1.7 C
Selfoss

Um öflugt íþróttastarf í Hestamannafélaginu Sleipni

Vinsælast

Sleipnir státar af öflugum iðkendum, ræktendum og keppendum í öllum aldursflokkum og greinum hestaíþróttarinnar. Þótt engar keppnir hafi verið mögulegar frá því samkomubann var sett á og reiðhöllin lokuð af öryggisástæðum eins og önnur íþróttahús, má sjá ötult fólk við æfingar í þjálfunargerðum, á völlunum og reiðvegum alla daga vikunnar í öllum veðrum.

Nýjasta verkefni Sleipnis er viðbygging reiðhallar sem bætir aðstöðu iðkenda, með stíum og aðstöðu fyrir knapa auk fundaaðstöðu á efri hæð. Viðbyggingin mun nýtast vel og stækkar reiðsvæðið þegar hún kemst í notkun sem gefur möguleika á betri nýtingu með skiptingu en hluti reiðsvæðis er í dag notað undir stíur og sem undirbúningssvæði.

Sleipnishöllin(reiðhöllin) gegnir stóru hlutverki í starfi félagsins. Þátttakendur á námskeiðum okkar starfsárið 2019  voru um 330 talsins, börn, unglingar og ungmenni. Auk framangreinds, hafa aðstöðu í Sleipnishöllinni, hestabraut FSU, Reiðmaðurinn sem er námsbraut hjá LBHÍ fyrir fullorðna auk námskeiða sem fræðslunefnd félagsins hefur skipulagt fyrir almenna félagsmenn. Utan bókaðra tíma hafa félagsmenn aðgang að Sleipnishöllinni með rafrænum lykli og nýlega voru settir upp hreyfiskynjarar sem kveikja og slökkva ljósin til þæginda fyrir knapa og sparnaðar á rafmagni.

Reiðskóli Sleipnis hefur verið rekinn frá vori fram á haust í samstarfi við reiðkennara og eru þau námskeið ætluð börnum sem ekki hafa aðgang að hestum og nauðsynlegum búnaði. Vilji er til þess að hlúa frekar að grasrótinni með rekstri reiðskóla allt árið en fyrir þá starfsemi vantar félagshesthús. Mikil ásókn er í sumarnámskeiðin og fullskipað í hvert sæti allt tímabilið svo þar eru tækifæri til að koma til móts við hóp barna og unglinga sem ekki hafa aðgang að nauðsynlegri aðstöðu, hestum og búnaði.

Félagslegir þættir hestamennskunnar, eins og sameiginlegir reiðtúrar, óvissuferðir, ýmis fræðsla og leikir sem efla og styrkja, hafa verið stór þáttur í starfseminni og gegnir Sleipnishöllin þar lykil hlutverki. Hestafjör er árleg hátíð barna og unglinga í félaginu þar sem æfingar fara fram í margar vikur fyrir sýninguna sem er öllum opin að kostnaðarlausu og hefur verið húsfyllir á hverju ári.

Félagið hefur þjálfað unga knapa til að taka þátt í fánareið fyrir skrúðgöngum í Árborg á tyllidögum, gert tilraunir með nýjar íþróttagreinar eins og Póló og TREC og vill sífellt bæta og þróa starfið í félaginu. Keppendur Sleipnis hafa staðið framarlega á íslandsmótum, landsmótum og heimsmeistaramótum í gegnum tíðina og má lengi telja afrek á þeim vettvangi.

Það er mikið líf á félagssvæðinu þó reglur í samkomubanni og fjarlægðir séu virtar. Á tímum faraldurs geta hestamenn þjálfað sér til ánægju og heilsubótar jafnt sem til undirbúnings fyrir keppnir sem vonandi verður mögulegt að halda með sumrinu. Það er gott að hafa hrossin sem verkefni og til félagsskapar á þessum óvenjulegu tímum.

Kynbótasýningar eru áfram fyrirhugaðar í vor og sumar en margir ræktendur hafa nú meiri tíma til þjálfunar og undirbúnings svo vænta má mikillar skráningar þó ekkert verði Landsmót haldið í ár.

Félagsheimilið okkar, Hliðskjálf, hefur setið á hakanum hvað varðar viðhald en við höfum notað tímann í samkomubanni, til að mála, dúkleggja, endurnýja gólflista í sal auk fleiri verkefna sem voru komin á tíma og forsenda áframhaldandi reksturs í húsinu. Félagsheimilið verður því tilbúið fyrir okkur þegar samkomubanni lýkur og aftur hægt að koma saman og gleðjast.

Í félaginu starfa margar nefndir þar sem félagsmenn taka til hendi í afmörkuðum málaflokkum. Á vefsíðu félagsins, www.sleipnir.is má finna upplýsingar um starfandi nefndir frá 2011 til yfirstandandi árs. Vefsíðan geymir sögu félagsins og birtir upplýsingar um úrslit móta, dagskrá og aðrar upplýsingar er varða starfið og félagið sem var stofnað 1929.

Nú er í gangi átak við að fá hestamenn til að ganga í hestamannafélag og styðja þannig við starfsemi þeirra. Árlegt félagsgjald Sleipnis er nú kr. 8500. Í félagsgjaldinu er innifalinn aðgangur að aðstöðu  til íþróttaiðkunar á völlum og reiðvegum félagsins,  jafnframt hafa félagsmenn aðgang að reiðhöllinni utan bókaðra tíma. Aðgangur að Worldfeng, ættbók íslenska hestsins, er innifalin í félagsgjaldinu og greiðir félagið jafnframt fyrir aðgang félagsmanna að myndbandasafni Worldfengs sérstaklega. Hluti félagsgjaldsins rennur til landssambandsins sem vinnur fyrir félögin.

Sleipnir hefur verið fyrirmyndarfélag ÍSÍ frá árinu 2010 og ætlum við okkur að vera það áfram. Til að gerast félagsmaður í Sleipni er hægt að fara á vefsíðu félagsins, www.sleipnir.is og fylla út umsóknarformið sem birtist þegar smellt er á hnappinn ,,Skrá mig í félagið“ til hægri á forsíðunni. Fyrirsjáanlegt er mikið tekjufall hjá Sleipni vegna niðurfellinga móta auk leigutaps á félagsheimili og reiðhöll. Því er mikilvægt að fá inn félagsgjöldin til stuðnings starfinu.

Okkar framtíðarsýn er að leggja áfram áherslu á barna og unglingastarf, að styðja við faglega fræðslu á öllum stigum reiðmennsku og að stuðla að betri aðstöðu til iðkunar hestaíþrótta á félagssvæðinu almennt.

Allt starf í Sleipni byggir á nefndum þess sem starfa í sjálfboðavinnu og höfum við notið starfskrafta ótalinna félagsmanna við uppbyggingu á starfsemi félagsins í gegnum tíðina.

Mín upplifun er að Sleipnisfólk spyr ekki ,,hvað getur félagið gert fyrir mig heldur hvað get ég gert fyrir félagið“. Þannig höfum við lyft Grettistaki og þannig sækjum við fram.

Sem formaður og félagsmaður í Sleipni horfi ég bjartsýn fram á veginn og býð nýja félaga velkomna í Sleipni.

Með kærri kveðju,
Sigríður Magnea Björgvinsdóttir

 

Nýjar fréttir