7.8 C
Selfoss

Umhverfisstofnun leggur fram tillögu um friðlýsingu Geysissvæðisins

Vinsælast

Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun kemur fram að stofnunin hafi lagt fram tillögu að friðlýsingu Geysissvæðisins í Bláskógabyggð sem náttúruvættis. Tillagan er unnin af samstarfshópi sem í eiga sæti fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Bláskógabyggð og Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Frestur til að senda inn athugasemdir og ábendingar vegna tillögunnnar er til og með 23. apríl 2020.

Tillagan hljóðar svo:

Geysir í Bláskógabyggð

Tillaga að friðlýsingu Geysis í Bláskógabyggð

Umhverfisstofnun leggur hér með fram tillögu að friðlýsingu Geysissvæðisins og nágrennis í Bláskógabyggð innan marka jarðarinnar Laugar sem náttúruvættis í samræmi við ákvæði 39. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Tillagan er unnin af samstarfshópi sem í eiga sæti fulltrúar Umhverfisstofnunar, Bláskógabyggðar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Geysissvæðið er eitt þekktasta goshverasvæði jarðar enda eitt fárra sem þekkt var í árhundruð. Fjölmargir hverir og laugar eru á svæðinu og eru goshverirnir Geysir og Strokkur þeirra þekktastir. Á svæðinu er einnig hverahrúður á stóru samfelldu svæði. Örnefnið Geysir hefur gefið goshverum nafn á erlendum tungumálum auk þess sem hverahrúður er oft kallað „geyserite“. Upp af hverasvæðinu rís Laugarfell (187 m) sem er innskot úr líparíti þar sem ýmsar jarðhitamyndanir er að finna. Á því svæði sem tillagan nær til er að finna plöntutegundina laugadeplu sem skráð er á válista sem tegund í nokkurri hættu. Þar er einnig að finna tvær íslenskar ábyrgðartegundir, brönugrös og friggjargras. Þá er einnig að finna menningarminjar innan svæðisins sem vitna um mannvistir fyrr á tímum, m.a. konungssteina sem eru minjar um heimsóknir þriggja konunga danska ríkisins til Íslands.

Markmiðið með friðlýsingu náttúruvættisins er að stuðla að varðveislu sérstæðra jarðmyndana, hvera, örvera og sérstæðs gróðurs á hverasvæðinu sem er einstæður á lands- og heimsmælikvarða. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að tryggja að svæðið nýtist til fræðslu og vísindarannsókna en fræðslu og vísindagildi svæðisins er hátt á lands- og alþjóðavísu. Með friðlýsingunni er stuðlað að því að svæðið nýtist til útivistar og ferðaþjónustu til framtíðar og sé í stakk búið til að taka á móti þeim fjölda gesta sem sækja svæðið heim á ári hverju. Þá er einnig stuðlað að því að náttúrufar sem raskað hefur verið verði endurheimt og það fært til fyrra horfs eins og unnt er.

Í tillögunni eru skilgreind tvö svæði sem um gilda sérstakar reglur og eru skilgreind á korti sem er meðfylgjandi tillögunni, annars vegar skógræktarsvæði sem er rannsókna og tilraunasvæði Skógræktarinnar og hins vegar tjaldsvæði.

Tillaga að friðlýsingu Geysissvæðisins innan jarðarinnar Laugar í Bláskógabyggð er hluti af átaki í friðlýsingum sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

 

Tillöguna og nánari upplýsingar má finna hér

Nýjar fréttir