10 C
Selfoss

Skóflustunga að viðbyggingu Grunnskólans í Hveragerði

Vinsælast

Tekin var skóflustunga að nýrri viðbyggingu við Grunnskólann í Hveragerði þann 22. apríl sl. Það var Reirverk ehf. sem átti lægsta tilboðið í verkið eða ríflega 390 m. kr. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar og Rannveig Eir Einarsdóttir frá Reirverki sátu í tveggja metra fjarlægð hvor frá annarri við undirritun verksamningsins. Samkomutakmarkanir og tveggja metra reglan settu svip sinn á samkomuna. Þrátt fyrir það var veðrið með besta móti og gleði var með framkvæmdirnar en þær eru með stærri framkvæmdum sem sveitarfélagið hefur ráðist í.

Á myndinni má sjá Eyþór H. Ólafsson, forseta bæjarstjórnar, Sævar Þór Helgason, skólastjóra, Öldu Pálsdóttur, formann fræðslunefndar, Rannveigu Eir, Sigurjón Jóhannsson, húsvörð og Helga Húbert Sigurjónsson, fulltrúa nemenda taka fyrstu skóflustungur að nýbyggingunni. Mynd: Dagskráin/GPP

Það er dr. Maggi Jónsson sem er arkitekt og aðalhönnuður verksins, en hann hefur áður komið að því að hanna viðbyggingar við Grunnskóla Hveragerðis. Hönnunarstjóri var Ríkharður Kristjánsson, verkfræðingur. Kári Sveinbjörn Gunnarsson og  Efla verkfræðistofa sáu um verkfræðihönnun.

Skólamörk lokar og lóðin tengist lystigarðinum

Byggingin mun verða á tveimur hæðum og tengjast inn í lystigarðinn Fossflöt. Alls er um að ræða 750 m2 að gólffleti. Byggingin verður staðsteypt, klædd að utan með sléttri álklæðningu. Loftplata verður steypt með viðsnúnu þaki. Alls er um að ræða 6 kennslustofur ásamt skemmtilegum rýmum sem munu nýtast til fjölbreyttra kennsluhátta. Innifalið í framkvæmdunum eru lóðaframkvæmdir, stígar, gangstéttir og allur frágangur til norðurs ásamt tengingum við lystigarðinn. Við breytinguna mun Skólamörk lokast. Aðkoma að Sundlauginni í Laugaskarði verður því með nýjum hætti til framtíðar. Verklok eru áætluð í júlí 2021. -gpp

Nýjar fréttir