2.8 C
Selfoss

Hvað myndir þú segja við 17 ára þig?

Vinsælast

Í páskafríinu ákváðum við hjónin að nýta tækifærið og losa okkur við restina af draslinu sem hafði safnast fyrir uppi á háalofti í gegnum árin. Ég bjóst nú ekki við því að það væri margt merkilegt í þessum kössum en það voru ótrúlegustu hlutir sem birtust. Ég komst að því að ég hef haft mikla skrifþörf í gegnum árin og á ótal verkefni, bréf og miða sem ég hef skrifað. Þar kenndi ýmissa grasa og var ótrúlegt að upplifa tilfinningarnar sem tengjast pappírum, miðum, kortum, myndum og þess háttar. Það var mjög gaman að sjá margt sem leyndist í þessum kössum en það var líka ljúfsárt. Sumar minningar tengjast mjög erfiðum tíma í lífi mínu. Tíma þar sem ég gekk í gegnum dagana eins og “vofa”. Ég var óörugg, hafði lítið sjálfstraust, ég var óttaslegin, ég talaði niður til sjálfrar mín og ég hræddist annað fólk. Fólk upplifði mig samt oft á þessum tíma sem hrokafulla og með mótþróa. En þarna á bak við bara bara óttaslegin stúlka sem hafði átt brotna barnæsku og þráði að upplifa kærleika.

Ef ég gæti farið til baka og talað við þessa stúlku þá myndi ég segja svo margt við hana. Ég myndi segja henni að standa með sjálfri sér, ég myndi segja henni að trúa á sjálfa sig og hætta að óttast álit annarra. Ég myndi segja henni að líta í spegil og sjá sjálfa sig með réttum augum. Ég myndi segja henni að þora að stíga inn í óttann, því þá kæmi kjarkurinn. Ég myndi segja henni að hugrekkið væri handan við hornið og hún gæti látið drauma sína rætast.

Ég hef oft talað við einstaklinga sem eiga erfitt með að sætta sig við það hverjir þeir voru hérna áður fyrr. Margir hafa sagt mér með sorg í hjarta frá mistökum sem þeir hafa gert og ekki náð að fyrirgefa sér þau. Oftar en ekki erum við sjálfum okkur verst. Oftar en ekki erum það við sem leggjum okkur sjálf í einelti. Oftar en ekki eru það við sjálf sem tölum niður til okkar og höfum ekki trú á okkur sjálfum..

Í þessu samhengi þá hvet ég þig til þess að ná þér í blað og penna og setjast niður og skrifa bréf til þín. Ímyndaðu þér að þú sért að tala við þig þegar þú ert 17 ára. Það getur hjálpað að draga fram myndaalbúmin og finna mynd sér á þessum aldri. Hvað viltu segja við þessa stelpu eða þennan strák? Hvernig viltu stappa í hann/hana stálinu?

Síðan hvet ég þig til þess að skrifa þér bréf þar sem þú listar niður þá hluti sem þú vilt fyrirgefa þér. Lestu síðan bréfið upphátt fyrir sjálfan þig ( einhverstaðar í einrúmi heima hjá þér eða úti í náttúrunni) og gerðu hlutina upp við sjálfa/n þig.

Síðan skaltu velja það að bera virðingu fyrir þér, elska sjálfa/n þig á hverjum einasta degi og vittu til, að mun hafa jákvæð áhrif á líf þitt.

Nýlega opnaði ég nýja heimasíðu www.gunnastella.is en gamla síðan www.einfaldaralif.is mun vísa á nýju síðuna. Þar mun verða boðið upp á meira efni og meira af verkfærum til þess að þú getir einfaldað lífið. Til þess að lífið sé einfaldara er svo margt sem þarf að huga að. Það þarf að huga að heildinni sem er andi, sál og líkami

Markmiðið er eitt: Ég er hér til að hjálpa þér að einfalda lífið svo þú getir upplifað jafnvægi og helling af hugarró

 

Gangi þér vel,

Kærleikskveðja Gunna Stella

 

 

 

 

Nýjar fréttir