-1.6 C
Selfoss

Ferðaþjónusta neikvæð í garð vindorkuvers í Þjórsárdal

Vinsælast

Þegar Guðrún Líneik Guðjónsdóttir var í þann mund að klára grunnnám sitt í landfræði leitaði Landsvirkjun til Háskóla Íslands um að gera óháða rannsókn sem yrði hluti af mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs vindorkuvers við hálendisbrúnina ofan Búrfells í Þjórsárdal. Guðrúnu fannst viðfangsefnið áhugavert og það varð úr að hún sló til og tók að sér rannsóknina í meistaranámi sínu.

Skiptir máli að fá álit íbúa í nærsamfélaginu

„Já, mér fannst markmið rannsóknarinnar áhugavert, að meta viðhorf ferðaþjónustu og íbúa í nærsamfélaginu til vindorkuversins. Ég tel nefnilega að það skipti miklu máli að fá álit íbúa og hagsmunaaðila á svæðinu í svo veigamiklum framkvæmdum. Það gerir þeim kleift að láta rödd sína heyrast og vera betur meðvitaðir um þau áform sem eru í þeirra nærumhverfi. Þá finnst mér einnig mikilvægt að stórfyrirtæki eins og Landsvirkjun leiti til óháðra aðila til að vinna slíkar rannsóknir því þá eru meiri líkur á að viðmælendur þori að segja sína hlið,“ segir Guðrún.

Aðilar innan ferðaþjónustu neikvæðir

„Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að tæplega helmingur svarenda er jákvæður í garð fyrirhugaðs vindorkuvers en um þriðjungur neikvæður. Þeir ferðaþjónustuaðilar sem rætt var við voru langflestir frekar neikvæðir í garð vindorkuversins og telja þeir staðsetninguna ekki henta nógu vel þar sem hálendisbrúnin er að margra mati eins og inngangur að hálendi Íslands. Leggja þeir áherslu á að þeirra viðskiptavinir fari á þessar slóðir til að upplifa óspillta náttúru og því mikilvægt að viðhalda víðernisásýnd hálendisins,“ segir Guðrún. Langflestir íbúanna voru þó jákvæðir í garð tilraunavindmyllanna tveggja sem reistar voru árið 2012 á svæðinu.

Guðrún bendir á að í rannsókninni hafi einnig komið fram að íbúarnir þekki almennt vel til svæðisins, finnist það hafa náttúrulegt yfirbragð, vera fallegt, hreint, kyrrlátt og aðgengilegt. „Í hugum íbúanna einkennist svæðið af gróðurlitlum sand- og hraunsléttum með mikilli víðáttu. Mér fannst frábært að fá að vinna að raunverulegu verkefni sem skiptir samfélagið máli og finnst mikilvægt að svona verkefni standi meistaranemendum til boða,“ segir Guðrún að lokum en rannsóknina vann hún á árunum 2014 til 2016.

Nýjar fréttir