5.6 C
Selfoss

Viktoría

Vinsælast

Uppskriftin að þessu sinni er að sparilegri húfu með kanti sem er heklaður með rússnesku hekli, þéttur og skjólgóður og síðan er prjónað ofan við hann.

Í húfuna eru notaðar tvær gerðir af ítölsku garni. Annað er PERLE sem er úr mohair- og silkiblöndu ásamt fallegum litlum perlum og fæst í nokkrum ljósum litum og einnig svörtu. Hitt er ISABELLA sem er blanda úr ull, silki og bómull og er til í nokkrum ólíkum litum. Það er sérlega létt garn. Sannarlega húfa sem hæfir hvaða drottningu sem er.

 

Efni og verkfæri: Ein dokka af hvorri garntegund (lítill afgangur), heklunál nr 6 sem er mjó alla leið, hringprjónn nr 6, 60 sm og sokkaprjónar nr 6.

 

Kanturinn er heklaður með rússnesku hekli sem er kallað Tunesian crochet fyrir þá sem vilja skoða kennslumyndbönd á netinu. Notaður er einn þráður af hvoru garni.

Byrjið á að gera 14 ll. Síðan eru sóttar lykkjur í allar ll, sú fyrsta í 2. ll. Alls eiga að vera 14 l á nálinni þegar kemur út á enda. Síðan er farið til baka þannig: Heklið í gegnum fyrstu lykkjuna og eftir það alltaf í gegnum nýjustu lykkjuna og næstu lykkju þangað til ein lykkja er eftir. Í næstu umferðum eru lykkjurnar sóttar í gegnum lykkjurnar sem nú liggja langsum í umferðinni fyrir neðan. Athugið að alltaf eru 14 lykkjur á nálinni þegar komið er út á enda.

Þegar búið er að gera 74 umferðir ætti stykkið að vera hæfilega langt utan um höfuð sem er 56 sm í ummál. (Það er því hægur vandi að gera minni eða stærri húfu.) Saumið nú endana saman með ISABELLA þræðinum. Gott er að gera þetta frá réttunni til að gera samskeytin sem snyrtilegust og gætið þess að brúnirnar séu jafnar. Perlurnar sem hafa lent á röngunni er auðvelt að ýta í gegn svo þær njóti sín.

 

Þá tekur við prjónaði hlutinn og hann er gerður með tveim þráðum af ISABELLA. Efri brún kantsins er sú sem er með heilar lykkjur. Heklið lykkjur upp á heklunálina í gegnum endalykkjurnar frá röngunni og setjið þær jafnóðum upp á hringprjóninn. Alls ættu að vera 75 lykkjur á prjóninum þar sem hæfilegt er að taka upp eina aukalykkju við samskeytin. Snúið stykkinu við svo réttan snúi fram og prjónið (til baka) slétt prjón. Aukið út í fyrstu umferðinni með því að prjóna tvisvar í þriðju og fjórðu hverja lykkju til skiptis. Þá ættu að vera á prjóninum 96 lykkjur. Ef verið er að gera minni eða stærri húfu þarf bara að hafa í huga að lykkjurfjöldinn þarf að vera deilanlegur með 8 og ef ekki má bæta við þeim lykkjum sem upp á vantar. Prjónið 3 umferðir slétt.

* Prj 7 sl l og síðan 1 br l *. Endurtakið *-* út umferðina.

Prjónið 4 umf sl. Prj 3 sl l, * 1 br l, 7 sl l *. Endurtakið *-* út umferðina sem endar á 4 sl l.

Prjónið 4 umf sl. * Prj 7 sl l og síðan 1 br l *. Endurtakið *-* út umferðina. Prjónið 4 umf sl.

 

Úrtaka:

Skiptið yfir á sokkaprjóna þegar hentar.

Prjónið saman sl 7. og 8. hverja lykkju allan hringinn. Prjónið 2 umf.

Prjónið saman sl 6. og 7. hverja lykkju allan hringinn. Prjónið 2 umf.

Prjónið saman sl 5. og 6. hverja lykkju allan hringinn. Prjónið 2 umf.

Prjónið saman sl 4. og 5. hverja lykkju allan hringinn. Prjónið 1 umf.

Prjónið saman sl 3. og 4. hverja lykkju allan hringinn. Prjónið 1 umf.

Prjónið saman sl 2. og 3. hverja lykkju allan hringinn. Prjónið 1 umf.

Prjónið saman 2 sl út umferðina tvisvar. Slítið frá og dragið endann í gegnum lykkjurnar.

Gangið frá endunum. Þvoið húfuna úr volgu sápuvatni og leggið til þerris.

 

Hönnun: Alda Sigurðardóttir

 

Nýjar fréttir