8.9 C
Selfoss

Málefni hreinsistöðvar mjakast áfram í Árborg

Vinsælast

Sveitarfélagið Árborg hefur nú lagt fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum vegna hreinsistöðvar fráveitu á Selfossi. Þá geta allir sem áhuga hafa á málinu kynnt sér skýrsluna en hana má finna á vef Skipulagsstofnunar eða á bæjarskrifstofum Árborgar, Bókasafni Árborgar og í Þjóðarbókhlöðunni. Athugasemdir við skýrsluna skulu berast eigi síðar en 4. mars 2020 til Skipulagsstofnunar.

Kynningarfundur fyrirhugaður vegna málsins

Þann 29. janúar verður kynningarfundur í Tryggvaskála þar sem farið verður ítarlega yfir málefni skýrslunnar. Sveitarfélagið Árborg áformar að reisa hreinsistöð fyrir fráveitu við Sandvik, norðan við flugvöllinn á Selfossi. Markmið framkvæmdarinnar er að koma á hreinsun skólps frá Selfossi sem uppfyllir skilyrði laga og reglugerða, en í dag er skólp að mestu losað óhreinsað í Ölfusá. Framkvæmdin er matsskyld skv. lögum.

Þrír valkostir metnir með tilliti til umhverfisáhrifa

Lagt var mat á umhverfisáhrif þriggja valkosta með útrás í Ölfusá, þ.e. eins þreps hreinsun, tveggja þrepa hreinsun og ítarlegri en tveggja þrepa hreinsun, og eins valkostar sem felst í grófhreinsun með útrás í sjó utan við Eyrarbakkahöfn. Metin voru áhrif ofangreindra valkosta á; vatnsgæði viðtaka, lífríki viðtaka, lyktarónæði, sjónræn áhrif, útivist, gróðurfar, fuglalíf, fornleifar, landnotkun og auðlindanýtingu. Umhverfisáhrif voru metin með hliðsjón af samþykktri matsáætlun og þeim rannsóknum sem unnar hafa verið í tengslum við matið.

Aðalvalkostur felst í byggingu tveggja þrepa hreinsistöðvar við Geitanesflúðir

Aðalvalkostur sveitarfélagsins Árborg felst í byggingu tveggja þrepa hreinsistöðvar við Geitanesflúðir með útrás í Ölfusá. Valkosturinn var valinn með hliðsjón af niðurstöðu umhverfismats og samanburði á stofn- og rekstrarkostnaði allra valkosta.

Nýjar fréttir