0.6 C
Selfoss

Ég segi nei!

Vinsælast

Vegakerfi landsins hefur verið vanrækt of lengi. Strax eftir hrunið varð að skera niður á öllum sviðum og í samgöngum bæði til nýframkvæmda og viðhalds. Þá gat ríkið ekki tekið lán til framkvæmda enda vildi enginn lána okkur nema hugsanlega á okurvöxtum. Þegar skánaði árferðið var það svo pólitísk ákvörðun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að svelta vegakerfið áfram og þess vegna erum við í vondri stöðu í dag.

Það liggur á framkvæmdum og viðhaldi á vegum út um allt land og ég er sammála því að flýta nauðsynlegum framkvæmdum og setja einnig aukið fjármagn til almenningssamgangna.

Það getur hins vegar aldrei gengið að segja við fólk á ákveðnum svæðum eins og stjórnarflokkarnir segja við Sunnlendinga þessa dagana: „Ef þið viljið vegabætur og aukið umferðaröryggi þá verið þið að opna veskið og greiða vegaskatta.“ Eða þetta sem stjórnarþingmenn hafa líka sagt: „Ef þið viljið ekki vegaskatta þá þarf að skera niður í heilbrigðiskerfinu fyrir samgöngubótum.“

Brýr til bóta

Ég vil vegabætur og aukið umferðaröryggi og tel það vera nauðsynlegan hluta velferðarinnar og aðlaðandi búsetuskilyrða um allt land. Og fyrir þetta eigum við að greiða úr okkar sameiginlega sjóði, ríkissjóði, í stað þess að veiða krónurnar upp úr veskjum íbúa á tilteknum svæðum, sem flestir eru á lágum launum eða hafa meðaltekjur. Við eigum að láta þá greiða sem geta en ekki fara að ráðum hægrimanna um notendagjöld í stað tekjutengdra skatta. Innviðaskuldin við samfélagið frá bankahruni hefur ekki verið greidd.

Besta leiðin til að bregðast við kreppu og vinna gegn atvinnuleysi er að ríkið fari í mannaflsfrekar framkvæmdir sem nýtast almenningi að lokinni kreppu.

Brúargerð er mannaflsfrek framkvæmd. Tvær nýjar brýr á Suðurlandi eiga að fara í einkaframkvæmd samkvæmt vilja meiri hluta Alþingis. Ölfusárbrú er brýnt verkefni, vegna þess að gamla brúin er að gefa sig og þolir varla mikið lengur mikla umferð og þungaflutninga. Auk þess mun ný staðsetning létta á umferð um miðbæ Selfoss. Hitt verkið er brú yfir Hornarfjarðarfljót með vegaframkvæmdum sem styttir hringveginn. Gamla brúin er komin til ára sinna og nýja brúin nauðsynleg og samgöngubæturnar líka eins og heimamenn hafa  lengi bent á og krafist úrbóta.

Besta leiðin?

Einkaframkvæmdin er ekki hagkvæmari kostur en opinber framkvæmd því ríkissjóður fær mikið betri lánakjör en verktakar. Auk þess sýna greiningar í Evrópu og greiningar FÍB að vegaframkvæmdir á vegum einkaaðila eru um 30% kostnaðarsamari.

Í frumvarpinu sem samþykkt var á síðustu dögum þingsins í júní um heimild til samvinnu við einkaaðila og sérstaka gjaldtöku, eru þrjár af sex vegaframkvæmdum á Suðurlandi en auk brúanna tveggja er heimild til gjaldtöku í jarðgöngum í gegnum Reynisfjall.

Fjármálaráðuneytið bendir á í minnisblaði til Alþingis að áður en lagt er upp í samvinnuverkefni við einkaaðila þurfi að liggja fyrir hvort og þá með hvaða hætti verkefnið hafi áhrif á afkomu og/eða skuldbindingar ríkisins. Liggja þurfi fyrir hvort þau hafi áhrif á fjármálastefnu, fjármálaáætlun og fjárlög ríkisins. Ljóst þurfi að vera hvort um sé að ræða skatta eða þjónustugjald og hvort flokka skuli gjaldtökuna sem ríkistekjur eða ekki.

Liggur þetta ljóst fyrir? Nei – svo er ekki.

Samanburður á hagkvæmni samvinnuleiðar og opinberrar framkvæmdar á vegum ríkisins verður að liggja til grundvallar ákvörðunum um samvinnuverkefni svo hægt sé að sýna fram á að hagkvæmasta leiðin fyrir skattgreiðendur hafi verið valin.

Hefur slíkur samanburður farið fram? Nei – svo er ekki.

Ef fara á í samvinnuverkefni ríkisins við einkaaðila þurfa að fást með því betri lausnir, meiri sérþekking og minni áhætta. Ekki er fýsilegt að fara samvinnuleiðina til að fá utanaðkomandi fjármögnun nema að ríkissjóður sé með hærri fjármögnunarkostnað en markaðsaðilar.

Eru einkaaðilar með meiri sérþekkingu, í aðstöðu til að lágmarka frekar áhættu og með lægri fjármögnunarkostnað en ríkið? Nei – svo er ekki.

Eigum við þá að vera að einkavæða sjálfsagðar vegabætur á Suðurlandi? Ég segi nei!

Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Nýjar fréttir