11.1 C
Selfoss

Kristbjörg valin besta leikkonan í aðalhlutverki

Vinsælast

Kristbjörg Sigtryggsdóttir var valin besta leikkona í stuttmynd á Fusion International Filmfestival í London. Myndin heitir „Everything Nice“ og er í leikstjórn Ólafar Birnu Torfadóttur. „Ég vil að það komi skýrt fram að ég stend ekki ein að þessu. Þetta er samstarfsverkefni sem margir aðilar komu að. Ég vil auðvitað hrósa þeim öllum, en Ólöf Birna leikstjóri á stóran þátt í þessum árangri myndarinnar, segir Kristbjörg við blaðamann. „Það var valinn maður í hverju rúmi,“  segir Þórir Tryggvason maður Kristbjargar og einn framleiðanda að myndinni. Við hittum Kristbjörgu og Þóri á heimili þeirra á Selfossi og fórum yfir atburðarrásina.

Happ og glapp þegar myndir eru sendar á hátíðir

„Við tókum ákvörðun um að senda myndina á ýmsar kvikmyndahátíðir og þar á meðal þessa hátíð, Fusion International Filmfestival. Þetta er frekar stór hátíð sem stuðlar að því að tengja kvikmyndagerðarfólk saman. Það eru margir sem eru að dútla eitthvað í sínu horni og þekkja kannski ekki marga aðra í bransanum en þetta er líka vettvangur til að kynnast fólki, fara á fyrirlestra og fleira sem tengist iðnaðinum,“ segja Kristbjörg og Þórir. Myndin er lokaverkefni Kristbjargar við Kvikmyndaskóla Íslands.

„Það er alltaf svona happ og glapp þegar maður sendir myndirnar sínar á svona hátíðir. Hvort hún komist inn. Kannski passar hún ekki inn í prógrammið, ekki inn í þemað. Við höfum samt áður fengið verðlaun fyrir hana en á mun minni hátíðum og við ekki farið. Þegar við fengum tilkynningu um að myndin okkar hefði verið samþykkt inn á Fusion hátíðina fannst okkur þetta vera gott tækifæri til að taka þátt í svona hátíðum og mæta. Við vorum tilnefnd í tveimur flokkum. Annarsvegar „rísandi stjarna“, sem hefði verið verðlaun fyrir leikstjórnina á myndinni og hinsvegar besta aðalleikkona í stuttmynd,“ segir Kristbjörg.

 Átti engan veginn von á þessu

„Síðasta kvöldið var svona galakvöld og það var rosaleg spenna hjá mér að prófa það. Rauði dregillinn og allt það. Það er rosalega spennandi. Útskrifuð leikkona, vinn sem kennari á Íslandi. Og ekki inni í kvikmyndasenunni á Íslandi. Hef leikið aukahlutverk hér og þar og í áhugaleikhúsinu, sem er geggjað. En þetta er allt öðruvísi sena og svona eins og lítil Óskarsverðlaunahátíð. Þetta er alveg svona smá glamúr og glimmer,“ segir Kristbjörg. Aðspurð um andann á hátíðinni segir hún að allir hafi verið ótrúlega almennilegir og til í að spjalla. Nú er blaðamaður orðinn óþreyjufullur að spyrja og skýtur inn einni klassískri: „Áttir þú von á þessu?“ „Nei. Ég var búin að undirbúa það í huganum að taka á móti verðlaunum fyrir hönd leikstjórans. Svo allt í einu koma tilnefningar fyrir bestu leikkonuna í aðalhlutverki og þá kemur mín mynd upp. Ég var viss um að þetta hlytu að vera einhverskonar mistök. Bara ha? Vorum við tilnefnd í þessu. Svo allt í einu: „And the winner is: Everything Nice.““, segir Kristbjörg og dæsir. Það næsta sem tekur við er að fara upp á svið og halda ræðu, sem var ekki klár. „Ég fer upp á svið og held litla ræðu, Þórir með mér, og tek við verðlaununum. Ég er ágæt í ensku og tala hana mjög vel. Þarna talaði ég verstu ÍSL – ensku sem ég hef heyrt og gleymdi öllu sem ég ætlaði að segja,“ segir Kristbjörg hlæjandi. Þau hjónin segja tilfinninguna hafa verið einstaka. Þetta sé gríðarlegur heiður. „Miðað við allar hinar leikkonurnar, sem allar voru geggjaðar, var ég valin.“

Everything nice – allt annað en næs!

En við vindum okkur aðeins að myndinni sjálfri. Blaðamaður fékk að horfa á myndina sem er, þegar öllu er á botninn hvolft, allt annað en næs. Atburðarásin er hröð og við fylgjumst með aðalpersónunni kynnast manni sem reynist vera flagð undir fögru skinni. Í myndinni fáum við innsýn í tilfinningalíf persónanna og tökum þátt í þeim harmi að standa allslaus á erlendum flugvelli að reyna að flýja hættulegar aðstæður og mæta veggjum og mótlæti. Kristbjörgu ferst þetta afar vel úr hendi og fær áhorfandann til að vilja teygja sig inn í myndina og rétta hjálparhönd, svo sannfærandi er hún. Þá kallast myndin á við þann raunveruleika sem birtist manni í blöðum og fréttum af ofbeldi í nánum samböndum.

Það var rétt að elta drauminn

„Þetta var rosalega mikil viðurkenning á því að hafa valið rétt. Ég hef sent myndina á hátíðir á Íslandi og alltaf fengið höfnun. Þannig er bara bransinn, en það brýtur mann alltaf smá niður. Ég er útskrifuð leikkona og nú er það komið og ég fæ samt ekkert að gera, og er kannski ekki mikið að sækja það því kannski er ég bara ekkert nógu góð,“ segir Kristbjörg. Fyrir Kristbjörgu var þetta því ákveðinn persónulegur sigur. Hún hafði sótt Kvikmyndaskólann, mun eldri en allir í kringum hana og hún sagði það hafa oft verið erfitt og auðvelt að selja sér að þessi ákvörðun hefði kannski ekki verið rétt. „Þessi viðurkenning sýnir mér að það var rétt að elta drauminn. Það að fara í leiklistarnám að verða þrítugur er ekkert algengt. Það er líka bara geggjað að fá bikar. Því ég hef aldrei fengið medalíu. Ég er ekki í íþróttum né neinu og loksins á ég bikar og nafnið mitt er grafið í hann,“ segir Kristbjörg hlæjandi. Við spyrjum hana að lokum hvað hún vilji segja við fólk sem langar að elta draumana. Það liggur ekki á svari: „Það er alltaf hægt að finna leið. Það má gera hluti sem eru erfiðir. Það er ekkert alltaf létt að elta drauminn, en það er allt í lagi. Því erfiðara sem það er því betri er uppskeran og því sætari er sigurinn. Við látum þetta verða lokaorðin og óskum þeim til hamingju með árangurinn.

 

Nýjar fréttir