-6.6 C
Selfoss

Við stöndum með ykkur

Vinsælast

Aðgerðir til stuðnings við fyrirtæki og atvinnulíf voru samþykktar í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar í liðinni viku. Byggja aðgerðir bæjarstjórnar að megninu til á tillögum og ábendingum Sambands íslenskra sveitarfélaga að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðarbúskapnum. Sambandið hefur einnig hvatt ríkisstjórn og Alþingi til að gera viðeigandi ráðstafanir svo þessar tillögur geti orðið að veruleika.  Þær ráðstafanir felast svo dæmi séu tekin í því að endurskoða skuldaþakið og jafnvægisreglu sveitarstjórnarlaga sem kveður á um að sveitarstjórnum sé óheimilt að skila tapi þegar niðurstaða hvers þriggja ára tímabils er reiknuð út.  

Frestum greiðslum og fellum niður gjöld  

Bæjarfulltrúar í Hveragerði eru allir sammála því að styðja skuli þau fyrirtæki sem nú glíma við erfiðleika í rekstri af þeirri stærðargráðu sem enginn gat séð fyrir. Án blómlegs atvinnulífs þrífst ekki gott mannlíf. Atvinnuleysi er böl sem við viljum fyrir alla muni reyna að koma í veg fyrir. Fyrirtæki  í Hveragerði sem glíma við tekjutap af völdum COVID-19 munu geta sótt um frestun á greiðslu fasteignagjalda í fjóra mánuði. Einstaklingar munu fá niðurfelld þjónustugjöld vegna þjónustu sem ekki er nýtt eða ekki hefur verið mögulegt að nýta og eru leikskólagjöldin þar viðamest. Einnig var í bæjarstjórn rætt um markaðsstuðning við ferðaþjónustuna en útfærsla bíður þess að við sjáum til lands í því verkefni sem nú er við að glíma.  

Verndum störfin – verslum íslenskt 

Það hefur verið dásamlegt að fylgjast með hvernig rekstraraðilar hafa umsnúið rekstrinum með þá von í brjósti að viðskipti og þar með grunnur að fyrirtækjunum hverfi ekki alveg. Heimsent, sótt, netverslun, þeir sem geta sækja nú viðskipti með nýjum aðferðum. Nú er komið að okkur að versla íslenskt. Við verðum að verja störfin og fyrirtækin. Pöntum heim eða sækjum vörur og veitingar á staðinn. Það er líka góð hugmynd að gleðja þá sem við getum annars ekki hitt með blómum. Verum meðvituð um að gerðir okkar hafa áhrif.   Gerum það sem við getum til þess að þessir aðilar verði allir til staðar fyrir okkur þegar þessum erfiðu tímum lýkur.

Þetta líður hjá

Við erum að sigla inn í óvissu og erum lögð af stað í  ferðalag sem enginn hefur áður lagt upp í. Við hefðum líka öll svo gjarnan viljað sleppa þessari ferð en slíkt er víst ekki í boði. Á hverjum degi minni ég mig á að með hverjum degi sem líður færumst við nær því að þetta ástand líði hjá. Við vonum svo innilega að það verði sem fyrst. 

Að lokum vil ég senda öllum þeim fjölmörgu sem nú sinna mikilvægum störfum í okkar allra þágu og þá ekki síst  þeim sem nú hlúa að þeim sem eru hvað veikastir fyrir, innilegar þakkir. Það er skylda okkar allra að hlúa sérstaklega að þeim sem ekki geta gert það sjálfir þegar svona árar. Sveitarfélögin eru skjól íbúa og veita mikilvæga nærþjónustu. Út um allt land eru sveitarstjórnarmenn og starfsmenn sveitarfélaga að búa sig undir það versta um leið og við vonum það besta. Þannig tökumst við á þetta verkefni. Vel undirbúin og förum eftir þeim reglum sem settar eru. Samstíga, samhent og öll í sama liðinu náum við árangri.

Aldís Hafsteinsdóttir,
bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.

Nýjar fréttir