6.7 C
Selfoss

Hvað gerir þú án þess að hugsa

Vinsælast

Eitt sinn var kona spurð að því af hverju hún skipti lambalærinu í tvennt áður en hún setti það í ofninn. Svar hennar var, “mamma gerði það alltaf”. Þegar mamman var spurð af hverju hún hafi alltaf gert það var svar hennar “mamma gerði það alltaf”. Þegar gamla konan var síðan spurð af hverju hún hafi alltaf skipt lambalærinu í tvennt var svarið hennar “af því að ég átti ekki nógu stóran pott”. Það að börnin læra það sem fyrir þeim er haft er svo sannarlega rétt í mörgum tilfellum.

Ég hef lengi haft áhuga á mörgu sem viðkemur persónulegum vexti. Eitt af því sem spilar stóra rullu í því hvernig við vöxum, breytumst og þroskumst eru venjur sem við höfum þróað með okkur. Margt sem ég geri dags daglega geri ég algjörlega áreynslulaust. Ég vakna, bursta tennurnar, geri æfingar, fer í sturtu, borða morgunmat, drekk kaffibollann minn o.sfrv. Ef þú skoðar þinn dag áttar þú þig eflaust á því að það sama gildir um þig. Það er margt sem þú gerir á hverjum einstasta degi án þess að spá mikið í því.

Hvað er það sem þú gerir dags daglega sem er vani í þínu lífi?

Hvað er það sem þú gerir sem þú endurtekur dag eftir dag án þess að spá í því. Bæði jákvætt og neikvætt. Í bókinni The Power of Habit eru venjur flokkaðar í þrjá hluta. Fyrsta er áminning . Það er eitthvað sem kveikir á einhverju innra með þér sem gerir það að verkum að þú gerir hlutinn sem er orðin að vana . Til dæmis að setjast við matarborðið og borða morgunmat. Venjan er síðan sú hegðun sem þú tekur sjálfkrafa þátt í, til dæmis til að drekka kaffi. Það gæti verið að fara yfir að kaffivélinni, hella vatni í könnuna, setja nokkrar skeiðar af kaffi á sinn stað og ýta á hnappinn. Það síðasta er síðan verðlaunin sem þú færð fyrir að klára venjuna. Kaffilyktin, hljóðið og svo auðvitað bragðið.

Ef þú skoðar þitt líf áttar þú þig á því að margt sem þú gerir er vani sem skiptist niður í þessa þrjá þætti: Áminning, vani, verðlaun. Það er því um að gera að nýta sér þetta þegar þú vilt skipta út neikvæðri hegðun fyrir jákvæða. Segjum svo að þú sért þreytt/ur þegar þú kemur úr vinnu og ert vanur/vön að fara inn í stofu, setjast niður og fara í símann til þess eins að dreifa huganum og slaka á áður en þú eldar kvöldmatinn. Þá gæti það að koma heim verið áminningin , venjan sú ósjálfráða athöfn að setjast í sófann og taka upp símann. Verðlaunin væru svo þau að þú nærð að hugsa um eitthvað annað en vinnuna. Til þess að festast ekki í símanum gætir þú vanið þig á að fara í íþróttaskó þegar þú kemur heim, taka rólegan göngutúr í hverfinu og á sama hátt upplifað verðlaunin. Þ.e. að dreifa huganum og slaka á. Smá saman gætir þú því breytt um venju með því einu að fara út í stað þess að fara inn í stofu. Eins gætir þú líka náð fram jákvæðum breytingum í lífi þínu með því að tengja það við eitthvað sem þú gerir hvort eð er alla daga. Ef þú elskar að fá þér kaffi á morgnana og vilt koma inn hreyfingu í líf þitt gæti verið sniðugt að “verðlauna” þig þannig að þú fáir kaffibollann þegar þú ert búin að hreyfa þig. Það er hægt að yfirfæra þetta á flesta þætti lífs okkar. Oft þarf bara að skipta út einhverju “einu” til þess að áhrifin verði góð. Ég hvet þig til að prófa þetta.

Kær kveðja, Gunna Stella

Nýjar fréttir