8.9 C
Selfoss

Tækifæri til að forgangsraða á nýjan hátt?

Vinsælast

Bronnie Ware, ástralskur hjúkrunarfræðingur vann í nokkur ár við það að hugsa um fólk síðustu 12 vikur lífs þess. Mjög reglulega spurði hún fólkið hvort það hefði einhverja eftirsjá eða hvort það hefði gert eitthvað öðruvísi ef þau gætu breytt fortíðinni. Bronnie talaði um að fólk hefði mjög oft haft  skýra sýn um  það hvernig það hefði gjarnan viljað hafa líf sitt yfirleitt vara þema sem kom upp hjá ólíku fólki. 

Að lokum skrifaði hún bókina The Top Five Regrets of the Dying (Fimm algengustu eftirsjár hjá deyjandi fólki). 

Þær eru: 

  1. Ég vildi óska að ég hefði haft hugrekki til að lifa lífi þar sem ég var samkvæmur sjálfum mér, ekki því sem aðrir ætluðust til af mér.
  2. Ég vildi að ég hefði ekki unnið svona mikið. 
  3. Ég vildi að ég hefði haft hugrekki til að tjá tilfinningar mínar. 
  4. Ég vildi að ég hefði haft meira samband við vini mína. 
  5. Ég vildi að ég hefði leyft mér að vera hamingjusamur. 

Staðreyndin er sú að margir upplifa eftirsjá og sjá eftir að hafa ekki verið skilningsríkari, meira umvefjandi og meira til staðar fyrir fólkið sitt. Það sér eftir því að hafa ekki sýnt kærleika og sagt „Ég elska þig“ oftar en það gerði.  Ég hef verið að velta fyrir mér hvað getur komið gott úr þeim aðstæðum sem við stöndum frammi fyrir sem þjóðfélag. Heimsfaraldur Covid 19 er annað mögulega tækifæri fyrir okkur. Í dag fáum við tækifæri sem aldrei fyrr til að endurskoða líf okkar og þau gildi sem við stöndum fyrir. Í dag getum við sinnt hvort öðru betur með hjálp tækninnar, mörg okkar hafa meiri tíma en nokkru sinni fyrr til að vera  með börnunum okkar, við höfum tækifæri til að forgangsraða á nýjan hátt og getum tekið ákvörðun um að lifa lífi okkar á annan hátt þegar samkomubann, sóttkví og einangrun tekur enda.

Í venjulegu íslensku samfélagi hefur í gegnum tíðina verið mikill hraði. Fólk hefur sinnt vinnu. Börnin hafa verið  í skóla, leikskóla og tómstundum og fjölskyldan hefur oft og tíðum átt minni tíma saman en í sundur. Foreldrar hafa verið uppfullir af samviskubiti og keypt börnin sín glöð. En í dag höfum við annað tækfæri. Í dag „neyðumst“ við til að vera saman. Margir hafa þurft að minnka vinnu. Við neyðumst til að kaupa minni óþarfa og hraðinn verður annar. 

Hvað getum við lært af þessum nýju aðstæðum? 

1. Elskaðu meira

2. Gefðu fólkinu þínu tíma

3. Forgangsraðaðu á nýjan hátt

4. Hvettu og sýndu umhyggju

5. Gefðu þér tíma til að hlaða þig andlega og líkamlega 

6. Einfaldaðu líf þitt 

Mundu að „fátt er svo með öllu illt að ei boði gott“. 

Gangi þér vel að takast á við nýjar aðstæður og mundu að taka veirulausar stundir með fjölskyldunni. 

Kærleiks „veif“. 

Gunna Stella

Nýjar fréttir