9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Að koma heim í stutt frí

Að koma heim í stutt frí

0
Að koma heim í stutt frí
Guðmundur Ármann Pétursson.

Það er búið að helluleggja og ganga virkilega fallega frá gangstéttinni í þorpinu mínu. Ég held að það séu óvenju margir sem eru í út í garði að rækta matjurtir. Það er víða verið að bæta og breyta. Það er verið að byggja ný hús og nýjar íbúðir í liltu þorpi þar sem árum saman var lítið um nýbyggingar.

Það eru fleiri á röltinu, það er oftar stoppað og spjallað. Bíltúrar um Uppsveitirnar eru rólegri, það eru færri á ferðinni og mig langar oftar að stoppa til að skoða og njóta.

Fórum fjölskyldan fyrir stuttu í Efsta Dal, þar voru bara íslendingar og fólk kastaði kveðju hvort á annað svona bara af því bara. Maturinn og ísinn góður og stemming svolítið eins og í “gamla daga”.

Kaffihús, veitingastaðir og litlar verslanir eru að opna soldið eins og eftir erfiðan vetur. Það er bjart og andrúmsloftið er gott. Móttökurnar eru hlýjar og jákvæðar.

Við erum að fara í gegnum erfiða tíma og það reynir mikið á hjá mörgum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum.  Það er flókið að reka ríkissjóð, að vera í forsvari fyrir bæjarfélag, að bera ábyrgð á fyrirtæki og að halda heimili.  Mér finnst samt eins og við séum að gera þetta eitthvað svo mikið betur núna en við höfum áður gert við erfiðar aðstæður.

Það er hvetjandi að heyra ráðamenn tala um að við munum vinna okkur út úr þessu ástandi og hér muni hlutir á ný byggjast upp, en það þurfi ekki endilega að vera sama Ísland sem rís upp.  Á þessum fáum vikum sem Covid 19 hefur tekið yfir samfélag okkar og alls heimsins hefur ótrúlega margt breyst.  Skólakerfið hefur tekið breyingum, atvinnulífið er ekki samt, hið opinbera er einnig að breytast.

Litlu hlutirnir eru einnig breyttir, ég er laus við tásumyndir frá Tenerife og þess í stað fer ég inn á Facebook til að sjá hvað er nýjast að gerast í súrdeigsbakstri og er að tala í mig kjark til að prófa ostagerð.

Mér líður eins og ég hafi síðustu ár búið í New York í fjölmenningu, hraða og með nóg af öllu nema tíma fyrir það sem skiptir raunverulega máli.

Þessar Covid 19 vikur eru eins og ég hafi flogið heim og hafi verið heima hjá fjölskyldu og vinum í því öryggi og þeirri gleði sem nánir vinir og fjölskylda geta aðeins veitt.  Ísland er lítið land og við erum lánsöm.

Það er örugglega stutt í það að við hverfum úr þessu stutta “fríi” í “gamla raunveruleikann”. Vonandi komum við breytt til baka og byggjum upp aðeins breytt og betra samfélag.  Það liggja tækifæri í reynslu síðustu vikna, nýtum þau í þágu samfélagsins, náttúrunnar, fyrirtækjanna, skólanna, nýsköpunnarinnar og alls þess sem færi okkur gleði, hagsæld og náttúrvernd.

Guðmundur Ármann Pétursson, íbúi á Eyrarbakka.