7.3 C
Selfoss
Home Fréttir Ógnanir miðhálendisþjóðgarðs

Ógnanir miðhálendisþjóðgarðs

Ógnanir miðhálendisþjóðgarðs
Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar

Í síðustu viku skrifaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson grein hér í Dagskrána þar sem hann fer lofsamlegum orðum um fyrirhugaðan miðhálendisþjóðgarð. Hann telur og sér aðeins kosti við miðhálendisþjóðgarð en þegar betur að er gáð er þar margt sem þarfnast betri skoðunar og ígrundunar. Mig langar í þessari stuttu grein að gera grein fyrir helstu áhyggjum sveitarstjórnar Bláskógabyggðar sem hafa látið sig málið varða frá fyrsta degi.

Samtalið vantaði

Það hlýtur að þurfa að eiga sér stað mikið og gott samtal um stofnum þjóðgarðs sem nær yfir 40%  Íslands ef afkvæmið á að getað dafnað og þroskast í góðri sátt við þjóðina frá fysta degi. Ég hef lagt þann skilning í orðið þjóðgarð að þá sé þjóðin sátt og stolt með garðinn sem hún stendur öll að baki. Það sem hefur vantað í ferlið frá fyrsta degi er að þjóðin var aldrei spurð hvort hún vildi miðhálendi Íslands undir þjóðgarð, heldur var tekin ákvörðun af fáum einsaklingum að þjóðgarður skyldi stofnaður. Það er svo eftir að ákvörðun er tekin sem þjóðinni er gefin kostur á að koma með hugmyndir og athugasemdir við útfærslur á þjóðgarðinum. Þarna vantar mikið uppá að eðlileg vinnubrögð séu viðhöfð áður en 40% af landinu eru tekin undir þjóðgarð, það segir sig sjálft að um stórt mál er að ræða.

Veiking sveitarstjórnarstigsins

Eitt af meginstoðum sveitarstjórnarstigsins er skipulagsvaldið. Með skipulagsvaldinu er mörkuð stefna um uppbyggingu, byggðaþróun, uppbyggingu innviða auk margra fleiri þátta. Með skerðingu skipulagsvaldsins er verið að veikja sveitarstjórnarstigið en á tillidögum er talað um að það þurfi að styrkja og efla. Það sem mun gerast ef þjóðgarður verður stofnaður er að þá mun skipulagsvald sveitarfélaga skerðast, um það þarf ekki að deila, þótt öðru sé haldið fram. Í drögum að fumvarpi um miðhálendisþjóðgarð er lagt til að stofnuð verði svæðisráð sem í sitja fulltrúar sveitarfélaga auk fleiri aðila. Sú staða gæti því komið upp að tekin sé ákvörðun í svæðisráði sem er í andstöðu við hugmyndir og framtíðarsýn sveitarstjórnar á viðkomandi svæði. Viðkomandi sveitarfélag er svo bundið af og ber skylda til að taka stjórnunar- og verndaráætlun inní sitt skipulag. Tökum sem dæmi að ákvörðun verður tekin og sett inní stjórnunar- og verndaráætlun að ekki mætti byggja við og stækka fjallaskála innan marka Bláskógabyggðar. Þessa ákvörðun gæti Bláskógabyggð ekki hnekkt og er skylt að setja inní sitt aðal- og deiliskipulag. Þetta dæmi sýnir svart á hvítu að verið er að skerða og veikja skipulagsvald sveitarfélaga.

Tvískinnungur

Með stofnun þjóðgarðs er sagt að verið sé að hugsa um náttúruvernd, vernda víðerni auk margra annarra þátta er tengist náttúrunni og loftlagsmálum. Það eru allt göfug markmið sem ég held að við séum nú öll að hugsa um alla daga og passað hefur verið vel uppá á hálendinu í gegnum aldirnar með umsjón heimamanna. Það er því svolítið mótsagnarkennt þegar fyrirhugaður þjóðgarður er dásamaður að með tilkomu þjóðgarðsins muni gestum á svæðinu fjölga umtalsvert því slíkt sé aðdráttarafl þjóðgarða. Þessar röksemdir ganga engan veginn upp, það fer ekki saman að fjölga gestum og gangandi á viðkvæmum svæðum og vernda það um leið. Það má eiginlega segja eins einn góður sveitarstjórnarmaður sagði að þarna fari ekki saman hljóð og mynd.

Þjóðgarður í umhverfismat

Nú má varla fara í nokkra framkvæmd nema fyrst þurfi að fari fram umhverfismat. Er þá nokkuð til of mikils mælst að fyrirhugaður miðhálendisþjóðgarður fari í umhverfismat áður en ákvörðun er tekin. Í umhverfismatinu yrði farið yfir áhrif þess á samfélög, samgöngur, álag á náttúruna, menningarminja auk fjölmargra fleira þátta. Ég geri ráð fyrir að þeir aðilar sem hafa verið að leggja til að stórar sem smáar framkvæmdir eigi að fara í umhverfismat leggi það til að miðhálendisþjóðgarðurinn fari í umhverfismat, þessir aðilar hljóta að vera samkvæmir sjálfum sér.

Óvissa með þann rekstur sem er til staðar

Á hálendinu er rekin margvísleg þjónusta sem byggð hefur verið upp eftir stefnumörkun viðkomandi sveitarfélags. Þessar eignir eru ýmist í eigu einstaklinga, fyrirtækja eða sveitarfélaga. Það er alger óvissa með rekstur og eignarhald á þessum fasteignum ef þjóðgarður verður stofnaður. Því samhliða stofnun þjóðgarðs er verið að vinna frumvarp um Þjóðgarðastofnun og í drögum að þvi frumvarpi eru miklar eignarnámsheimildir sem ráðherra getur beytt. Einnig vitum við að þeir sem eru með rekstur eru ekki vísir með að geta haldið áfram, því rekstur þarf að bjóða út og þeir sem hafa staðið í fjárfestingu geta verið í algerri óvissu.

Vald ráðherra

Að setja lög um hálendisþjóðgarð er eitt en svo hefur ráðherra gríðarlegt vald með setningu reglugerða. Ráðherra þarf ekki að spyrja alþingi eða leita álits almennings við setningu reglugerða, þær þurfa að vísu að hafa stoð í lögum. Í drögum að lögum um miðhálendisþjóðgarð er í þrettándu grein nefnt að ráðherra eigi m.a. að setja reglugerð um verndun og verndarstig í þjóðgarðinum. Þetta er algerlega óútfylltur tékki sem almenningur veit ekkert hvernig verður, það fer allt eftir ráðherra hverju sinni hvernig þessum málum verður háttað. Þarna getur ráðherra sett ákveðin svæði í algera friðun, bæði fyrir mönnum og allskonar nýtingu svo sem beit, veiði og öðrum hlunnindum. Þarna er verið að setja mikil völd til ráðherra sem heimamenn hafa enga aðkomu að, svona völd er engan veginn hægt að sætta sig við.

Einn liður í löngu tafli

Allt þetta ferli sem nú er í gangi með stofnun þjóðgarðs er margþætt og hefur átt langan aðdraganda. Fyrir ekki svo löngu síðan voru sett lög um þjóðlendur. Þá þurftu sveitarfélög og einstaklingar að sanna eignarhald sitt á afréttum og heimalöndum, afsöl og aðrar heimildir mörg hundruð ára gömul dugðu í sumum tilvikum ekki til að sanna eignarhald. Ríkinu voru dæmd þessi svæði til eignar, eftir sátu sveitarfélög og einstaklingar svekt og sár. Sveitarfélögin og einstaklingar héldu að vísu eftir nýtingarréttinum og sveitarfélögin skipulagsvaldinu. Það liðu að vísu ekki mörg ár þá er landskipulagsstefna samþykkt á Alþingi, þarna er sett stefna ríkisins í skipulagsmálum, þetta átti í fyrstu að vera mjög saklaust og ekki hafa nein áhrif á skipulagsvald sveitarfélaga. En smám saman hefur verið bætt við landskipulagsstefnuna og nú er Skipulagsstofnun farin að vinna eftir þessari stefnu og lítur orðið meir og meir til hennar en aðalskipulaga sveitarfélaga. Það sannaðist svo um munar þegar Skipulagsstofnun felldi sinn dóm um að endurbætur á Kjalvegi þyrftu að fara í umhverfismat, í sínum úrskurði vitnaði hún meira í landskipulagsstefnuna en aðalskipulag Bláskógabyggðar. Þessu þarf að snúa við áður en það verður um seinan. Svo var það fyrir nokkrum árum að ríkið náði yfirráðum yfir haf- og strandsvæðum. Nú á að ná hálendinu með stofnun þjóðgarðs. Þá er bara láglendið eftir og það segir mér svo hugur að eftir ekki svo mörg ár þurfi landeigendur að sanna eignarhald sinn á sínum bújörðum, þá er ekki víst að afsöl og kaupsamningar sem gerðir voru fyrr á öldum haldi.

Sýnum ábyrð og stígum fram

Umræðan um stofnun þjóðgarðs á hálendinu hefur verið alltof lítil og einhliða. Ég skora á einstaklinga og sveitarfélög að láta sig málið varða, í þessu máli má ekki sitja hjá og bíða og sjá til, það er óábyrgt. Eins skora ég á þingmenn í suðurkjördæmi að heimsækja og taka samtalið við heimamenn, þeir hljóta að ætla að kynna sér hvað heimamenn hafa til málanna að leggja áður en þeir taka ákvörðun í þingsölum. Þeir eru okkar þingmenn og ég hélt að þeir hefðu þær skyldur að ræða við íbúa áður en ákvörðun er tekin og þá sérstaklega í svona stóru máli.

Hálendið hefur verið í umsjón heimamanna frá ómunatíð og er best varðveitt hjá þeim sem þar lifa og starfa og leggja sig fram um að gæta þess og varðveita til komandi kynslóða.

Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar