-1.6 C
Selfoss

Símaþjónusta fyrir eldri borgara í Árborg

Vinsælast

Viðbragsstjórn Árborgar kom saman ásamt fleiri aðilum til að skoða grundvöll fyrir símaþjónustu fyrir eldri borgara í tengslum við Covid – 19. Margir eldri borgara hafa verið í einangrun og haft lítil sem engin félagsleg samskipti. Það var því mikilvægt að ná til hópsins og kanna með líðan ásamt fleiru. Það voru umsjónarmenn félagsmiðstöðvanna í Árborg sem tóku að sér að skipuleggja verkefnið og starfsmenn félagsmiðstöðva og dagdvala eldriborgara voru meðal þeirra sem sinntu úthringingum.

Unga fólkið hringdi í það eldra

„Það var augljóslega þörf á þessu verkefni því margir tóku því fegins hendi að fá símtal frá okkur. Það var ákveðinn símaviðtalsrammi sem við fórum eftir. Meðal annars var spurt um aðstæður, vakin athygli á síma Rauða Krossins og fleira. Auðvitað var dálítið spjallað líka um daginn og veginn eins og gengur,“ segir Dagbjört Harðardóttir, forstöðumaður Félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz. Starfsfólk félagsmiðstöðvanna og starfsfólk dagdvala eldri borgara sá um úthringingarnar. Starfsfólk félagsmiðstöðvanna er flest á aldrinum 18-25 ára. Aðspurð hvort það hafi verið einhver áskorun segir Dagbjört: „Nei alls ekki. Þau eru auðvitað vön að vinna með yngra fólki, en þetta var ekki nokkur hindrun. Ég hef þá tilfinningu að það hafi einmitt verið einn af kostunum að þetta var ungt fólk. Hægt var að leysa ýmis tæknivandamál og fleira þessháttar sem kom upp. Það er valinn maður í hverju horni í hópnum og þau leystu þetta farsællega og þótti það ákaflega gaman.“ Aðspurð hvort framhald verði á verkefninu segir Dagbjört: „Það er mikil ánægja með verkefnið og við tókum vel eftir því. Mögulega verður verkefnið tekið lengra og við útfærum það frekar með einhverjum spennandi hætti.“

Einmannaleikinn oft erfiður – það skiptir máli að hringja

Aðspurð hvort margir hafi verið einmana segir Dagbjört það afar mismunandi: „Aðstæður fólks eru auðvitað allskonar. Sumir höfðu engan tíma í þetta meðan aðrir höfðu meiri þörf. Það er svo rétt að taka fram að ef fólk vill símtal frá okkur getur það haft samband í 480 1900 og óskað eftir því hjá sveitarfélaginu. Þegar talið berst að því hvort draga megi lærdóm af verkefninu segir Dagbjört að „mikilvægasti lærdómurinn er að þrátt fyrir að við séum að sjá fyrir endann á Covid faraldrinum að við hættum ekki að hringja í fólkið okkar. Það skiptir máli að vera í góðu sambandi við afa og ömmu, frændur og frænkur, líka þegar við erum ekki með faraldur,“ segir Dagbjört að lokum.

 

Nýjar fréttir