8.9 C
Selfoss

Ágætu Sunnlendingar

Vinsælast

Það er óhætt að segja að skólastarfið í FSu hafi ekki farið varhluta af Covid faraldrinum frekar en ýmis önnur starfsemi. Skólanum var lokað 13. mars og var hann lokaður til 4. maí. Kennarar voru sendir heim og settu upp fjarkennslu á einni helgi. Það form gekk framar björtustu vonum, kennarar unnu mikið og vel og voru fljótir að læra algerlega ný tækifæri og leiðir til kennslu. Þar með opnuðust nýir möguleikar og þekking fyrir bæði kennara og nemendur sem hafa fæstir unnið í fjarnámi áður. Sú þekking sem þarna varð til mun fylgja okkur áfram og nýtast til framtíðar.

Í Fjölbrautaskóla Suðurlands er boðið upp á mjög fjölbreytt og áhugavert nám. Allt frá almennu bóknámi til sérhæfðs náms í iðngreinum. Með tilkomu nýja verknámshússins Hamars er skólinn afar vel tækjum búinn til kennslu í verknámi. Nemendur okkar í iðnnámi fá þekkingu sem nýtist atvinnufyrirtækjum vel. Hingað til hefur verið eftirspurn eftir fólki með iðnmenntun og því eftir miklu að slægjast.

Fyrir tveimur árum var FabLab Selfoss opnað í Hamri – verknámshúsi og eru kennarar í óðaönn að átta sig á viðbótinni sem slíkri. Nemendur á listnámsbraut hafa valið áfanga í FabLab og má segja að þar séu þau að styrkja stöðu sína inn í hátæknina sem gjarnan er nefnd fjórða iðnbyltingin. Það er mikilvægt að ungt fólk fái tækifæri til að kynna sér þá möguleika sem hátækni búnaður sem nýttur er bæði í iðnnámi og í FabLab smiðju virkar og getur slík þekking opnað ný tækifæri.

Þeir sem hafa átt leið um umhverfi skólans hafa tekið eftir að í þessari viku hafa nemendur á listnámsbraut unnið að endurnýjun á veggjalistinni sem hefur prýtt vegginn á austurhlið bílastæðis skólans undanfarin ár. Það er sannarlega þess virði að gera sér ferð og líta á listaverkin sem þar hafa sprottið fram á ný.

Í vetur var boðið upp á áfanga í leikjaforritun sem gerir miklar kröfur til þrívíddar hugsunar og færni til að nýta tölvurnar á sérhæfðan hátt. Það var magnað að sjá hvað nemendum tókst að skapa með þeim miðli þegar ég heimsótti þá í tíma rétt fyrir lokun skólans.

Í framhaldsskóla eins og FSu er aldrei lognmolla, en á liðnum vikum höfum við sannarlega saknað nemenda okkar sem hafa ekki haft tækifæri til að mæta í skólann. Það lifnaði þó aðeins yfir okkur eftir 4. maí en þá hófst kennsla í verknámi aftur í verklegum áföngum með miklum takmörkunum þó á samgangi á milli nemenda og svæða í Hamri. Það er frábært að sjá hvað nemendur hafa aðlagað sig þeim reglum og hafa engin vandkvæði verið á vinnu nemenda. Þeir hafa fylgt leiðbeiningum sóttvarnarlæknis og unnið af mikilli einbeitingu í náminu.

Ágætu Sunnlendingar ég vil hvetja ykkur til að skoða þau námstækifæri sem skólinn okkar býður uppá og velta fyrir ykkur hvort tímabært sé að hefja nám, sér í lagi ef þið hafið misst vinnu ykkar.

Innritun stendur yfir út maí meðal eldri nemenda og til 10. júní meðal grunnskólanemenda sem hyggjast hefja nám á næsta skólaári.

 

Hægt er að nálgast allar upplýsingar um skólann á heimasíðu hans, www.fsu.is

Með ósk um gleðilegt sumar,

Olga Lísa Garðarsdóttir skólameistari FSu

 

Nýjar fréttir