9.5 C
Selfoss

Tíuþúsundasti íbúi Árborgar heimsóttur

Vinsælast

Tíu þúsundasti íbúi Árborgar lét ekki tilstandið á sig fá þegar bæjarstjórinn Gísli Halldór Halldórsson heimsótti fjölskylduna og þennan merkispilt sem markar þessi tímamót í sögu sveitarfélagsins. Sá litli rétt rifaði augun og virti fyrir sér heiminn uns hann lokaði aftur og hélt áfram að sofa værum blundi. Drengurinn fæddist þann 19.11.19. Hann er sonur Þuríðar Elvu Eggertsdóttur og Michael Popović sem búsett eru á Selfossi.

Fjölskyldunni færðar 10 rósir með óskum um bjarta framtíð og 10.000 króna seðill frá Árborg. Þeim voru einnig færðar bleyjur og stoðvörur frá Libero og TM færði þeim 50.000 kr. gjafabréf í versluninni Fífu.

„Samfélagið sem bíður unga piltsins er þekkt fyrir kraftmikið íþróttastarf og félagslíf og þar er rík áhersla á menningu og frístundir. Sveitarfélagið Árborg hefur náð góðum árangri í skólamálum og vinnur nú í fremstu röð að mikilvægum verkefnum, m.a. í snemmtækri íhlutun, í samstarfi við félags- og barnamálaráðherra, þannig að öll börn fái þjónustu, umönnun og samfélagslegt uppeldi við hæfi.

Svansvottaðar bleyjurnar  sem drengnum voru færðar minna okkur á þær umhverfisáherslur sem móta nú hraðbyri þann heim sem drengurinn fæðist í. Svansvottunin tengir einnig við þann áfanga sem náðist í haust þegar ákveðið var að nýr miðbær sem nú rís á Selfossi skuli stefna að Svansvottun.

Það er trú okkar að íbúar Árborgar og sveitarfélagið þeirra muni leggjast á sveif með fjölskyldu drengsins og búa honum – og öðrum börnum – bjarta og gifturíka framtíð og tækifæri til að þroska sína mannkosti á besta veg,“ sagði Gísli Halldór.

 

 

Nýjar fréttir