-0.6 C
Selfoss

Hljómlistarfélag Hveragerðis veitti styrki á bóndadaginn

Vinsælast

Árleg styrkjahátíð Hljómlistarfélags Hveragerðis var haldin sl. bóndandag. Þetta var í 12. sinn sem hátíðin var haldin. Hefð er fyrir því að hátíðin hefjist stundvíslega kl. 17:23. Það kom fram í kynningu Sævars Helgasonar að það sé mat elstu manna að þá hafi verið fyrst sungin nóta í Ölfusi á Þorra árið 1723. Leiddar voru að því líkur að þá hafi eldri maður vestur í sveitinni rekið sig í og rekið upp ramakvein. Það líta formenn Hljómlistarfélags Hveragerðis á að hafi verið söngur. Því heiðra þeir ártalið og tónlistina með því að halda styrkjahátíðina kl. 17:23 á bóndadegi.

Fjórir fengu styrk í ár

Það voru fjórir ungir og efnilegir tónlistarmenn sem fengu styrki í ár. Samtals voru það 500 þúsund sem afhent voru til þeirra. Sædís Lind Másdóttir var meðal þeirra sem hlaut styrk frá  Hljómistarfélaginu þetta kvöld. Hún er að mennta sig sem söngkona og búin með framhaldspróf í klassískum söng. Hún syngur þó allt sem henni dettur til hugar. Aðspurð að því hvaða þýðingu svona styrkur hefði segir Sædís: „Það er rosalega flott að geta fengið smá peningaupphæð. Í þessum bransa er oft erfitt að fá það. Það er þó aðallega stuðningurinn sem maður finnur við að fá svona. Það sé verið að styðja við mann og bæjarfélagið sé að styðja við mann og taki eftir því sem maður er að gera.“

Allir eru formenn í félaginu

Félagið er skipað sex einstaklingum sem allir hafa titilinn formenn. Aðspurðir segjast félagarnir hafa brallað margt sundur og saman í gegnum tíðina tengt tónlist í áratugi. Markmið þeirra er að safna fé og úthluta styrkjum á bóndadag á hverju ári. Yfirleitt er það yngra tónlistarfólk sem notið hefur styrkjanna en þá höfum við einnig styrkt myndlistarmenn. Þá höfum við stundum látið fé af hendi rakna til góðgerðarmála. Félagið gerir þó fleira og sér um ýmsa viðburði í Hveragerði eins og Sölvakvöldið. Þá segja strákarnir að þeim finnist gaman að hittast og gera eitthvað saman. Á hverju ári sé tekin ákvörðun um hvað þeir vilji framkvæma og gera fyrir sig og samfélagið. Eitt árið fengu þeir t.d. KK til að koma og spila fyrir leikskólana einn morguninn, þar sem hann spilaði fyrir starfsmenn og nemendur, kom svo við á elliheimilinu og spilaði þar og hélt svo frábæra tónleika um kvöldið þar sem við buðum hvergerðingum ókeypis inn á og fylltum húsið. Það er ekk ofsögum sagt að félagarnir í Hljómlistarfélagið Hveragerðis láti gott af sér leiða til samfélagsins sér og öðrum til skemmtunar og framdráttar.

 

Random Image

Nýjar fréttir