9.5 C
Selfoss

Undirritun samkomulags um nýtt nám í jarðvinnu

Vinsælast

Samtök iðnaðarins, Félag vinnuvélaeigenda, Tækniskólinn og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa tekið höndum saman um að koma á laggirnar nýju námi í jarðvinnu í fyrsta sinn hér á landi. Samkomulag þess efnis var undirritað í gær í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Markmiðið með samkomulaginu er að koma á formlegu jarðvinnunámi á framhaldsskólastigi sem undirbýr nemendur undir margvísleg störf við jarðvinnu og getur jafnframt verið grunnur frekara náms. Framfarasjóður Samtaka iðnaðarins hefur styrkt verkefnið um 5 milljónir króna.

Jarðvinnuverktakar fá eins og stendur ekki nægilegt hæft fólk til starfa og skortur á nýliðun í faginu er mikið áhyggjuefni. Tilgangur námsins er því að breyta því, stuðla að nýliðun og auka færni og þekkingu þeirra sem vinna eða munu vinna við jarðvinnu, meðal annars með tilliti til öryggis, gæða, skilvirkni og tækninýjunga. Um leið verður faginu gert hærra undir höfði til samræmis við það sem þekkist erlendis. Við þetta tækifæri sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra: „Það eru gömul sannindi og ný, að á bjargi byggir hygginn maður hús. Jarðvinna leggur í raun grunninn að öllum mannvirkjum – húsum og híbýlum, vegum og brúm – og þá vinnu þarf augljóslega að vanda. Það er löngu tímabært að bjóða nám af þessu tagi, svara kalli atvinnulífsins og þeim sem hafa áhuga á að læra fagið. Það eru ánægjuleg tímamót.“ Þá sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI: „Í öllum framkvæmdum bygginga- og mannvirkjagerðar er jarðvinna nauðsynlegur verkþáttur. Það er því fagnaðarefni að innan skamms verði boðið upp á nám í þessu mikilvæga fagi. Mikill tími atvinnurekenda fer í þjálfun nýliða en með kröfum um styttri framkvæmdatíma, minna rask, þéttingu byggðar og tækniþróun eykst sífellt þörfin fyrir vel menntað starfsfólk á þessu sviði.“

Nýjar fréttir