7.8 C
Selfoss

Ánægjuleg tíðindi af heimavistarmálum við FSu

Vinsælast

Mikið hefur verið rætt um nauðsyn heimavistar við Fjölbrautarskóla Suðurlands af bæði nemendum og öðrum sem hafa látið sig málið varða á undanförnum árum, en lítið hefur áorkast. Nú sér fyrir endann á því. Þau tíðindi hafa borist frá Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að ráðuneyti hennar hafi tekið til skoðunar gögn sem starfshópur um heimavist við FSu og Samtök Sunnlenskra sveitarfélaga lögðu fyrir ráðuneytið varðandi heimavistina. Niðurstaða ráðuneytisins er sú að kanna möguleika á því að taka á leigu hentugt húsnæði á Selfossi og starfrækja þar heimavist til reynslu í næstu þrjú til fimm ár. Að reynslutíma loknum verður tekin ákvörðun um framhaldið.

Heimavistin lykilþáttur í að ungmenni á Suðurlandi njóti jafnréttis til náms

Starfshópurinn sem kom að málinu var skipaður sveitarstjórnarfólki og ungmennum af Suðurlandi. Í honum sátu Anton Kári Halldórsson, Rangárþingi Eystra, Sandra Brá Jóhannsdóttir, Skaftárhreppi og Nói Mar Jónsson frá Ungmennaráði Suðurlands. Hópurinn var undir formennsku Einars Freys Elínarsonar, oddvita í Mýrdalshreppi. Dagskráin hafði samband við Einar og bað hann um að segja frá málinu frá sínum bæjardyrum. „Þetta er afar ánægjuleg niðurstaða sem aldrei hefði náðst nema vegna þess einbeitta vilja sem lá fyrir af hálfu aðildarsveitarfélaga skólans og að sunnlendingum bar gæfa til þess að standa þétt saman í málinu. Ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur um að fela skólanum að koma á fót heimavist við FSu er mikill sigur fyrir alla sem aðkomu eiga að málinu enda er þetta lykilþáttur í því að tryggja að ungmenni af öllu Suðurlandi njóti jafnrétti til náms.

Hafa þarf hraðar hendur til að úrræðið komist í gang fyrir haustið

Það var að heyra að samstaðan hafi verið góð meðal þeirra þrettán sveitarfélaga sem eru eigendur að FSu og allir þétt raðirnar á Suðurlandinu til þess að koma málinu áfram. Þá hafi verið sterkt að fá ungmennaráð Suðurlands að borðinu. Nú þurfi að spýta í lófana og koma verkefninu á koppinn sem fyrst. „Nú skiptir miklu fyrir stjórnendur skólans að hafa hraðar hendur til þess að tryggja megi að heimavist verði í boði við skólann fyrir haustið 2020,“ segir Einar Freyr. „Pólitíkin, bæði ríki og sveitarfélög, hafa talað sínu máli og þaðan mun ekki skorta stuðning til þess að skólinn muni með sóma geta boðið þessa þjónustu sem hefur enda ætíð verið grundvöllur þess að skólinn er byggður á jafn breiðum grunni og raun er,“ segir Einar Freyr að lokum.

Nýjar fréttir