-1.6 C
Selfoss

Hvað er það sem skiptir máli í desember?

Vinsælast

Desember getur verið krefjandi mánuður fyrir jafnt börn sem fullorðna og í mörg horn að líta. Setning sem ég nota gjarnan á börnin mín þegar spennustig er of hátt á sjaldan betur við en einmitt í þessum mánuði: Við skulum ekki gera leiðinlegt það sem á að vera skemmtilegt! Við skulum ekki vera í stressi og streitu allan desember mánuð til þess að eiga eitt “fullkomið” kvöld. Eru það virkilega góð skipti?

Munum líka sjálf hvernig er að vera barn á þessum tíma og hjálpum börnunum okkar að sjá jólin sem fjölskyldu frí með mörgum dögum með mismunandi skemmtilegum atburðum og skemmtilegum undirbúningi. Tölum við börnin okkar um að það sé margt að undirbúa og hugsa um og að allir þurfi að hjálpast að við að láta ganga vel heima.

Fyrir börn sem eiga sérstaklega erfitt í desember getur reynst mjög vel að hengja upp dagatal í hverbergi barnsins með helstu atburðum merktum inn, hvenær jólasveinar koma, hvenær jólaball er, hvenær við opnum pakka osfrv. Þetta hefur í það minnsta reynst vel á mínu heimili. Annað sem ég myndi vilja ráðleggja foreldrum þessara barna sem eiga erfitt í desember er að halda grunn-rútínu barnsins þrátt fyrir ýmiskonar uppbrot, þau eiga alveg nóg með það. Reynum að halda sama svefntíma og venjulega og íhugum vel hvort barninu sé einhver greiði gerður með að vaka of lengi á aðfangadag og gamlársdag sem dæmi. Ef við teljum okkur vita að barnið mun vakna snemma á jóladag er þá ekki alveg eins gott að eiga hann góðan í stað þess að vera þreyttur og pirraður? – Því jólin eru ekki bara einn dagur eins og ég kom inn á áðan.

Þannig ef ég dreg þetta saman eru þetta 4 jólaráð til barnafólks:

  1. Gott viðhorf: Við skulum ekki gera leiðinlegt það sem á að vera skemmtilegt
  2. Jólin eru margir dagar – Allur desember á að vera skemmtilegur. Með því að taka fókusinn af einum degi hjálpum við börnunum að njóta alls mánaðarins.
  3. Rútína! Aftur: jólin eru margir dagar, hugsum um heildarmyndina, svefn og góða næringu.
  4. Dagatal – Hjálpar með yfirsýn og skipulag/skilning.

 

 

Nýjar fréttir