8.4 C
Selfoss

Uppbygging sextíu rýma hjúkrunarheimilis í Árborg hafin

Vinsælast

Heilbrigðisráðherra og bæjarstjóri Árborgar munduðu í dag skófluna og hófu jarðvinnu fyrir byggingu sextíu rýma hjúkrunarheimilis sem ætlað er fyrir íbúa í sveitarfélögum á Suðurlandi. Byggingaframkvæmdir hefjast af fullum krafti í desember.

Byggingin hefur verið áformuð frá árinu 2015 og er því mikið gleðiefni fyrir íbúa svæðisins að framkvæmdir séu hafnar. Í hönnunarsamkeppni sem fór fram árið 2017 varð tillaga Urban arkitekta ehf. og LOOP architects aps. hlutskörpust.

Hjúkrunarheimilið er samstarfsverkefni sveitarfélagsins Árborgar og heilbrigðisráðuneytisins. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með byggingu hjúkrunarheimilisins. Verkefnastjóri á framkvæmdastigi er Hreinn Sigurðsson.

Byggingin mun standa við hlið Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, við bakka Ölfusár. Hún verður rúmlega 4.000 fermetrar, en kann að þykja óvenjuleg útlits. Hún verður hringlaga, á tveimur hæðum, með stórum og skjólgóðum garði í miðjunni. Hvert hjúkrunarrými mun hafa einkasvalir eða garðskika sem liggja ýmist inn í garðinn eða út á við. Á heimilinu er ætlunin að gera íbúum kleift að sinna sem flestum þáttum daglegs lífs, þrátt fyrir ýmsa aldurstengda kvilla.

Kostnaður við byggingu hússins verður alls 2,9 milljarðar króna. Þar af kostar bygging hússins 2,2 milljarða króna. Verktakafyrirtækið Eykt bauð best fimm fyrirtækja í útboði sem lauk 30. september síðastliðinn. Áætlað er að byggingaframkvæmdum ljúki í ágúst 2021, en að fyrstu íbúar flytji inn strax þá um haustið.

Nýjar fréttir