1.1 C
Selfoss

Áfram Árborg – ákall um samráð

Vinsælast

Mikill samdráttur og efnahagsvandi vegna Covid-19 aðgerða er öllum ljós. Áríðandi er að grípa til viðbragða og nýta öll tækifæri sem gefast gegn samdrættinum í efnahagslífi þjóðarinnar. Í þeirri stöðu sem nú blasir við eru möguleikar til viðspyrnu hugsanlega meiri í Árborg en víða annarsstaðar.

Byggingarframkvæmdir hafa verið miklar í Árborg, bæði á íbúðamarkaði og í öðrum stórverkefnum, og er mikilvægt að greiða götu þess að svo verði áfram. Aðilar í byggingariðnaði og aðrir sem standa í stórræðum geta sannarlega lagt sitt af mörkum til hagkerfisins á næstunni.

Ásókn innlendra ferðamanna í þjónustu hérlendis mun væntanlega vaxa verulega í sumar, í framhaldi þess að ferðir til annarra landa verða illmögulegar á næstu mánuðum – og jafnvel verða takmarkaðar fram eftir næsta ári. Þessum nýi veruleiki býður upp á tækifæri til nýsköpunar og aukinna umsvifa. Í þeim efnum er Árborg nærtækur áfangastaður fyrir íbúa höfuðborgarsvæðis og á Suðurlandi öllu eru vinsælir viðkomustaðir landsmanna.

Aðilar í veitinga- og ferðaþjónustu, menningarmálum, frístundamálum og íþróttafélög geta gegnt veigamiklu hlutverki og blásið nýju lífi í viðburði og menningarlíf í Árborg. Þannig má auka efnahagsleg umsvif í sveitarfélaginu. 

Skoða þarf leiðir til þess að Árborg verði eftirsóknarverður áfangastaður í allt sumar og haust, t.d. með því að leggja drög að reglubundnum viðburðum og uppákomum, innan þess ramma sem settur verður af heilbrigðisyfirvöldum. 

Sveitarfélagið Árborg vill koma að því, með aðilum atvinnulífs og menningar, að samræma og skipuleggja aðgerðir þannig að allir getið tekið höndum saman. Þegar öflugt samráð kemst af stað geta óvæntar hugmyndir kviknað. Sveitarfélagið kallar því eftir samráði hugmyndaríkra og framtakssamra aðila í sveitarfélaginu. Öllum hugmyndum um samráðsvettvang, þátttakendur og fyrirkomulag samráðs verður tekið opnum örmum, enda er róið á óþekkt mið. 

Eftir aðstæðum hverju sinni og í ljósi þeirra hugmynda sem koma fram getur slíkt samráð farið fram með stafrænum hætti og svo með hefðbundnari fundum þegar það verður mögulegt.

Áhugasömum er bent á að hafa samband við bæjarstjóra. Í netfangið gislihh@arborg.is má leggja inn hugmyndir að næstu skrefum samráðs eða bara símanúmer ef óskað er eftir spjalli. Einnig er enn opið fyrir hugmyndapósthólfið hugmynd@arborg.is, þar sem allir geta komið á framfæri hugmyndum.

Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri Svf. Árborgar.

Nýjar fréttir