7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Samstaða skilar árangri

Samstaða skilar árangri

0
Samstaða skilar árangri

 

Ingibjörg Zoëga
Eyþór H. Ólafsson

D-listinn í Hveragerði  bauð fram í kosningum til sveitarstjórnar sem fram fóru þann 26. maí 2019 og hlaut þar 775 atkvæði eða 56% greiddra atkvæða.  Þar með hlaut D-listinn, fjóra fulltrúa eða hreinan meirihluta í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar.

Sjálfstæðismenn í Hveragerði halda úti fjölbreyttu félagsstarfi.  Opin hús eru haldin vikulega yfir vetrarmánuðina, jólagleði og vorgleði lífga upp á félagsstarfið auk annarra tilfallandi viðburða.  Einn af föstu liðunum er útgáfa jólablaðsins Bláhvers sem komið hefur út árlega.  Félagið á eigið húsnæði og stendur straum af rekstri þess og viðhaldi,  að hluta til með félagsgjöldum.

Með öflugu félagsstarfi sem borið er uppi af sterkum og duglegum hópi hefur okkur tekist að safna fyrir þeim kostnaði sem óhjákvæmilega fellur til við kosningar.  Við erum afar stolt af þeirri vinnu sem þar fer fram og höfum líka mjög gaman af öllu því umstangi sem góð kosningabarátta felur í sér.

Við erum gríðarlega þakklát Hvergerðingum sem hafa treyst okkur fyrir stjórnun bæjarfélagsins undanfarin kjörtímabil.  Við vonum að okkur beri gæfa til að standa undir því trausti sem okkur hefur verið sýnt.  Við vonum líka að með því öfluga félagsstarfi sem D-listinn í Hveragerði stendur fyrir þá sjái bæjarbúar að kraftur og dugnaður býr í þessum hópi auk kunnáttu í rekstri hvort sem er á bæjarfélagi eða í kosningum.

Yfirlit yfir kostnað við kosningar
Í reglum Hveragerðisbæjar um framlög til stjórnmálasamtaka er bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga er kveðið á um að stjórnmálasamtök sem hljóta styrki frá bæjarfélaginu skuli birta upplýsingar um kostnað við framboð til sveitarstjórnar.  Í samræmi við umrætt ákvæði er hér með gerð grein fyrir því að kostnaður við framboð Sjálfstæðisfélags Hveragerðis við sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2018 var kr. 1.600.000,-.  Helstu kostnaðarliðir voru við viðburði sem haldnir voru svo sem  konukvöld,  fjölskylduhátíð, opin hús bæði ungra og annarra viðburða, veitingar og annað slíkt kr. 700.000.  Kostnaður vegna ljósmyndunar, myndbandagerðar, heimasíðu og fleira nam um 200.000,-.  Leiga á sal, símar, tölvur og tæknibúnaðar kr. 350.000,-.  Kostnaður við hönnun, prentun og kynningarefni nam kr.  350.000,- .

Félagið átti peninga eftir fjáröflun áranna á undan þegar kom að kosningu.   Hæsti einstaki styrkur vegna kosninganna 2018 var frá Hveragerðisbæ samkvæmt reglum þar um  kr. 637.429,-.  Aðrir styrkir námu kr. 555.000,-.  Þar af voru styrkir frá fyrirtækjum kr. 305.000, sá hæsti kr. 100.000,- en sá lægsti kr. 15.000,-. Auk þess bárust styrkir frá einstaklingum samtals kr. 250.000,-.  Fyrir utan þessa fjárhagslegu styrki vann fjöldi einstaklinga mikið og óeigingjarnt starf í þágu framboðsins, stóðu vaktina á skrifstofunum, undirbjuggu viðburði, báru út blöð og bæklinga, komu með veitingar og margt, margt fleira.  Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Höldum ótrauð áfram
Vinna að undirbúningi næstu sveitarstjórnarkosninga sem verða vorið 2022 hófst um leið og úrslit lágu fyrir vorið 2018.  D-listinn mun vinna að undirbúningi þeirra eins og verið hefur með fjáröflunum og öðrum undirbúningi til að tryggja að kosningabaráttan verði eins skemmtileg og vönduð og nokkur er kostur.  Fylgist með á facebook síðu D-listans í Hveragerði eða á www.blahver.is.  Minnum líka á opin hús á laugardagsmorgnum að Austurmörk 2.  Allir alltaf velkomnir !

Fyrir hönd frambjóðenda og félaga í Sjálfstæðisfélagi Hveragerðis

Ingibjörg Zoëga, formaður
Eyþór H. Ólafsson, oddviti D-listans