11.7 C
Selfoss

Gaggandi hænur og skapstyggir hanar í Listasafni Árnesinga

Vinsælast

Ný sýning opnaði í Listasafni Árnesinga í Hveragerði á laugardag. Sýningin ber nafnið tilvist og Thoreau. Sýningin er samvinnuverkefni þriggja listakvenna. Það eru myndlistarkonurnar Hildur Hákonardóttir og Eva Bjarnadóttir og svo tónskáldið Elín Gunnlaugsdóttir. Þær vinna með hugmyndafræði H.D. Thoreau sem kynnt er í bókinni Walden: Lífið í skóginum. Bókin hefur verið mörgum innblástur og uppspretta nýrra hugmynda allt frá því hún kom fyrst út 1854. Hildur, Elín og Eva hafa svo unnið verk sem eiga uppsprettu sína í áðurnefndri bók og í sýningarstjórn Ingu Jónsdóttur.

Gjörningurinn sló í gegn

Á opnuninni var samankominn fjöldi fólks og segja má að hafi verið húsfyllir. Á opnuninni flutti Kammerkór Suðurlands gjörning eftir Elínu sem segja má að hafi slegið í gegn. Gjörningurinn var þannig að skyndilega fylltist rýmið af lifandi hænum og tveimur hönum sem að lokum öttu kappi við hvern annan eins og hana er siður. Þegar allt ætlaði um koll að keyra í pútnahúsinu hleypti pútnahirðirinn hænunum út og ró færðist yfir aftur. Í samtali við Elínu segir hún að Thoreu hafi skrifað mikið um hljóð og sá kafli hafi haft áhrif á mjög marga listamenn. Í lok kaflans fjallar hann svo um hanann og þá hugmynd að honum myndi langa að fylla skóginn af hanahljóðum. Elín ákvað að raungera þetta í gjörningnum. „Ég er með smá húmor þarna. Undir verkinu gengur hljóðrás sem ég tók upp á Fagurhólsmýri af íslenskum hænum. Ég vann þau og klippti auk þess sem ég nota upprunalegu rásina. Svo gerði ég kórgjörninginn með Kammerkór Suðurlands.“ Aðspurð að því hvort erfitt hefði verið að manna hænsnahópinn sagði Elín: „Nei alls ekki. Ég hef bæði sungið með kórnum og þekki þau vel og vissi það að þetta var alveg rétti kórinn í verkefnið,“ segir hún hlæjandi. -gpp

Nýjar fréttir