn er brotin. A.m.k. skal ráðfæra sig við tannlækni. Reynið að finna brotið.
– barnið er með óþægindi.
– Ef barnatönn er úrslegin (farin alveg úr) á EKKI að koma henni aftur fyrir í munni. Finnið tönnina og leitið til tannlæknis. Ef tönnin finnst ekki getur verið að hún hafi kýlst „upp í góm“, að barnið hafi gleypt tönnina eða að hún hafi brotnað inn í vör/tungu.

Fullorðinstennur

– Sama gildir um fullorðinstennur og um ofangreinda áverka barnatanna: Komið einstaklingnum sem fyrst til tannlæknis.
– Ef fullorðinstönn brotnar skal finna brot og koma til tannlæknis.
– Stundum flísast úr tönnum án þess að annarra einkenna verði vart og jafnvel að ekkert frekar þurfi að gera. Aðstæður og einkenni hverju sinni spila inn í meðferðarþörf. Faglega get ég þó ekki mælt með öðru en að a.m.k. ráðfæra sig við tannlækni eftir óhöpp.

Úrslegin/brottfallin fullorðinstönn

Þetta eru alvarlegustu tannáverkarnir. SKJÓT OG RÉTT VIÐBRÖGÐ SKIPTA ÖLLU MÁLI! Hver mínúta telur, fyrstu 10-20 mínúturnar skipta höfuðmáli fyrir framtíðarhorfur tannarinnar (en ekki hætta þótt sá tími sé liðinn). Ef fleiri en einn fullorðinn er til staðar hringir einn strax til tannlæknis meðan aðrir leita tannarinnar og sinna einstaklingnum.
Finnið tönnina SEM ALLRA FYRST! EKKI snerta rótina, bara krónuhlutann!
– Skolið tönnina VARLEGA undir vatni, viljum losna við óhreinindi. EKKI nudda/snerta rótina.
– Ef hægt er: Komið tönninni strax fyrir í holunni með jöfnum þrýstingi og passið að hún snúi rétt.
– Hvort sem það tekst eða ekki skal koma einstaklingnum OG tönninni með öllum ráðum SEM ALLRA FYRST til tannlæknis (nema aðrir áverkar utan munns krefjist bráðamóttöku). Allt of oft er byrjað á að bíða foreldra og leita svo til slysó í stað tannlækna vegna tannáverka. Á meðan tapast dýrmætur tími.

Varðveisla úrsleginna tanna

Rétt meðhöndlun tannar á leið til tannlæknis skiptir sköpum:
– ALLS EKKI geyma tönnina þurra!
– Bestar eru sérstakar lausnir (t.d. „Save-A-Tooth“) sem ættu að vera til í öllum íþróttahúsum, skólum og sundlaugum (en eru það sjaldnast).
– Næst best er mjólk. Því næst aðkeypt 0,9% saltlausn (ekki útbúa sjálf).
– Munnvatn (eða tönn geymd í munni) er aðeins neyðarúrræði.
Kranavatn er afleitt til varðveislu tannar, ögn skárra en þurr tönn.

Forvarnir besta vörnin

– Nota hlífðarbúnað, virða rennibrautareglur sundlauga, einn í einu á trampólíni, gæta sín á hálu/blautu gólfi… Farið varlega.
– Því miður virðast margir íþróttaiðkendur sem nota íþróttagóma/hlífðargóma gera það fyrst EFTIR að þeir verða fyrir tannáverka.
FRÆÐSLA! Rannsóknir og reynsla sýna að fræðslu um tannáverka til fagfólks/starfsfólks íþróttamiðstöðva og skóla er verulega ábótavant: Fæstir treysta sér til að bregðast rétt við á ögurstundu. Hvað þá almenningur. Hér getum við gert miklu betur.

Nýjar fréttir