12.3 C
Selfoss

Um fasteignagjöld í sveitarfélaginu Árborg

Vinsælast

Í janúar ár hvert kemur fyrsta rukkun fyrir fasteignagjöld ársins. Mér var mjög brugðið við að sjá þá hækkun sem var á þessum gjöldum frá síðasta ári, svo ég ákvað að skoða þennan gjaldalið aftur í tímann. Þessi hækkun nemur um 10% frá síðasta ári og 35% frá árinu 2017. Þessi hækkun er langt umfram verðlagsþróun eins og hún er sett fram opinberlega og þetta er langt umfram launaþróun. Til að glöggva mig aðeins betur á þessum hækkunum reiknaði ég hlufall fasteignagjalda á móti árs ráðstöfunartekjum og fékk út að árið 2017 var þetta hlutfall 5,6% en fyrir árið 2020 er hlutfallið komið í 7,0%. Það er því augljóst að þessi hækkun fasteignagjada rýrir talsvert ráðstöfunartekjur.

Fasteignaskattur er lagður á samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga og má vera allt að 0,5% af fasteignamati íbúðarhúsa. Þetta hlutfall fyrir t.d. atvinnuhúsnæði er hærra eða allt að 1,32%.  Jafnframt er í þessum lögum heimild til að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Þar er sveitarstjórn einnig lögð sú skylda á herðar að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis. Tekið skal fram að slíkar reglur eru í gildi fyrir Sveitarfélagið Árborg samkvæmt upplýsingum á heimasíðu sveitarfélagsins.

Fasteignagjöld eru hlufall af fasteignamati. Fasteignamat eigna á þessu sveitarfélagi hefur hækkað vegna vaxandi eftirspurnar eftir húsnæði. Það hefur fjölgað í sveitarfélaginu og því ber að fagna. Þetta verðmat á fasteignum getur verið vísbending um bóluhagkerfi á fasteignamarkaðnum. Við hjónin keyptum okkar hús 2007, eða skömmu áður en fasteignamarkaðurinn fraus. Við höfum reynt að halda því við en ekki lagt í mikinn kostnað við það. Samt sem áður hefur fasteignamat þess meira en tvöfaldast frá því við keyptum það. Flestar húseignir í sveitarfélaginu hafa sömu leiðis hækkað með sambærilegum hætti. Við getum aðeins nýtt hækkað verð fyrir húseignina með því að flytja í aðra landshluta eða jafnvel erlendis, sem stendur ekki til.

Ég vil gjarnan fá svör við því hvort unnt sé að milda hækkanir á fasteignagjöldum með einhverjum hætti?

Að lokum skal bent á að allmargar starfsstéttir eru með lausa kjarasamninga m.a. sú sem ég tilheyri. Hækkanir á opinberum gjöldum hljóta óhjákvæmilega skapa þrýsting á launahækkanir til að mæta þeim.

 

Valgeir Bjarnason

 

Nýjar fréttir