8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Ylrækt afrekskylfinga hafin á Selfossi

Ylrækt afrekskylfinga hafin á Selfossi

0
Ylrækt afrekskylfinga hafin á Selfossi
Páll Sveinsson, formaður Golfklúbbs Selfoss.

Ný og glæsileg aðstaða Golfklúbbs Selfoss var opnuð á laugardaginn 11. janúar 2020. Húsnæðið hýsir glæsilega inniaðstöðu fyrir iðkendur, áhaldahús og geymslur fyrir golfsett. Fjölmargir lögðu leið sína að skoða nýja húsnæðið og kanna möguleikana. Einn gesta lét hafa eftir sér að líklega yrði þetta annað heimili þeirra hjóna hér eftir. Við tókum Pál Sveinson, formann Golfklúbbs Selfoss tali og spurðum út í framkvæmdina og hverju hún mun breyta fyrir golfsenuna á Selfossi.

Brýnni þörf fyrir bættri aðstöðu loks mætt

„Þegar Golfklúbbi Selfoss var tryggð aðstaða hér fyrir nokkrum árum síðan þá vorum við í fyrsta lagi hæst ánægð með að hér yrði klúbburinn áfram. Í kjölfarið förum við að meta og greina hvernig aðstaðan sjálf er. Við erum með gamalt klúbbhús sem sinnir ákveðnum félagsþörfum golfklúbbsins en okkur hefur vantað æfingaaðstöðu og okkur hefur vantað aðstöðu fyrir vélar, áhaldageymslu og fleira. Vélarnar höfum við verið með í 14 fermetra kofa hér á svæðinu síðan 1990 og þurft að leigja æfingaaðstöðu, bæði niður á Eyrarbakka og í Gagnheiðinni síðustu ár en sá leigukostnaður er svolítið hár fyrir lítinn golfklúbb. Við fórum þá í það að fjármagna og keyra af stað framkvæmdir á síðasta ári að byggja þetta aðstöðu- og æfingahúsnæði,“ segir Páll. Aðspurður um aðstöðuna er Páll fljótur að svara og segir: „Eins og þú sérð hérna þá eru þetta fullkomnar æfingaaðstæður bara eins og best verður á kosið á heimsvísu. Æfingar að slá í net, frábær púttaðstaða, fullkominn golfhermir og svo er geymsluaðstaðan fyrir vélarnar alveg byltingarkennd og gefur betra færi á bættu viðhaldi og minni kostnaði.“

Golfið gert að heilsárssporti

Þegar talið berst að barna- og unglingastarfi Golfklúbbs Selfoss segir Páll: „Með þessu erum við að gera golfið að heilsársíþrótt. Golfið hefur alltaf verið dálítið háð veðri og aðstæðum. Ef við berum þetta saman við fótboltann þá fóru menn að reisa knatthús fyrir um 15 – 20 árum síðan koma fótboltanum inn svo að fótboltinn yrði heilsársíþrótt. Nú erum við komin á þann stað að við getum boðið upp á golfið sem íþrótt sem er bara í samkeppni og valmöguleiki í samanburði við aðrar íþróttagreinar. Þessi aðstaða gerir það að verkum að við vitum það að okkur mun vaxa fiskur um hrygg og gera starfið ennþá öflugra. Það þýðir líka að við getum aukið við afreksstarfið. Nú þegar erum við komin með kylfinga í landslið og háskólagolf og fleira. Þetta mun bara aukast hjá okkur. Að lokum segir Páll: „Nú styttist bara í því að Golfklúbbur Selfoss eignist íslandsmeistara fljótlega sem er alinn upp og vökvaður hérna. Hér verður ylrækt afrekskylfinga.“