8.4 C
Selfoss

Glaðlegir páskaungar

Vinsælast

Það styttist í páska og ekki úr vegi að fara að huga að páskaskrauti. Uppskrift vikunnar er af glaðlegum litlum ungum sem eru um 7-8 sm að hæð. Þeir eru auðveldir og fljótgerðir og um að gera að gera þá svolítið fjölbreytta, hvern með sinn svip.

Efni: Cotton quick bómullargarn, 1 dk gult, 1 dk appelsínugult, spotti af dökku bómullargarni fyrir augu. Heklunál no 3, tróð, prjónamerki.

Skammstafanir:

fl: fastalykkja, kl:keðjulykkja, ll:loftlykkja, st:stuðull.

Töfralykkja – búið til nettan hring úr bandinu og heklið utan um hann, í lok vinnunnar er dregið fast í lausa endann til að hringurinn lokist alveg og gengið frá endanum.

Athugið að ljúka hverri umferð með 1 kl, byrjið nýja umferð með 1 ll.

Gott er að skilja um það bil 10 sm enda eftir í lokin til að festa búkhluta saman.

Uppskrift:

Búkur:  Heklaður með gulu garni.

1.umf. 6 fl um töfralykkju.

2.umf. 2 fl í hverja fl (alls 12 l).

3.umf. *1 fl, 2 fl í næstu fl* út umferðina (alls 18 l).

4.umf. *2 fl, 2 fl í næstu fl* út umferðina (alls 24 l).

5.umf. *3 fl, 2 fl í næstu fl* út umferðina (alls 30 l).

6.-8.umf. 1 fl í hverja fl fyrri umferðar.

9.umf. 13 fl, 2 fl saman * 2, 13 fl (alls 28 fl).

10.umf. 11 fl, 2 fl saman, 2 fl, 2 fl saman, 11 fl (alls 26 fl).

11.umf. 9 fl, 2 fl saman, 4 fl, 2 fl saman, 9 fl (alls 24 fl).

12.umf. 7 fl, 2 fl saman, 6 fl, 2 fl saman, 7 fl (alls 22 fl).

13.umf. 5 fl, 2 fl saman, 8 fl, 2 fl saman, 5 fl (alls 20 fl).

14.umf. *2 fl saman, 1 fl* endurtakið * * 5 sinnum (alls 15 fl).

15.umf. *2 fl saman, 2 fl* endurtakið * * 5 sinnum (alls 10 fl).

Hér er sniðugt að doka við og byrja að fylla búkinn með tróði.

16.umf. 3 fl, 2 fl saman*2 sinnum, 3 fl (alls 8 fl).

17.umf. 2 fl, 2 fl saman*2 sinnum, 2 fl (alls 6 fl).

18.umf. 1 fl, 2 fl saman*2 sinnum, 1 fl (alls 4 fl).

Fyllið nú búkinn endanlega, klippið endann frá, þræðið í gegnum fl sem eftir eru og lokið gatinu, gangið snyrtilega frá endum.

Goggur: Heklaður með appelsínugulu garni.

Heklið 6 ll. snúið við og heklið 5 fl til baka.

Snúið við, heklið 2 fl saman í fyrstu fl, 3 fl, 2 fl saman í síðustu fl.

Heklið eina umferð kl allan hringinn.

Höfuð: Heklað með gulu garni.

Fyrstu 4 umferðirnar eru eins og á búknum.

5.-8.umf. 1 fl í hverja fl fyrri umferðar.

9.umf. *2 fl saman, 2 fl* út umferðina (alls 18 l)

10.umf. *2 fl saman, 1 fl* út umferðina (alls 12 l)

Setjið tróð inn í höfuðið, nokkuð þétt.

Nú er gott að sauma augun, þau eru sett á milli 5. og 6. umferðar. Notið dökkan lit, festið garnið snyrtilega og saumið einn lítinn kross, næst þegar nálin kemur upp í gegn vefjum við garninu 5 sinnum um nálina, drögum í gegn og stingum niður þétt við hliðina á. Næsta auga er gert eins í um það bil 1 cm fjarlægð. Festið endann snyrtilega.

Festið nú gogginn á. Brjótið hann saman þannig að breiðari hlutinn sé efri vör. Saumið gogginn við höfuðið ca 1 sm fyrir neðan augun. Athugið að auðveldlega má búa til ólíka svipi á ungana með því að halla gogginum.

11.umf. Heklið 2 fl saman út umferðina (alls 6 l).

Klippið garnið frá, munið að hafa þráðinn nægilega langan til að festa með höfuðið við búkinn.

Fætur: Heklaðir með appelsínugulu garni.

Búið til töfralykkju og heklið um hana 2 ll, 2 st, 1 fl, 1 ll, 2 st, 1 fl, 1 ll, 2 st, 1 fl, 6 ll, snúið við og heklið 5 fl niður loftlykkjurnar, 1 kl í miðju töfralykkjunnar, klippið frá. Þéttið að töfralykkjunni, þræðið endann upp eftir fætinum og festið við búkinn. Heklið annan fót eins.

Vængir:

1.umf. Heklið 76 fl um töfralykjuboga.

2.umf. 2 fl í fyrstu fl 2 st í næstu fl, 1 tvöfaldan st í næstu fl, 2 st , 2 fl í þar næstu fl, 1kl, 1 kl í næstu 2 fl. Heklið eina umf af kl allan hringinn..

Klippið frá. Festið vænginn við búkinn með miðjuþræðinum og tyllið honum að framan með endaþræðinum.

Heklið annan væng eins.

Festið nú höfuðið við búkinn, gaman er að prófa að tylla því með mismunandi halla á búkinn til að ná fram kankvísum svip.

Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir.

Nýjar fréttir