11.1 C
Selfoss

Sjálfboðaliðar á Þórsmörk leggja sitt til loftslagsbaráttunnar

Vinsælast

Sjálfboðaliðar sem starfa á Þórsmörk á komandi sumri munu jafnframt gróðursetja tíu þúsund trjáplöntur í þjóðskógunum og taka þannig þátt í átaki til kolefnisbindingar með skógrækt á Íslandi. Umsóknarfrestur fyrir fólk sem vill gerast sjálfboðaliðar á Þórsmörk er til 31. janúar.

Thórsmörk Trail Volunteers auglýsa þessa dagana eftir áhugasömu fólki hvaðanæva úr heiminum sem langar að taka þátt í verndar- og uppbyggingarstarfi Skógræktarinnar á Þórsmerkursvæðinu í sumar. Fram kemur á vef verkefnisins, trailteam.is, að nú hafi verið sett nýtt metnaðarfullt markmið fyrir komandi sumar.

Auk þess að vinna að hefðbundnum verkefnum við landbætur ásamt uppbyggingu og viðhaldi stígamannvirkja er stefnt að því að sjálfboðaliðar gróðursetji 10.000 tré í þjóðskógum í Fljótshlíð og Þjórsárdal. Gróðursetningardagar verða skipulagðir allan starfstíma sjálfboðaliðanna í sumar og hefst gróðursetning strax og aðstæður og veður leyfir.

Gróðursettar verða ýmsar trjátegundir, meðal annars íslenskt birki og sjá starfsmenn Skógræktarinnar um að skipuleggja gróðursetninguna og stýra verkinu.

Eins og segir í frétt á trailteam.is eru nú að aukast aðgerðir á Íslandi í tengslum við aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, meðal annars skógrækt og landgræðsla. Forsvarsmenn sjálfboðaliðastarfsins á Þórsmörk eru spenntir að fá að taka þátt í þessu átaki og leggja þar með sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Nánari upplýsingar um sjálfboðaliðastarfið á Þórsmörk, þau tímabil sem í boði eru á komandi sumri, umsóknareyðublöð og þess háttar er að finna á vef Thórsmörk Trail Volunteers.

Tekið er við umsóknum fram til 31. janúar.

Nýjar fréttir