2.7 C
Selfoss

Íslendingar eru með góðkynja mikilmennskubrjálæði

Vinsælast

Rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir tók á móti mér á heimili sínu fyrir skömmu. Það er notalegt andrúmsloftið fyrir innan hurðina og á meðan að ég kem mér fyrir í eldhúsinu segir hún: „Er ekki í lagi að ég gefi barninu að borða. Hún var að koma heim úr skólanum,“ og rennir tveimur brauðsneiðum í ristina. Ég svara að bragði að það sé sjálfsagt. Þetta var í takti við það sem við vorum að ræða um að allt væri nú að hjarna við eftir ástandið sem skapaðist með samkomubanni og kórónuveirunni meðan að við gengum frá forstofunni inn í eldhús. Mannlífið er að taka við sér eins og vorið. Ristabrauð í kaffinu.

Ég gerði mér ferð í Hveragerði vegna þess að Guðrún Eva er ekki einungis rithöfundur og kennari heldur rekur hún ferðaþjónustu í bakgarðinum. Bak við húsið hennar er haganlega búið að koma fyrir smáhýsum sem hún hefur leigt út til ferðamanna. Mér lá forvitni á að vita hvernig hún ákvað að nýta það tómarúm sem afbókanir skildu eftir sig í kjölfar Covid-19.

Ég er búin að vera að bíða eftir því í mörg ár að heimurinn hægi á sér

Hún sest niður með kaffibolla og svarar fyrstu spurningunni. „Ég sá fram á að það yrði mikið um afbókanir á fólki frá útlöndum. Mér þótti sorglegt að láta aðstöðuna standa auða og í rauninni var ég bara að prófa. Ég er ekki heldur að bíða eftir því að „allt fari aftur í gang“ og allt fari á fullan snúning aftur. Ég er búin að vera bíða eftir því í mörg ár að heimurinn hægi á sér og fólk sé ekki svona mikið á þeytingi milli landa. Þetta er ekkert sjálfbært. Mér finnst auðvitað að fólk eigi að halda áfram að ferðast en bara öðruvísi. Fara kannski og vera í sex mánuði í sjálfboðavinnu og koma svo til baka reynslunni ríkari eða eitthvað þannig. Við höfum notið þess að reka gistiheimilið í bakgarðinum. Það er ótrúlega gefandi að vera alltaf að hitta ókunnugt fólk og eiga við það notaleg samskipti sem eru alveg flækjulaus. Á sama tíma hef ég verið dálítið hristandi hausinn yfir þessu. Mér finnst ég alltaf vera að þvo hrein rúmföt, margir stoppa bara í eina nótt og ég spyr mig hvaða æðibunugangur er þetta,“ segir Guðrún og hlær. Það er auðheyrt að Guðrúnu líkar vel við að hafa líf í kringum sig í húsunum.

Keyrir saman ritlist og ferðaþjónustu

Þrátt fyrir að vilja hafa líf og fjör í kringum sig er samt óþarfi að vera á hraðferð. Það er kjarninn í því sem við ræðum um í stundarkorn. Eftir vangaveltur um það förum við að ræða samkeyrslu á ritlist og ferðaþjónustu. Þú ert sem sagt að bjóða fólki í gistingu og svo að hjálpa því í ritlistinni samhliða. Kannski að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum eða taka tappann úr sé fólk með ritstíflu, eða hvað? „Þetta kom þannig til að ég er ritlistarkennari. Ég er voða mikið bara heima, en hef verið að fara kenna ritlist í Listaháskólanum, sem dæmi. Það sem ég er svo að fara að gera með fólki ,sem kemur hingað, er eitthvað sem hef verið að gera mjög mikið af. Ég hef verið t.d. að gera þetta fyrir aðra höfunda sem ég er í kunningsskap við og fengið greitt í líku á móti. Líka fyrir fólk sem hefur leitað til mín með eitthvað. Ég er alltaf að þessu hvort sem er,“ segir Guðrún Eva.

Viðbrögðin hafa farið langt fram úr væntingum

„Ég er steinhissa yfir viðbrögðunum. Ég er samt viss um að þetta geti verið svo gott. Ég held að þetta sé svo góð nálgun. Frekar en að ég fái sent handrit í tölvupósti og skrifi einhverja punkta til baka eða fólk komi og stoppi í hálftíma, fái kaffi og er svo farið. Það er þessi dvöl sem er dálítið lykilatriði þarna. Ég veit hvað það er að taka inn svona upplýsingar sem að stækka hugann og fjölga möguleikum. Það þarf dálítið rými til þess að gera það hluta af sér. Ég finn svona hálfgerða köllunartilfinningu um þessar mundir. Svona í að miðla, inspirera fólk bæta einhverju við eða aðstoða á þann hátt sem ég kann best. Ég veit hvaða töfrar geta átt sér stað þegar tveir hausar setja sig vel inn í verkefnið og hvað samtal getur verið máttugt og kveikt margt. Ég kannski kem með hugmynd að einhverju sem kveikir aðra hugmynd hjá viðkomandi og mín fellur eins og stillans í burt.“ Hverjir eru það sem eru að sækjast eftir svona þjónustu? „Margir sem eru að koma eru með hálftilbúin eða langt gengin handrit og hafa jafnvel verið að gefa út efni.“ Guðrún ljómar þegar að hún talar um verkefnið og þá vinnu sem er fram undan við að skapa. Skapa sögur og hjálpa fólki áfram í sköpunarferli sínu. Hún segir í framhjáhlaupi, kankvís á svipinn: „Ég svona helst myndi vilja afbóka alla sem eru að koma bara í gistingu,“ segir hún og hláturinn gusast um herbergið. Aðspurð segist hún gjarna myndi vilja snúa sér að þessu alfarið.

Fjöldi með bók í maganum – erum sagnafólk

Erum við ennþá svona mikið sagnafólk? Eru skúffuskáldin víða? Spyr ég. „Já. Við erum líka öll svo miklir einstaklingar og gerum okkur svo ljósa grein fyrir því að við höfum eitthvað að segja og að við skiptum máli. Þetta stafar held ég líka af því hvað við erum fá. Við íslendingar erum með góðkynja mikilmennsku brjálæði,“ segir Guðrún og við skellum uppúr. „Þetta er rétt, það er ekki bara í genunum og frumunum og bara af því mér finnst það heldur ef ég hugsa um það bara hugmyndalega séð þá finnst mér það raunverulega að líf hvers og eins skipti máli og hver og einn hefur mikla sögu að segja.“ Upp úr þessu förum við að ræða öll skúffuskáldin sem ganga með veggjum með bók í maga. Og jafnvel góðar bækur og sögur sem ættu að sjá ljósið. „Ójá, það eru ótrúlega margir sem eru þarna úti. Það er ótrúlegt hvað fólk getur komið sjálfu sér á óvart þegar það byrjar að skrifa. Þegar það heldur að það kunni ekki og geti ekki, svo kemur bara eitthvað stórkostlegt. Þetta höfum við í okkur því við hrærumst og lifum í tungumálinu í raun meira en efnislega heiminum oft. Við getum skrifað eins og við getum talað og dansað, ef á annað borð við höfum lært að skrifa í barnaskóla.

Vill ekki þetta venjulega aftur

Í lokin ræðum við áhrif veirunnar á samfélagið. Guðrún segir að margir séu að vonast eftir að allt verði aftur venjulegt og eins og áður. Hún sé á þeirri skoðun að það sem áður var hafi alls ekki verið venjulegt eða skynsamlegt. „Við vorum að mínu mati á hraðri leið fram af brúninni og við þurfum að hægja á okkur burt séð frá kórónuveirunni.“ Guðrún ætlar að leggja sitt af mörkum í þessu tilliti. Bjóða gestum að koma og gista, eiga róleg djúp samtöl sem skilja eitthvað eftir sig, jafnvel í formi bókar. Ekki á þönum og hlaupum eins og við gerum svo oft í dag. Smáskilaboð hér, 10 mínútur þar. Hæ og bæ. Hvort sem samtalið á sér stað í húsunum hjá Guðrúnu eða úti í bæ er rétt að staldra við og kafa ögn dýpra í samræðurnar við náungann.

 

Nýjar fréttir