2.8 C
Selfoss

  Í skóinn var þetta helst

Vinsælast

Halla Dröfn Jónsdóttir.

Í huga flestra er aðventan yndislegur tími. Þessi tími er þó kvíðvænlegur fyrir marga og ekki sjálfsagt að allir njóti aðventunnar og jólanna. Umræða um fátækt er gjarnan áberandi í desember og ánægjulegt að sjá að margir vilja láta gott af sér leiða.

Ást er ekki mæld í dýrum og stórum gjöfum eins og auglýsendur reyna að innprenta okkur. Dýrmætustu gjafirnar eru ekki þær sem pakkarnir hafa að geyma, heldur það sem að baki þeim býr, ást og umhyggja, vinátta og tryggð og návist þeirra sem okkur þykir vænt um. Þessu geta eflaust allir verið sammála og mjög líklega hafa flestir rætt þetta við börnin sín á einn eða annan hátt. En það er ekki nóg. Við fullorðna fólkið þurfum líka að fara eftir því sem við boðum og foreldrar bera ábyrgð á að kenna börnum sínum að meta þær gjafir sem þau fá.

Eðlilegur samanburður á milli barna

Börn bera sig gjarnan saman og eru fljót að átta sig á að sumir eiga meira og aðrir minna. Það er óhjákvæmilegt. Við komum úr ólíkum aðstæðum og börn eiga mismunandi foreldra. Á Íslandi gefa hinsvegar sömu jólasveinarnir öllum börnum. Hefðin um skógjafir á rætur að rekja aftur til ársins 1930 og festist í sessi hér á landi uppúr 1960. Fljótlega kom í ljós að jólasveinarnir gerðu mannamun og kvartanir fóru að berast í lesendabréf dagblaða. Með tímanum settu sveinarnir sér óskráðar reglur um þessa skemmtilegu hefð, líklega til þess að reyna að draga úr öfgum og hættu á vanlíðan hjá þeim börnum sem fengu lítið eða ekkert í skóinn sinn. Fyrri reglan segir að skógjafir eigi ekki að berast fyrr en 12. desember þegar fyrsti jólasveinninn kemur til byggða. Þetta eru flestir með á hreinu. Seinni reglunni hefur verið erfiðara að fylgja en hún er sú að aldrei skal láta nema lítilræði í skóinn. Þar sem íslensk börn fá í skóinn þrettán daga í röð, en ekki bara í einn dag eins og vaninn er í öðrum löndum, getur hefðin ýtt undir félagslega mismunun þar sem litlir skór svigna undan stórum gjöfum. Gjafir jólasveinsins ættu að vera smágjafir en stærri gjafir gefa foreldrar og aðrir í sínu eigin nafni. Dýr leikföng og tæki eiga ekki heima í skóm barnanna okkar.

Jólasveinarnir minnka vistsporið

Nýjustu fréttir herma að jólasveinarnir séu að reyna að minnka vistsporið sitt og því mæðir eflaust mikið á þeim eins og okkur hinum því betur má ef duga skal. Ég hef til dæmis heyrt af sniðugum jólasveinum sem búa til eina og eina gjöf sjálfir. Einn setti rúsínur og hnetur í bréfpoka með skemmtilegum skilaboðum, annar setti í krukku hráefni í smákökur með leiðbeiningum og enn annar hráefni í heitt súkkulaði. Svo hafa þeir gefið piparkökuform, tannbursta og tannkrem, mandarínur, sælgætismola, sokka, varasalva, hárteyjur og spennur, eitt og eitt í föndurkassann, vettlinga, tyggjó, litla morgunkornskassa og skraut til að hengja á jólatré. Það er vandlifað í þessum heimi en ég er alveg viss um að jólasveinarnir munu standa sig með stakri prýði í ár.

Að lokum langar mig að minna á jólatréð frá Sjóðnum Góða í Bókasafni Árborgar. Þar er hægt að gefa jólapakka fram til 18.des en pökkunum verður úthlutað til barna í Árnessýslu. Í Hveragerði stendur tré frá Sjóðnum Góða í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk.

Halla Dröfn Jónsdóttir, félagsráðgjafi.

 

Nýjar fréttir