3 C
Selfoss

Um fasteignagjöld

Vinsælast

Það er ánægjulegt að sjá greinar frá íbúum sveitarfélagsins sem eru jafn málefnalega fram settar og grein sem birtist í síðustu Dagskrá. Greinarhöfundur fjallaði þar um fasteignagjöld í Árborg og óskaði eftir svörum við því hvort unnt væri að milda hækkanir á fasteignagjöldum með einhverjum hætti.

Hvað er fasteignamat?

Samkvæmt skilgreiningu er fasteignamat gangverð fasteignar, umreiknað til staðgreiðslu, sem ætla má að eignin hefði haft í kaupum og sölum. Fasteignamatið byggir á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Með öðrum orðum, þá endurspeglar fasteignamat söluvirði fasteignar.

Fasteignamat húss og lóðar er mjög mismunandi eftir því hvar á landinu eignin er staðsett. Samkvæmt úttekt Byggðastofnunnar á síðasta ári er matið langhæst í Suður-Þingholtum í Reykjavík, um 150% hærra en á Selfossi þar sem fasteignamat er það fjórða hæsta á landsbyggðinni á eftir Akureyri, Keflavík og Akranesi og næst á undan Hveragerði.

Undanfarin ár hefur Svf. Árborg þótt eftirsóknarverður staður til að búa á, sem er vel. Mikil eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði hefur hækkað fasteignaverð og þar með þrýst fasteignamatinu upp á við. Hvort um fasteignabólu sé að ræða eða ekki, er allavega ljóst að söluvirði fasteigna hefur hækkað mikið á undanförnum árum í Svf. Árborg.

Fasteignagjöld í Árborg

Til fasteignagjalda teljast auk fasteignaskatts, lóðarleiga, fráveitugjald, vatnsgjald og sorpgjald. Frá því að núverandi bæjarstjórnarmeirihluti tók við stjórnartaumunum í júní 2018, hefur hann unnið ötullega að því að milda hækkanir á fasteignagjöldum á milli ára.

Álagningarhlutfall fasteignaskatts, hefur sem dæmi verið lækkað tvívegis til að bregðast við hækkunum á fasteignamati og í fyrsta sinn í sögu Svf. Árborgar var álagningarhlutfallið á atvinnuhúsnæði lækkað við gerð síðustu gjaldskrár ásamt því að vatnsgjald var lækkað en ekki hækkað.

Álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði hefur verið lækkað um 22% í Árborg frá árinu 2018 til að koma til móts við fasteignaeigendur. Ekkert sveitarfélag á landinu hefur lækkað álagningarhlutfallið meira á tímabilinu, að undanskildum Reykjanesbæ sem var að losna undan klóm eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga sem skyldaði Reykjanesbæ til að hafa álagningarhlutfall fasteignaskatts í hæstu hæðum. Staðan í dag er sú að fasteignaskatturinn sjálfur í krónum talið per íbúð er einna lægstur í Svf. Árborg á landinu öllu.

Fráveitugjaldi er ætlað að greiða fyrir rekstur og framkvæmdir við fráveituna. Það liggur fyrir að Svf. Árborg er að fara í mikla fjárfestingu vegna Hreinsistöðvar á Selfossi sem mun kosta um 1,5 milljarð króna. Auk þess var tekin ákvörðun um það sl. haust að spýta í lófanna hvað varðar endurbætur á götum og fráveitulögnum í eldri hverfum og fyrir liggur að fara í nauðsynlegar framkvæmdir við fráveitu á Eyrarbakka og Stokkseyri. Nú þegar hefur verið kostað til um 1,5-2 milljörðum króna á núvirði á undanförnum árum í gerð stofnræsa til fækkunar á útrásum í Ölfusá í eina. Að framangreindu má sjá, að það er mikið hagsmunamál fyrir Svf. Árborg að vsk. af fráveituframkvæmdum verði felldur niður og berjumst við bæjarfulltrúar hart fyrir því að Alþingi muni setja niðurfellinguna á dagskrá fjárlaga í haust.

Það sem stingur í stúf hvað varðar heildarupphæð fasteignagjalda í Árborg í samanburði við önnur sveitarfélög eru há sorphirðu- og sorpurðunargjöld. Von er til þess að sorpgjöldin muni lækka töluvert á næstu misserum. Í burðarliðnum er nýr samningur um förgun sorps, sem felst í því að flytja sorpið úr landi sem hráefni il orkuendurvinnslu erlendis í stað þess að urða það hér á landi sem mun lækka þann kostnað um 40%. Á vormánuðum mun síðan fara fram útboð á sorphirðu sveitarfélagsins sem mun vonandi lækka þann gjaldalið umtalsvert.

Sem svar við því, hvort unnt sé að milda hækkanir á fasteignagjöldum með einhverjum hætti, þá vonast ég frekar til þess að hið gagnstæða gerist, þ.e. að fasteignagjöldin muni lækka er fram líða stundir og verða í framtíðinni með þeim lægstu á landinu í stað þeirra hæstu eins og verið hefur undanfarinn áratug.

Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi M-lista Miðflokksins og formaður Eigna- og veitunefndar í Svf. Árborg.

Nýjar fréttir