-6.6 C
Selfoss

Japanskur dagur í Listasafni Árnesinga

Vinsælast

Börnin og fjölskyldur eru svo sannarlega ávallt velkomin í Listasafn Árnesinga. Þó eru þau sérstaklega boðin velkomin síðasta sunnudag í hverjum mánuði. Þá eru spennandi listasmiðjur í safninu undir dyggri stjórn starfsmanna safnsins. Síðastliðinn sunnudag var japanskur dagur. Dagskráin hófst með spjalli Gunnellu Þorgeirsdóttur um japanska menningu með áherslu á Tohoku svæðið í japan, en flott og spennandi ljósmyndasýning er í safninu um þessar mundir frá svæðinu. Spjallið var aðlagað barnafjölskyldum og sló svo sannarlega í gegn.

Origami og kalligrafía

Að lokinni leiðsögn um sýninguna tóku börn og fullorðnir við að brjóta Origami. Origami er sú list að brjóta pappírsarkir í ólík form eins og fugla, froska eða fólk. Sum Origami hafa þann eiginleika að geta verið hreyfanleg eins og að blaka vængjum. Þá voru þær Reiko og Tomoko frá Japanska sendiráðinu gestir og skrifuðu með japanskri kalligrafíu nafn gesta á pappírsörk. Sumir gestanna reyndu að herma eftir þeim en það er ljóst að mikla hæfni þarf til að ná tökum á þessu. Í samtali við þær stöllur segja þær að börn læri þessa tækni í skóla. Það sé þó möguleiki að læra þetta enn fremur. Þær líktu því við júdó, en eftir því sem maður lærir meira öðlast maður hærri gráður. Þeir sem eru meistarar í greininni eiga áratuga nám að baki.

Nýjar fréttir