8.9 C
Selfoss

Íbúafundur í Hveragerði í Listasafni Árnesinga

Vinsælast

Boðað var til opins íbúafundar í Hveragerði þann 26. febrúar sl. Talsvert af áhugasömum íbúum sótti fundinn og í lok fundar kom Karlakór Hveragerðis og söng nokkur lög. Við ræddum við Jóhönnu M. Hjartardóttur, menningar- og frístundafulltrúa Hveragerðisbæjar og spurðum út í fundinn.

Afrakstur fundarins nýttur til úrbóta

Þegar Jóhanna er spurð um gildi svona íbúafunda kemur strax í ljós að bæjarbúar eigi að hafa beina aðkomu að mótun viðburða í bænum. „Við viljum heyra raddir bæjarbúa um hátíðir og viðburði í bænum okkar. Hátíðir skipa stóran sess í bænum og eru bæjarbúar virkir þátttakendur. Tilbúnir að bjóða heim, sýna fallega garða eða listasmiðjur sínar. Á hátíðum er mikið líf í bænum og verða allir menningarkimar jafnréttháir og samstarf listgreina eykst.“

Hátíðir hafa mikil hagræn áhrif í bænum

Hátíðir í bænum hafa verið vel sóttar og hafa fest sig í sessi, ekki bara meðal íbúa heldur allra gesta. „Þær draga að fjölbreytilegan hóp gesta og auka viðskipti við ferðamenn, veltu fyrirtækja og einkaaðila í samfélaginu. Þjónustuaðilar eru fjölmargir og væri gaman að fá þá af meiri krafti inn í skipulagningu viðburða og um leið eykst sýnileiki þeirra og gestafjöldi,“ segir Jóhanna.

Fimm þemaborð sem kryfja málin

Á fundinum voru fimm þemaborð þar sem málin voru krufin. Þemun fimm voru, Jól í Hveragerði, Bæjarhátíðin, aðrir viðburðir eins og 17. júní og blóm í bæ, Söfn og sýningar og Kjöt og Kúnsthúsið sem bæjarfélagið hefur nýlega fest kaup á. Fundurinn var haldinn með þjóðfundarfyrirkomulagi þannig að allir gátu látið skoðanir sínar í ljós án þess að þurfa að halda ræðu. Aðspurð segir Jóhanna að fundurinn hafi heppnast með ágætum og það hafi komið fram margar góðar hugmyndir sem eru gott innlegg í þá vinnu sem unnin er í tengslum við viðburði hjá bænum.

 

 

Nýjar fréttir